Golfsamband Íslands

Rafmagnið er í aðalhlutverki á Brautarholtsvelli – umhverfisvæn orka notuð í 98% af slætti á vellinum

Golfklúbbur Brautarholts verður í fremstu röð á heimsvísu á næsta ári þegar kemur að notkun á vélum sem ganga fyrir umhverfisvænni orku. Á þessu ári voru 26 rafmagns sláttu-róbótar við störfu á Brautarholtsvelli og næsta sumar verða flatir og teigar slegnir með nýrri rafknúinni Toro-sláttuvél sem klúbburinn festi nýverið kaup á. Brautarholtsvöllur verður þar með umhverfisvænasti golfvöllur í heimi segir í tilkynningu frá Brautarholti sem er hér fyrir neðan.

Nánar um nýju sláttuvélina hér:

Golfklúbbur Brautarholts gekk nýlega frá kaupum á rafknúinni sláttuvél fyrir flatir og teiga. Nýja vélin bætist í hóp 26 sláttu-róbóta sem einnig ganga fyrir rafmagni og hafa séð um slátt á brautum vallarins.

Næsta sumar verður því 98% af golfvellinum slegið með vélum sem ganga fyrir umhverfisvænni orku. Það eru einungis örfá krefjandi svæði, t.d. í halla við tjarnir, þar sem enn þarf að slá með vélum knúnum jarðefnaeldsneyti.

Eftir því sem best er vitað er Brautarholt eini golfvöllurinn í heiminum sem hefur tekið svo stórt skref í notkun umhverfsvænnar orku við slátt. Nýja sláttuvélin heitir Toro Greensmaster eTriFlex 3370 og er flaggskip framleiðandans Toro. Hinn sögufrægi St Andrews golfvöllur tilkynnti nýlega að þar sé verið að taka sömu vél í notkun, svo við erum í góðum félagsskap hvað þetta varðar. Fyrir voru sláttu-róbótar frá Husqvarna sem golfvellir í nágrannalöndum okkar eru í sífellt meiri mæli að beita á sínar brautir.

Almennt eru golfvellir á Íslandi á meðal þeirra umhverfisvænustu í heimi. Hér er lítið um eiturefnanotkun og mun minni þörf á vökvun heldur en víða erlendis. Í raun má segja að það sé einungis í norðvestur Evrópu sem gras helst grænt allt sumarið frá náttúrunnar hendi. Annars staðar í heiminum þarf að vökva öll slegin svæði nánast daglega, með tilheyrandi kostnaði og álagi á vatnsbúskap.

Næst þegar yfirhafnir og regnhlífar eru dregnar úr golfpokanum er því gott að muna að rigningin er ekki bara góð, heldur afskaplega umhverfisvæn. Þegar saman fer notkun á endurnýjanlegri orku við sláttinn og náttúruleg vökvun sýnist okkur því óhætt að kalla Brautarholt umhverfisvænsta golfvöll í heimi!

Frá Brautarholtsvelli Myndsethgolfis
Séð yfir 1 braut á Brautarholtsvelli Myndsethgolfis
Séð yfir 1 braut á Brautarholtsvelli Myndsethgolfis
Séð yfir 1 braut á Brautarholtsvelli Myndsethgolfis
Exit mobile version