Auglýsing

Perla Sól Sigurbrandsdóttir fór upp um 864 sæti á heimslista áhugakylfinga í kvennaflokki þegar listinn var uppfærður í gær.

Perla Sól, sem er fædd árið 2006 og keppir fyrir Golfklúbb Reykjavíkur, náði flottum árangri á sterku áhugamannamóti á Englandi á dögunum. Þar keppti hún á áhugamannamóti R&A fyrir stúlkur yngri en 16 ára (Girls U16 Amateur Championship) sem fram fór á Englandi dagana 22.-24. apríl 2022.

Alls tóku 90 keppendur þátt og komu þeir frá fjölmörgum löndum víðsvegar úr heiminum.

Keppnisfyrirkomulagið var 54 holu höggleikur en R&A setti mótið á laggirnar til þess að búa til verkefni fyrir efnilegustu kylfingana í stúlknaflokki yngri en 16 ára.

Perla Sól var á meðal 10 efstu alla þrjá keppnishringina en hún endaði í 6. sæti á +11 samtals (77-75-75) 227 högg.

Perla Sól er í sæti nr. 769 á heimslistanum en hún var áður í sæti nr. 1.633. Með þessu risastökki á heimslistanum opnast nýir möguleikar fyrir Perlu Sól hvað varðar þátttöku á sterkum áhugamannamótum.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, er í sæti nr. 315 og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG og Íslandsmeistari í golfi 2021, er í sæti nr. 681. Ragnhildur og Hulda Clara leika báðar með bandarískum háskólaliðum.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ