/

Deildu:

Auglýsing

– Breyttar áherslur skiluðu frábærum árangri hjá Axel Bóassyni

Tímabilið hjá Axel Bóassyni Íslandsmeistara í golfi 2017 var í einu orði sagt frábært. Eftir erfiða byrjun sneri Keilismaðurinn hlutunum sér í hag og stóð uppi sem sigurvegari á Nordic atvinnumótaröðinni. Með árangri sínum tryggði Axel sér keppnisrétt á næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu á næsta tímabili. Golf á Íslandi ræddi við Axel á dögunum í klúbbhúsinu við Hvaleyrarvöll. Þar sagði hinn högglangi kylfingur frá því hverju hann hefur breytt til þess að bæta árangur sinn. Markviss hugarþjálfun og nýjar áherslur í æfingum þar sem stutta spilið og púttin voru í aðalhlutverki.

Axel Bóasson er 27 ára gamall og hefur tvívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi. Hann hefur á undanförnum misserum reynt fyrir sér á atvinnumótaröð á Norðurlöndunum og uppskeran var frábær á þessu ári.

Það sem stendur upp úr er markviss hugarþjálfun

„Ég hef breytt miklu hjá mér og það skilaði árangri. Það sem stendur upp úr er markviss hugarþjálfun undir stjórn Jóhanns Inga Gunnarssonar. Og breyttar áherslur í æfingum, minna magn og meiri gæði. Þetta er í raun það sem ég lagði mesta áherslu á. Byrjunin á tímabilinu var ekki góð, ég komst ekki í gegnum niðurskurðinn á fyrstu mótunum, alveg eins og árið þar á undan. Ég gafst ekki upp og Jussi Pitkanen afreksstjóri GSÍ kveikti á nokkrum ljósum hjá mér þegar hann var kylfuberi hjá mér á fjórða mótinu þar sem ég komst ekki í gegnum niðurskurðinn. Ég er með það sem markmið að sjá fyrir mér hvert einasta högg, lýsa því hvernig boltaflugið á að vera og hvert boltinn á að fara nákvæmlega. Ég lýsti því högginu sem ég ætlaði að slá fyrir Jussi í hvert einasta sinn sem ég sló. Ég komst ekki í gegnum niðurskurðinn en það sem Jussi sagði við mig eftir hringinn hvatti mig áfram. Hann benti mér á að ég hefði slegið sex fullkomin golfhögg á hringnum og það væri jafnvel fjórum höggum betra en hjá toppkylfingi á sterkustu atvinnumótaröðunum. Hann lagði til að gjörbreyta áherslum í æfingunum, minna magn, meiri gæði og 70 % af æfingunum væru í stutta spilinu og púttum.“

 

Axel Bóasson GK Íslandsmeistari 2017

Gæði frekar en magn í æfingum

Fyrir tveimur árum æfði Axel mikið og hann var oft á æfingasvæðinu í allt að 10 tíma að slá golfbolta. Þrátt fyrir miklar æfingar skilaði það sér ekki og er hann sannfærður um að gæðin séu lykilatriði á bak við góðan árangur á þessu ári.

„Ég hef líka fækkað mistökunum sem hafa kostað mig vítishögg á hringjunum. Í fyrra var ég með um eitt högg að meðaltali á hring, sem er of mikið. Mér hefur tekist að bæta þann hluta um tugi prósenta. Ég finn að mér líður betur en áður, ég hef meiri trú á sjálfum mér og huglægi þáttur leiksins er það sem ég hef unnið hvað mest með. Sjálfstraustið kemur í kjölfarið og það smitast út í leikinn. Æfingarnar í stutta spilinu hafa einnig skilað meira sjálfstrausti, ef ég hitti ekki flötina þá veit ég að það eru góðar líkur á að vippa ofan í eða tryggja í það minnsta par eða skolla í mesta lagi.

Með sveifluhraða líkt og Dustin Johnson

Axel er einn högglengsti atvinnukylfingurinn í Evrópu og með sveifluhraða sem jafnast á við það sem kappar á borð við Dustin Johnson eru með.

„Ég hef alltaf getað slegið langt og ég þarf að æfa þann hluta leiksins samhliða því að bæta mig í því sem ég þarf að laga. Ef ég skipti golfinu mínu upp í 100 hluta og bæti mig um 1% í hverju atriði þá er ég með 100% bætingu. Þannig er ég að leggja þetta upp og smátt og smátt verð ég komin nær markmiðum mínum. Það hefur einkennt íslenska kylfinga að þeir séu góðir í að slá boltann en huglægi þátturinn og stutta spilið er það sem hefur vantað hvað mest.“

Stigameistari á Nordic Tour

Axel lék gríðarlega vel á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á þessu ári. Hann var ellefu sinnum á meðal tíu efstu. Sigraði á tveimur mótum, varð þrisvar sinnum í öðrum sæti og einu sinni í þriðja sæti. Hann er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fagnar stigameistaratitlinum á þessari mótaröð sem er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

„Árangurinn á tímabilinu var framar vonum. Ég stefndi á að halda keppnisréttinum á Nordic Tour og fá betri tilfinningu fyrir því að leika sem atvinnumaður. Ég og Jóhann Ingi vorum sammála um að ég þyrfti að búa til „heimavallarstemningu“ á mótunum erlendis. Það tókst, mér leið eins og ég væri að spila á Íslandi, væri þá í toppbaráttu og ætti möguleika á að sigra. Ég sá þetta í fyrra, ég sigraði á þremur af fjórum mótum á Eimskipsmótaröðinni á Íslandi og ég náði ekki að fylgja því eftir erlendis. Góð byrjun hjá Haraldi Franklín á Nordic Tour á þessu ári hvatti mig einnig áfram. Ég vissi að við Haddi værum á svipuðu róli í okkar leik en náði ekki að koma því til skila erlendis. Með markvissum aðferðum náði ég að núllstilla mig andlega og koma sterkari til baka. Þetta ferðalag er rétt að byrja og ég hlakka til að halda áfram að æfa hugarfarið og andlega þátt leiksins.“

Eftirminnilegur lokakafli á Íslandsmótinu

Axel fagnaði sínum öðrum Íslandsmeistaratitli á heimavelli. Lokakaflinn á því móti var stórkostlegur og einn sá eftirminnilegasti í langri sögu Íslandsmótsins.

„Ég er Íslandsmeistari og það tekur það enginn af mér,“ segir Axel í léttum tón þegar hann er inntur eftir því hvort hann hafi hugsað oft um innáhöggið á lokaholunni á lokahringum. Axel var með þriggja högga forskot á Harald Franklín fyrir lokaholuna. Annað höggið hjá Axel með 58 gráðu fleygjárninu fór of langt og fór í steinana vinstra megin við flötina. Úr erfiðri stöðu fékk Axel skramba (+2) og Haraldur Franklín setti niður magnað pútt fyrir fugli og jafnaði við Axel.

Ég var alveg brjálaður út í sjálfan mig

„Ég viðurkenni alveg að ég hugsaði mikið um þetta högg þegar ég gekk frá 18. flötinni og niður á 10. teig á leið í umspilið gegn Haraldi Franklín. Ég var alveg brjálaður út í sjálfan mig. Vinur minn sem var með mér á pokanum stoppaði mig á leiðinni og hélt ágæta ræðu yfir mér. Ég náði mér niður, leit á næstu þrjár holur sem holukeppni og mér fannst það sterkt að koma til baka og vinna þetta eftir þessa hörmung á lokaholunni.“


Axel segir að að hann hafi gert grundvallarmistök í öðru högginu á lokaholunni sem var af um 80 metra færi. „Ég var alveg rólegur að mér fannst en ég gerði mér ekki grein fyrir öllu adrenalínflæðinu sem var til staðar. Höggið var því alltof langt. Ég lærði af þessu og ég veit að í þessari stöðu getur þetta komið fyrir. Eigum við ekki að segja að þetta hafi bara verið gott fyrir sjónvarpið,“ bætir Axel við og brosir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ