Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á LET Evrópumótaröðinni í Abu Dhabi ásamt Kristni Jósep bróður sínum sem verður með henni á lokaúrtökumótinu. Mynd/LET
Auglýsing

„Mér líður bara vel. Ég ætla að fara inní þetta mót alveg eins og hin tvö stigin. Reyna að vera afslöppuð með engar væntingar, þolinmóð og gera mitt besta,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í samtali við golf.is en hún hefur keppni á lokaúrtökumótinu fyrir sterkustu atvinnumótaröð kvenna í atvinnugolfi á miðvikudaginn – LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum.

Lokaúrtökumótið nálgast hjá Ólafíu – hvað þarf hún að gera?

Keppt er á LPGA-International golfsvæðinu í Daytona á Miami. Ólafía hefur keppni á Hills vellinum og slær hún fyrsta höggið kl. 14.17 miðvikudaginn 30. nóvember eða kl. 9.17 að staðartíma. Ólafía verður með Mindy Kim frá Bandaríkjunum og Holly Clyburn frá Englandi í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana. Á þriðja keppnisdegi verður ræst út eftir skori og verður sá háttur hafður á það sem eftir er keppninnar.

Á öðrum keppnisdegi leikur Ólafía á Jones vellinum og hefur hún leik kl. 13.11 að íslenskum tíma. Ólafía hefur dvalið við æfingar á keppnisvöllunum í tæplega viku og nýtt tímann vel.

[pull_quote_right]Ólafía fékk góð ráð frá leikmönnum sem hafa spilað á þessum völlum áður [/pull_quote_right]

„Undirbúningur hefur gengið vel. Ég mætti snemma á keppnisstaðinn til að venjast grasinu og hefja hörkuæfingar. Á þessum tíma er komið að því að halda æfingunum við og spara kraftana. Þetta er mjög langt mót að það er mjög mikilvægt að spara kraftana á næstu tveimur dögum fyrir mótið,“ segir Ólafia en hún fékk góð ráð frá leikmönnum sem hafa spilað á þessum völlum áður og komist í gegnum lokaúrtökumótið á LPGA.

„Þessir leikmenn hafa allir mælt með því að spila mikið um leið og ég mætti á svæðið og æfa mjög mikið – og draga síðan úr magninu og leika aðeins 9 holur síðustu tvo dagana fyrir mótið. Ég er því búinn að leika fjóra 18 holu hringi. Á æfingum hef ég lagt mesta áherslu á vipp og pútt – ásamt því að negla niður gott leikskipulag.“

Ólafía segir að báðir keppnisvellirnir séu skemmtilegir og nokkuð ólíkir. „Hills völlurinn er aðeins þrengri og er með miklu landslagi. Flatirnar eru mjög litlar. Jones völlurinn er aðeins opnari og flatirnar eru með meira landslagi en þetta eru skemmtilegir vellir,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um keppnisvellina:

 

 

Hvað þarf Ólafía Þórunn að gera til að komast alla leið?

Ólaf Þórunn þarf að enda í hópi 20 efstu eftir fimmta keppnisdaginn til þess að öðlast keppnisrétt á LPGA mótaröðinni. Í fyrra voru þrír kylfingar jafnir á -4 samtals eftir 90 holur í 19.-21. sæti og léku þær í bráðabana um sæti nr. 19. og 20. Sú sem varð í 21. sæti sat eftir með sárt ennið. Alls komast 70 efstu kylfingarnir í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnisdaginn.

Hvað eru margir sem taka þátt á lokastiginu?

Það eru 158 kylfingar sem taka þátt og aðeins 20 efstu fá keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

Hvar er leikið og hvenær?

3. stigið (lokaúrtökumótið) hefst miðvikudaginn 30. nóvember og lokakeppnisdagurinn fer fram sunnudaginn 4. desember. Leikið á LPGA International golfsvæðinu við Daytona Beach, Flórída. Keppnisvellirnir eru tveir og heita þeir Hills og Jones.

Lokahringurinn eða sá fimmti verður leikinn á Hills vellinum. Allir keppendur verða að hafa aðstoðarmann með á vellinum og verður Kristinn Jósep Kristinsson bróðir Ólafíu með henni sem kylfuberi. Bannað er að nota rafmagnskerrur.
Ólafía getur með góðum árangir bætt stöðu sína á styrkleikalista Symetra mótaraðarinnar.

Hvað ef Ólafía endar í sætum nr. 21.-45?

Þá fær Ólafía takmarkaðan keppnisrétt í styrkleikaflokki 17 á LPGA. Það þýðir í raun að hún fær einhver tækifæri á þeim mótum sem eru ekki ofarlega í forgagnsröðun hjá þeim kylfingum sem eru með fullan keppnisrétt.

Er verðlaunafé á lokaúrtökumótinu?

þeir kylfingar sem enda í sætum 1.-20. fá verðlaunafé. Sá sem sigrar fær um 550.000 kr. í sinn hlut og verðlaunféð fer síðan lækkandi. Sá sem endar í 20. sæti má gera ráð fyrir að fá um 150.000 kr. í verðlaunafé.

Hver er kostnaðurinn við að taka þátt?

Fyrir þátttöku á 1. stigi úrtökumótsins þurfa keppendur að greiða 280.000 kr. í keppnisgjald. Forgjafartakmörkin eru 4 eða lægra. Ásamt ýmsum öðrum kvöðum um stöðu á heimslista eða atvinnumótaröð. Og þú ert bara úr leik ef þú leikur á 88 höggum eða meira. Engar afsakanir.

Á 2. stigi úrtökumótsins þurfa keppendurnir sem komu úr 1. stiginu að greiða340.000 kr. En þeir sem komu beint inn á 2. stigið greiða 450.000 kr. í þátttökukostnað. Og samkvæmt reglum LPGA eru aðeins greiðslukort tekin gild.

Ólafía þarf ekki að greiða keppnisgjald á lokastiginu þar sem hún byrjaði á 1. stiginu. Alls hefur hún greitt rúmlega 620.000 kr. í keppnisgjöld fyrir þetta mót. Þeir kylfingar sem koma beint inn á lokaúrtökumótið þurfa að greiða samtals 620.000 kr. fyrir að taka þátt.

Verður sýnt beint frá mótinu?

Nei það verður ekki sýnt í sjónvarpi. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu LPGA verður skor keppenda uppfært eftir hverja holu á heimasíðum LPGA og Symetra. Golf.is mun fylgjast grannt með gangi mála og verður með puttann á púlsinum alla fimm keppnisdagana á Twittersíðu Golfsambandsins og að sjálfsögðu hér á golf.is.

Hvað eru margir sem reyna sig á úrtökumótinu?

1. stigið: Alls reyndu 380 kylfingar við 1. stigið og 92 þeirra komust áfram.
2. stigið: Alls reyndu 192 kylfingar við 2. stigið og komust 84 þeirra áfram á lokastigið.
3. stigið : Alls verða 158 kylfingar sem keppa á lokastiginu og 20 efstu fá keppnisrétt á LPGA.

Hvernig gekk Ólafíu á 1. stiginu

Alls eru úrtökumótin þrjú og er þeim skipt upp í þrjá hluta. Ólafía endaði í fimmtasæti á 1. stiginu sem fram fór í lok ágúst. Þar var keppt á þremur keppnisvöllum. Mission Hills í Kaliforníu, Rancho Mirage,(Palmer og Dinah Shore); Westin Mission Hills (Gary Player). Ólafía endaði í 5. sæti á -7 samtals (68-71-70-72) 281 högg.

Hvernig gekk Ólafíu á 2. stiginu?

Leikið var á Plantation Golf og Country Club í Venice í Flórída, (Bobcat og Panther völlunum) í lok október. Ólafía endaði í 12. sæti á parinu samtals 288 högg (72-73-71-72).

Hvað þýðir það fyrir Ólafíu að hafa komist í gegnum 2. stigið?

Hún hefur með árangri sínum á 2. stiginu tryggt sér keppnisrétt á Symetra mótaröðinni sem er næst sterkasta mótaröðin í Bandaríkjunum. Er samskonar mótaröð og LET Access mótaröð í Evrópu en er jafnvel á styrkleika við sjálfa LET Evrópumótaröðina.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ