Auglýsing

„Þetta var venjulegur dagur hjá mér miðað við það sem var í gangi í gær. Mér leið vel þegar ég vaknaði í morgun og ég vissi að þetta yrði allt öðruvísi en á þriðja hringnum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við golf.is rétt eftir að hún hafði lokið við sitt fyrsta LPGA mót á ferlinu á Ocean vellinum á Bahama-eyjum.

Ólafía Þórunn lék lokahringinn á 71 höggi eða -2 og endaði hún í 69.-72. sæti á -5 samtals (71-68-77-71). Aðstæður á Ocean vellinum voru nokkuð krefjandi í dag en mikið rok var eftir hádegi og um tíma duttu nokkrir regndropar á keppendur.

„Ég var með lag á heilanum á öllum hringnum eftir Jón Jónsson, Your Day, og það má þakka Thomas Bojanowski kærastanum mínum og aðstoðarmanni mínum í þessu móti fyrir það lagaval. Gott sálfræðitrix hjá honum,“ bætti Ólafía við en hún var að leika á sínu fyrsta LPGA móti á ferlinum.

„Ef ég dreg þetta mót saman þá var geggjað að fá að spila með Cheyenne Woods vinkonu minni fyrstu tvo hringina. Það hjálpaði mér mikið, sjálfstraustið er meira hjá mér eftir þetta mót en fyrir það. Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni í Ástralíu og ég lærði helling af þessu móti. Ég fór aðeins að efast um sjálfa mig á þriðja hringnum en það er frábært að leika þrjá hringi af fjórum undir pari – ég tek það með mér í framhaldið.

Hún hóf leik á 10. teig í dag og byrjaði af krafti með því að fá tvo fugla á 11. og 14. braut. Á 11. braut var hún rétt við holuna eftir þriðja höggið og þurfti aðeins að ýta boltanum ofaní af stuttu færi. Á 14. braut setti hún niður um 7 metra pútt fyrir fugli.

Ólafía lék vel í dag en hún lenti í erfiðri stöðu á 16. braut þar sem að innáhöggið hennar fór of langt og endaði boltinn á versta stað í glompu fyrir aftan flötina. Ólafía gat ekki slegið beint á pinnann og varð að slá til hliðar inn á flötina. Hún átti um 45 metra pútt eftir og þrípúttaði af því færi. Á síðari 9 holunum var Ólafía í fuglafæri á öllum brautunum nema þeirri 9. Hún fékk góðan fugl á 7. braut þar sem hún setti niður mjög langt pútt fyrir fuglinum. Hún var ansi nálægt því að vera með nokkra fugla til viðbótar á hringnum.

Hún var í ráshóp með keppanda frá Suður-Kóreu, Sun Young Yoo, sem hefur sigrað á tveimur LPGA-mótum á ferlinum. Ólafía var á -3 samtals 69.-76. sæti fyrir lokahringinn.

IMG_6542
Staðan á mótinu: 

Hér fyrir neðan verða upplýsingar um gang mála uppfærðar með reglulegu millibili á Twittersíðu GSÍ.

 


3. keppnisdagur: 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á +4 eða 77 höggum á þriðja keppnisdeginum á Pure Silk mótinu á LPGA mótaröðinni á Bahama-eyjum í dag. Það gekk fátt upp hjá Ólafíu Þórunni í dag en hún fékk einn fugl, fimm skolla og hún tók tvívegis víti á hringnum. Ólafía er í 69.-76. sæti fyrir lokahringinn sem fram fer á sunnudaginn (71-68-77).

„Þetta var erfiður dagur, hausinn á mér var á fullu í allan dag, og ég náði ekki að slaka á og einbeita mér. Ég veit ekki hvað þetta var, ég var að flýta mér, hugsaði ekki höggin í gegn, leikskipulagið var ekki gott, ég lenti í mörgum glompum sem ég er ekki vön að gera,“ sagði Ólafía Þórunn við golf.is í dag.

[pull_quote_right]Þetta var erfiður dagur, hausinn á mér var á fullu í allan dag, og ég náði ekki að slaka á og einbeita mér.[/pull_quote_right]

„Stundum voru höggin mjög nálægt því að vera geggjuð högg en þau fóru síðan í glompu. Þetta var stöngin út í dag. Á 18. holu var þetta bara orðið vandræðalegt þegar ég ýtti boltanum út í stað þess að draga hann til vinstri.

Það var svo margt sem fór úrskeiðis, var skrítinn í dag. Ég höndlaði þetta ágætlega þrátt fyrir mótlætið. Mér leið eins og Sherlock Holmes karakterinn í sjónvarpsþáttunum sem ég er að horfa mikið á. Hann er ofurnæmur á allt í kringum sig og ég leyfði því að gerast í dag. Það voru fuglarnir, fólkið í kringum mig og allskonar hlutir sem ég var með athyglina á af og til. Þetta er eitthvað sem ég þarf að fara betur í gegnum og læra af fyrir framhaldið,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við golf.is á Ocean vellinum á Bahama-eyjum í dag.

[quote_center]Mér leið eins og Sherlock Holmes karakterinn í sjónvarpsþáttunum sem ég er að horfa mikið á. [/quote_center]

Ólafía byrjaði ágætlega í dag og fékk fjögur pör á fyrstu fjórum holunum. Hún náði að bjarga sér vel á 1. braut þar sem hún kom sér í erfiða stöðu eftir innáhöggið sem lenti utan flatar. Hún bjargaði sér einnig á 3. braut þar sem hún tryggði parið með höggi úr glompu við flötina.

Hún fékk skolla á 5. braut sem er par 3 hola, þar sem hún sló í glompu í upphafshögginu og hún þurfti tvö pútt á flötinni. Á 8. braut fékk Ólafía víti þar sem hún sló í hliðarvatnstorfæru vinstra meginn við flötina í upphafshögginu. Hún vippaði inn að stöng og tryggði parið. Á 9. braut sló hún innáhöggið í glompu við flötina og tvípúttaði af frekar stuttu færi.

Ólafía fékk skolla á 10., en lagaði stöðu sína með góðu 7 metra pútti fyrir fugli á þeirri 12. Hún fékk síðan fjögur pör í röð og var nokkuð nálægt því að setja niður pútt fyrir fugli á 14., og 16. Á 17. braut sem er par 3 hola sló Ólafía langt til vinstri og náði ekki að vinna úr þeirri stöðu, annað höggið var misheppnað og hún fékk skolla.

Upphafshöggið á 18. fór í vatnstorfæruna hægra meginn við brautina, þaðan sló hún frekar stutt í þriðja högginu. Ólafía vippaði næstum því í fyrir parinu á 18 en varð að sætta sig við skolla.

IMG_6211-2

2. keppnisdagur: 

 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék frábært golf á öðrum keppnisdeginum á Pure Silk mótinu á LPGA mótaröðinni í dag á Bahamas. GR-ingurinn lék á 68 höggum eða -5 og er hún samtals á -7 (71-68) eftir fyrstu tvo keppnisdagana. Ólafía Þórunn komst þar með í gegnum niðurskurðinn að loknum 36 holum en hún er í 20.-25 sæti þegar þetta er skrifað.

Fjórir bandarískir kylfingar eru í efstu sætunum en Brittany Lincicome er á -17 (64-65) og þar á eftir kemur Lexi Thompson á -16. Thompson átti frábæran hring í dag þar sem hún lék á 61 höggi eða -12.

Gerina Piller er á -14 (67-65) og Stacy Lewis er á -13 (66-67).

„Þetta var mjög skemmtilegur hringur, gaman að spila með þessum kylfingum. Mér líður mjög vel með þetta. Ég er ekki búinn að fara alveg yfir tölfræðina á þessum hring en ég var ekki með skolla sem er mjög gott. Það voru nokkur högg sem hefðu mátt vera betri og ég setti mig í nokkrar erfiðar stöður sem ég leysti ágætlega,“ sagði Ólafía Þórunn við golf.is rétt eftir hringinn á Ocean vellinum á Bahamas í dag. Ólafía fékk alls fimm fugla á hringnum en athygli vekur að hún náði ekki neinum á par 5 holunum. „Besti hringur minn í móti er -7 og þessi kemst því nálægt honum. En þetta er allavega besti hringurinn hjá mér á LPGA,“ sagði Ólafía Þórunn og var rokinn á æfingasvæðið þar sem hún ætlaði að pútta áður en sólin settist á Bahamas rétt fyrir kl. 17.30 að staðartíma.

1. keppnisdagur:

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjaði glæsilega á fyrsta keppnisdeginum á Pure Silk meistaramótinu á Ocean vellinum á Bahamas í dag. GR-ingurinn lék á tveimur höggum undir pari á fyrsta LPGA móti hennar á ferlinum en hún lék á 71 höggi.

Ólafía lék mjög stöðugt golf og voru upphafshögg hennar frábær á hringnum og gaf það henni mikið sjálfstraust. Keppni er ekki lokið í dag þegar þetta er skrifað en Ólafía er í 20. sæti eins og staðan er núna.

„Mér líður mjög vel og þar var virkilega gaman að spila í dag,“ sagði Ólafía við golf.is rétt eftir að hún hafði lokið við hringinn í dag.

Hún sló fyrsta höggið í ráshópnum með Cheyenne Woods og Natalie Gulbis og viðurkennir Ólafía að hjartað hafi aðeins slegið örar fyrir það högg.

„Gaurinn sem var að ræsa okkur út sagði að það væru svona 2 mínútur í það að ég ætti að slá. Hann hafði varla lokið við að segja þetta þegar hann kallaði mig upp, þetta voru svona 30 sekúndur, ég var því ekki alveg tilbúinn. Það fór aðeins til vinstri en var allt í lagi og ég fékk par. Ég var að leika svipað golf í dag og á úrtökumótinu fyrir LPGA. Hitti mikið af brautum í upphafshöggunum, margar flatir í tilætluðum höggafjölda og púttaði vel. Upphafshöggin voru mjög góð og ég fann einhvern takt á hringnum sem ég hef ekki verið með lengi. Upphafshöggin voru mun lengri í dag en fyrir nokkrum vikum, og það var ánægjulegt,“ bætti Ólafía við en hún hitti 11 brautir, 14 flatir og var með 30 pútt á hringnum.

Það var létt yfir ráshópnum á Ocean vellinum í dag og spjölluðu keppendurnir mikið saman. Þá sérstaklega Cheyenne Woods og Ólafía en þær voru skólafélagar í Wake Forest á sínum tíma. „Tíminn flaug í dag, við Cheyenne vorum að rifja upp gamlar minningar úr skólanum, hvernig við vorum að stríða þjálfaranum okkar, og allskonar sögur sagðar. Natalie Gulbis var líka frábær, skemmtilegur kylfingur, og það var virkilega gaman að fá að leika með henni,“ bætti Ólafía við.

Ólafía Þórunn ætlar að halda sig við sömu leikáætlun fyrir 2. keppnisdaginn. „Ég fer í þetta mót eins og úrtökumótið. Er ekki með miklar væntingar, reyni bara að fá eins mörg pör og hægt er, það er geggjað ef fuglarnir koma og ég mun fá einhverja skolla. Þetta er planið mitt og ekkert flókið við það,“ sagði Ólafía en hún mun hefja leik á öðrum keppnisdegi kl. 17.37 að íslenskum tíma eða 12.37 að staðartíma.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ