Site icon Golfsamband Íslands

Ólafía Þórunn: „Hlakka til að takast á við þetta verkefni“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/let.

„Það sem er lykilatriði fyrir mig er að ná að stjórna væntingunum til þess að geta notið þeirrar upplifunar sem bíður mín. Ég er glöð og ánægð með að vera á þessu móti í fyrsta sinn. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni næstu daga. Ég ætla að fara út á völl án þess að hugsa of mikið um hlutina og án þess að setja pressu á mig,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við golf.is þegar hún var innt eftir væntingum sínum fyrir Opna bandaríska meistaramótið sem hefst á fimmtudaginn í Alabama í Bandaríkjunum.

Keppnisvöllurinn er að sögn Ólafíu Þórunnar mjög blautur og harður og blautur vetur hefur sett sinn svip á ástand vallarins.

„Það er útlit fyrir að það verði blautt áfram í þessari viku. Við gátum ekki klárað æfingahringinn á mánudaginn vegna úrkomu og þrumuveðurs. Það má ekki vera úti á vellinum í slíkum aðstæðum. Það kemur bara í ljós hvernig veðrið verður á næstu dögum. Ég mun leika í sömu aðstæðum og allir hinir. Ég ætla ekki að nota orkuna í að hafa áhyggjur af hlutum sem ég get ekki breytt.“

Völlurinn er það blautur að boltarnir grafast oft ofaní jörðina á vellinum, hvort sem það er á braut eða karga. Ólafía segir að bandaríska golfsambandið, USGA, ætli ekki að setja staðarreglu sem leyfi kylfingum að lyfta og hreinsa bolta sem er á braut, líkt og gert er á mörgum atvinnumótum.

„Það hefur aldrei verið gert á Opna bandaríska meistaramótinu og mótshaldarar vilja ekki gefa fordæmi fyrir slíku. Við sjáum til hvernig þetta verður á fimmtudaginn en eins og er þá er mikið vatn á vellinum,“ sagði Ólafía sem hefur sett sér markmið fyrir mótið.

„Markmiðið er að halda áfram að gera þá hluti sem ég hef gert vel á undanförnum vikum. Ég hef bætt leik minn jafnt og þétt. Ég ætla að halda einbeitingu í hverju höggi – án þess að hafa áhyggjur af útkomunni eða skorinu á holunni,“ sagði Ólafía Þórunn.

 

Exit mobile version