N1 mót Golf 14 fór fram á Korpúlfsstaðavelli dagana 6.-7. september. Mótið var ætlað kylfingum úr öllum klúbbum landsins 14 ára og yngri. Keppt var í eftirfarandi flokkum:
13-14 ára drengir
13-14 ára stúlkur
12 ára og yngri drengir
12 ára og yngri stúlkur
Flokkur 13-14 ára drengja bauð uppá mikla spennu, en þar þurfti að leika fjögurra manna bráðabana um sigurinn. Emil Darri Birgisson, Ásgeir Páll Baldursson, Matthías Jörvi Jensson og Barri Björgvinsson léku allir á tveimur höggum yfir pari. Eftir bráðabana var það Emil Darri sem stóð uppi sem sigurvegari. Ásgeir, Matthías og Barri deildu með sér silfrinu, þar sem skyggni var orðið takmarkað á vellinum.

Elísabet Þóra Ólafsdóttir, NK, vann flokk 13-14 ára stúlkna með tíu höggum. Hún lék hringi sína á 75-82 höggum. Hanna Karen Ríkharðsdóttir, GKG, varð önnur og Ester Ýr Ásgeirsdóttir, GK, varð þriðja.

Í flokki 12 ára og yngri voru leiknar 9 holur á báðum keppnisdögum. Emilía Sif Ingvarsdóttir, GO, og Pétur Franklín Atlason, GR, stóðu uppi sem sigurvegarar.


Þetta var síðasta mót tímabilsins á Golf 14 mótaröðinni, sem hefur heppnast gífurlega vel. Mikil gleði hefur verið á mótum og keppendur verið til fyrirmyndar.