Auglýsing

Landsliðshópur Golfsambands Íslands kom saman til æfinga dagana 18.-20. mars 2022.

Á föstudeginum æfði hópurinn í íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar og í knattspyrnuhúsinu Fellinu við Varmá.

Á laugardeginum fóru æfingar fram í aðstöðu GKG í Kórnum og á sunnudeginum í aðstöðu Golfklúbbsins Keili í Hraunkoti.

Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, sá um æfingarnar og var hugarþjálfun fræðsluþema æfingahelgarinnar.

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Bjarki Pétursson, tóku einnig þátt á æfingunum – en atvinnukylfingar hafa tekið virkan þátt í æfingabúðum landsliðsins á undanförnum vikum.

„Fræðsluþema helgarinnar sneri að hugarþjálfun. Tómas Freyr Aðalsteinsson mun halda netfyrirlestur fyrir hópinn í næstu viku en hann er meðlimur í heilbrigðisteymi GSÍ. Æfingaáherslur landsliðshópsins snúa almennt að keppnislíkum æfingum og mér fannst ganga afar vel að tengja æfingar helgarinnar við hugarþjálfun. Við reynum að búa til aðstæður á æfingum sem kveikja á þeim fjölmörgu þáttum sem koma fram í keppnum og þannig undirbúum við okkur sem best. Á æfingum helgarinnar tókst okkur að keyra spennustigið hátt upp og skapa aðstæður sem kalla á óöryggi, pressu, tilhlökkun o.s.fr. Margar æfingar sneru um að slá fá högg sem eykur mikilvægi högganna og líkir eftir bið milli högga úti á velli og þeim tíma sem við höfum til að láta hugann reika,” segir Ólafur Björn sem vinnur markvisst að því að dansa við þægindaramma leikmanna á æfingum landsliðsins.

„Ég er markvisst að dansa við þægindarammann hjá landsliðskylfingum og leggja fyrir þá nýjar og krefjandi æfingar. Mér finnst einstaklega gaman að fylgjast með þeim taka fagnandi á móti áskorunum og leggja sig alla fram við að tækla þær. Það er frábær stemning á æfingunum, kylfingarnir styðja vel við bakið á hvorum öðrum og njóta þess að keppa innbyrðis.”

Þátttaka kylfinga í Landsmótinu í golfhermum setti sinn svip á lokaæfingadag hópsins, þar sem að nokkra kylfinga vantaði á æfinguna.

„Að mínu mati fannst mér Landsmótið í golfhermum heppnast mjög vel. Ég vil fyrir hönd kylfinganna þakka öllum sem lögðu mikla vinnu á sig að koma þessu á laggirnar. Það gerir mikið fyrir metnaðarfulla afrekskylfinga að hafa áþreifanleg markmið fyrir framan sig. Landsmótið, sem hefur verið í gangi síðan í janúar, er mikil lyftistöng fyrir þá. Það var frábært hvað það tókst að skapa flotta umgjörð í kringum mótið,“ bætir Ólafur Björn við en framundan eru spennandi vikur.

„Á næstu dögum fara margir landsliðskylfingar í æfingaferð erlendis en næsta og jafnframt síðasta landsliðshelgi vetrarins fer fram eftir mánuð,“ sagði afreksstjóri GSÍ, Ólafur Björn Loftsson.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ