GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Íslenskir atvinnu- og afrekskylfingar hafa leikið gott golf á alþjóðlegum vettvangi í sumar.

Kylfingarnir okkar leika á mótaröðum um alla Evrópu og er gaman að fylgjast með gengi þeirra og ferðalögum. Í mótavaktinni eru mót vikunnar tekin saman, farið yfir úrslit og spáð fyrir gengi helgarinnar.

Veðrið setti strik í reikninginn á HotelPlanner Tour og LET Access, en leik var frestað á báðum stöðum. Aðstæður voru einnig krefjandi í Danmörku þar sem þrír íslenskir kylfingar léku lokahring sinn á Esbjerg Open mótinu.

LET

Guðrún Brá Björgvinsdóttir leikur á VP Bank Swiss Ladies Open mótinu, sem fer fram 11.-13. september. Mótið er hluti af LET mótaröðinni, sem er sú sterkasta í Evrópu.

Leikið er á Migros Golfpark Holzhausern vellinum í Sviss. Mótið er það níunda á tímabilinu hjá Guðrúnu, en hún situr í 139. sæti stigalistans.

Að tveimur hringjum loknum er Guðrún á einu höggi yfir pari og jöfn í 53. sæti. Hún lék fyrsta hringinn á 73 höggum og þann annan á 70 höggum.

Fyrsti hringur Guðrúnar
Annar hringur Guðrúnar

Þetta er fjórða mótið í röð þar sem Guðrún nær í gegnum niðurskurð, en ríkjandi Íslandsmeistarinn hefur leikið einkar vel á seinni hluta sumarsins.

Hér má fylgjast með skori mótsins

Nordic Golf League

Þrír íslenskir kylfingar léku á Esbjerg Open mótinu í Nordic golf League, sem fram fór dagana 10.-12. september í Danmörku. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, Hlynur Bergsson, GKG, og Hákon Örn Magnússon, GR, voru allir á meðal keppenda.

Dagbjartur lék í sínu fyrsta móti í Nordic Golf League og lauk leik jafn í 11. sæti. Hann lék á pari í mótinu eftir hringi upp á 67-71-75 högg. Aðstæður voru erfiðar og 11. sætið góður árangur á fyrsta móti Íslandsmeistarans á mótaröðinni.

Hringir Dagbjarts

Hlynur Bergsson endaði jafn í 31. sæti á fjórum höggum yfir pari. Hlynur hefur verið iðinn á tímabilinu og leikið í nítján mótum hingað til. Hans besti árangur kom í byrjun ágúst, þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Forsbacka Open mótinu í Svíþjóð.

Hákon Örn lék á 71-75 höggum og náði ekki í gegnum niðurskurð.

Hér má fylgjast með skori mótsins

HotelPlanner Tour

Haraldur Franklín Magnús, GR, leikur í Open de Portugal at Royal Óbidos mótinu í Portúgal sem fer fram dagana 11.-14. september. Þetta er fimmta síðasta mót tímabilsins á HotelPlanner Tour atvinnumótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.

Haraldur tók stórt stökk á stigalista mótaraðarinnar þegar hann endaði annar í Dormy Open mótinu í ágúst. Hann situr í 59. sæti listans og hefur tryggt sér aukinn þátttökurétt á mótaröðinni á næsta ári.

Haraldur er jafn í 46. sæti mótsins, en hann var á pari vallarins eftir tólf holur þegar leik var frestað í dag. Á fyrsta hring lék Haraldur tvo undir pari og er í góðum málum fyrir seinni hluta mótsins.

Skor Haralds

Nick Carlson, GM, er einnig á meðal keppenda í Portúgal þessa vikuna. Hann lék fyrsta hringinn á pari en þann annan á þremur undir pari. Hann er jafn í 34. sætinu og hefur tryggt sér áframhaldandi þátttöku í mótinu.

Nick er í 27. sæti stigalistans, en níu efstu kylfingarnir í lok tímabils vinna sér inn þátttökurétt á DP World Tour mótaröðinni á næsta ári.

Hringir Nick

Hér má fylgjast með stöðu mótsins

LET Access

Andrea Bergsdóttir og Ragga Kristinsdóttir eru á meðal keppenda á Hauts de France Pas de Calais Golf Open mótinu á LET Access mótaröðinni þessa vikuna. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu og mótið það þriðja síðasta á tímabilinu. Bæði Andrea og Ragga eru á meðal efstu kylfinga stigalistans.

Leikið er á Golf Saint Omer vellinum í norðurhluta Frakklands. Völlurinn er par 72 og 5.287 metra langur. Mikil rigning hefur einkennt mótið og hefur leik verið frestað á báðum keppnisdögum.

Ragga Kristinsdóttir er jöfn í efsta sæti mótsins fyrir lokadaginn. Ekki hafa allir kylfingar lokið við annan hring sinn, en þó er líklegt að Ragga verði enn efst þegar lokahringurinn hefst.

Ragga var jöfn í 10. sæti eftir fyrsta hringinn, sem hún lék á einu höggi undir pari. Engin lék betur en Ragga á öðrum hringnum, en hún kom í hús á 67 höggum, fimm undir pari vallarins. Í viðtali við LET Access skrifaði hún gott gengi sitt á að pútterinn væri kominn aftur í gang eftir tímabundna lægð.

Fyrri hringur Röggu
Ofurhringur Röggu

Ragga situr í 6. sæti stigalistans, en hún vann Vasteras Open mótið í Svíþjóð fyrr í sumar, og varð með því fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Hún varð einnig önnur í Swedish Strokeplay Championship mótinu og er í góðum málum fyrir síðustu mót tímabilsins.

Andrea Bergsdóttir var jöfn í 6. sæti eftir fyrsta hring mótsins. Hún lék hann á 69 höggum, þremur undir pari. Annan hringinn lék Andrea á 76 höggum, fjórum yfir pari, og er jöfn í 19. sæti sem stendur.

Andrea situr í 13. sæti stigalistans, en hún endaði m.a. í 3.- og 4. sæti í mótum fyrr í sumar. Hún hefur verið í baráttunni í mörgum mótum og stefnir á stökk upp stigalistann á næstu vikum.

Fyrri hringur Andreu
Seinni hringur Andreu

Efstu sjö kylfingarnir á listanum í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni, svo til mikils er að vinna.

Hér má fylgjast með skori mótsins

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ