GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Íslenskir atvinnu- og afrekskylfingar hafa leikið gott golf á alþjóðlegum vettvangi í sumar.

Kylfingarnir okkar leika á mótaröðum um alla Evrópu og er gaman að fylgjast með gengi þeirra og ferðalögum. Í mótavaktinni eru mót vikunnar tekin saman, farið yfir úrslit og spáð fyrir gengi helgarinnar.

HotelPlanner Tour

Haraldur Franklín Magnús, GR, leikur í Open de Portugal at Royal Óbidos mótinu í Portúgal sem fer fram dagana 11.-14. september. Þetta er fimmta síðasta mót tímabilsins á HotelPlanner Tour atvinnumótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.

Haraldur tók stórt stökk á stigalista mótaraðarinnar þegar hann endaði annar í Dormy Open mótinu í ágúst. Hann situr í 59. sæti listans og hefur tryggt sér aukinn þátttökurétt á mótaröðinni á næsta ári.

Eftir fyrsta hring situr Haraldur jafn í 31. sætinu, en hann lék á tveimur höggum undir pari. Eftir frábæra spilamennsku á fyrstu sautján holunum var Haraldur fimm undir pari. Hann fékk þrjá fugla og einn örn á hring dagsins, en átta högg á átjándu holunni reyndust honum dýr. Í hringrás sinni á Instagram sagði Haraldur það snjóa í Portúgal, og vitnaði þar í snjókallinn(átta högg) á átjándu holunni.

Nick Carlson, GM, er einnig á meðal keppenda í Portúgal þessa vikuna. Hann lék fyrsta hringinn á pari og er jafn í 75. sæti mótsins. Nick er í 27. sæti stigalistans, en níu efstu kylfingarnir í lok tímabils vinna sér inn þátttökurétt á DP World Tour mótaröðinni á næsta ári.

Hér má fylgjast með stöðu mótsins

LET Access

Andrea Bergsdóttir og Ragga Kristinsdóttir eru á meðal keppenda á Hauts de France Pas de Calais Golf Open mótinu á LET Access mótaröðinni þessa vikuna. Mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu og mótið það þriðja síðasta á tímabilinu. Bæði Andrea og Ragga eru á meðal efstu kylfinga stigalistans.

Leikið er á Golf Saint Omer vellinum í norðurhluta Frakklands. Völlurinn er par 72 og 5.287 metra langur. Mikil rigning var á fyrsta keppnisdegi, og fresta þurfti leik tímabundið í hádeginu.

Andrea átti mjög góðan dag í rigningunni og er jöfn í 6. sæti eftir fyrsta hring mótsins. Hún lék á 69 höggum, þremur undir pari, fékk fjóra fugla og einn skolla.

Andrea situr í 13. sæti stigalistans, en hún endaði m.a. í 3.- og 4. sæti í mótum fyrr í sumar. Hún hefur verið í baráttunni í mörgum mótum og stefnir á stökk upp stigalistann á næstu vikum.

Hringur Andreu

Ragga lék á 71 höggi, einu undir pari. Hún fékk þrjá fugla, tvo skolla og er jöfn í tíunda sæti mótsins. Öflug byrjun á mótinu hjá tvíeykinu, og verður spennandi að fylgjast með þeim í toppbaráttu enn eina ferðina.

Ragga situr í 6. sæti stigalistans, en hún vann Vasteras Open mótið í Svíþjóð fyrr í sumar, og varð með því fyrsti íslenski kylfingurinn til að vinna mót á mótaröðinni. Hún varð einnig önnur í Swedish Strokeplay Championship mótinu og er í góðum málum fyrir síðustu mót tímabilsins.

Hringur Röggu

Efstu sjö kylfingarnir á listanum í lok tímabils fá fullan þátttökurétt á LET mótaröðinni, svo til mikils er að vinna.

Hér má fylgjast með skori mótsins

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ