Nú þegar keppnistímabili okkar á Íslandi er lokið vill dómaranefnd, fyrir hönd dómara, þakka kylfingum og golfklúbbum fyrir ánægjulegt samstarf á árinu. Árið var að venju viðburðaríkt, með fjölda móta á vegum GSÍ, almennum opnum mótum og innanfélagsmótum golfklúbba. Aðkoma dómara var því umtalsverð og í flestum tilfellum um sjálfboðavinnu að ræða. Stutt yfirferð á skýrslum dómara af mótum GSÍ sýnir að hegðun leikmanna og heiðarleiki hafa almennt verið til fyrirmyndar, þó miður sé að örfáar undantekningar hafi komið upp.
Þekking leikmanna á golfreglunum er afar mikilvæg til að þeir geti stundað keppnisgolf og því hefur dómaranefndin í ár, sem undanfarin ár, lagt mikla áherslu á fræðslumál. Svo mun verða áfram.
Héraðsdómaranámskeið
Í febrúar á þessu ári var haldið námskeið til undirbúnings héraðsdómaraprófs. Þetta var fjölmennasta námskeiðið til þessa með samtals skráðum þátttakendum rúmlega 200. Þau nýmæli voru í ár að PGA skólinn og afreksstarf GSÍ sendu sína þátttakendur á dómaranámskeið. Seta á þessum námskeiðum er frí fyrir aðila innan GSÍ og ekki skilyrði að próf sé tekið. Prófið í ár tóku rúmlega 120 þátttakendur þar sem tæplega 90 stóðust prófið.
Héraðsdómaranámskeið verður haldið næst í febrúar eða mars á næsta ári, en það verður auglýst síðar.
Landsdómaranámskeið
Landsdómaranámskeið verður haldið í vetur ef næg þátttaka verður. Skilyrði fyrir þátttöku á námskeiðinu eru að hafa haft héraðsdómararéttindi samfellt í a.m.k. þrjú ár, og starfað sem golfdómari á golfmótum sem hafa staðið yfir í samtals 10 daga á þriggja ára tímabili. Námskeiðið verður auglýst síðar. Landsdómaranámskeiðið er, eins og héraðsdómaranámskeiðið, frítt fyrir aðila innan GSÍ.
Alþjóðadómarar
Í ár eignuðumst við 2 nýja alþjóðadómara, sem tóku próf og sóttu námskeið hjá R&A í St. Andrews í Skotlandi í vetur sem leið. Þetta eru þeir Gunnar Gylfason og Haukur Örn Birgisson og óskum við þeim til hamingju með réttindin. Alþjóðadómarar á íslandi eru nú 13 talsins.
Golfreglurnar á íslensku – reglur í gildi til 2028
Allar golfreglurnar hafa verið þýddar á íslensku, ásamt skilgreiningum, skýringum, verklagi nefnda og regluleit leikmanna. Regluleit keikmanna hefur leyst af hólmi sérstaka leikmannaútgáfu reglnanna og er afar öflugt tæki til að fletta upp reglum. Þar velur leikmaður einfaldlega umhverfi eða atriði á yfirlitsmynd til að hefja leit.
Nálgast má rafræna útgáfu af reglunum bæði á vef www.randa.org og í appinu frá randa sem heitir Rules of Golf 2023. Til að sjá reglurnar á íslensku þarf að velja íslensku þegar regluvefur hefur verið valinn eða í uppsetningu innan appsins.
Sýnishorn úr regluleit.

Hér hefur Teigur verið valinn á mynd. Til gamans má geta þess að enskur texti tilheyrandi golfreglunum sem hefur verið þýddur og settur upp fyrir vef og app er rúmlega 200.000 orð. Til samanburðar inniheldur Nýja testamentið um 175.000 orð. R&A hefur ákveðið að reglurnar sem tóku gildi árið 2023 muni gilda í 5 ár, eða til ársins 2028. Þetta er gert m.a. til að samræma að nýju við útgáfu forgjafareglna og einnig við prófun golfbolta sem tekur gildi 2028.