Fyrir rúmum 4 árum fengu Magnús Ingvason, skólameistari Fjölbrautaskólans við
Ármúla, og Guðrún Guðjónsdóttir, íslenskukennari við Borgarholtsskóla, veggspjald með
táknmyndum af öllum golfvöllum landsins í jólagjöf. Veggmyndin er hönnuð og
framleidd af Vegglist og eru myndirnar huldar húð sem skafin er af þegar völlurinn hefur
verið leikinn. Með þessari gjöf voru hjónin komin með verðugt verkefni í hendurnar.
Magnús hafði leikið golf í nokkur ár en Guðrún var nýbyrjuð. Hann var því kominn með
nokkurt forskot á fjölda golfvalla strax í byrjun. Bæði hafa gaman af því að skapa eigin
áskoranir og ákváðu því að grípa þetta tækifæri til að sameina tvö áhugamál, golf og
ferðalög. Magnús þurfti þó að núllstilla spilamennskuna og mæta Guðrúnu „á botninum“
því þau ákváðu að skafa bara af þeim golfvöllum sem þau léku saman.
Áður en veggspjaldið kom til sögunnar jólin 2021 höfðu þau spilað saman á nokkrum
völlum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess og því var byrjað að skafa af þeim.
Sumarið eftir bættust fáeinir vellir við en það var ekki fyrr en 2023 sem verkefnið var
tekið föstum tökum. Sumarfríið var skipulagt með það fyrir augum að skafa sem flesta
velli af kortinu.

Rúntað um Norðvesturlandið
Leiðangurinn hófst í vetrarkulda og vosbúð þann 18. maí en þann dag kláruðu hjónin þá
þrjá velli á Snæfellsnesi sem þau áttu eftir. Þau byrjuðu í Ólafsvík skömmu eftir
morgunverð, léku í Grundafirði um hádegisbil og enduðu á Stykkishólmi í tæka tíð fyrir
kvöldmat. Dágott dagsverk það og ekki laust við að fingurnir væru orðnir dálítið loppnir í
lokin.
Þau létu ekki bugast þótt sveiflan hafi vissulega stirðnað nokkuð við glímuna við
vestanvindinn og lögðu land undir fót í júlí. Markmiðið var einfalt – að spila á öllum sex
golfvöllum Vestfjarðakjálkans á fimm dögum. Röðin var þessi: Patreksfjörður, Bíldudalur,
Dýrafjörður, Bolungarvík, Ísafjörður og að lokum Hólmavík. Veðrið lék við hvern þann
fingur sem hélt utan um golfkylfu og vellirnir komu skemmtilega á óvart.
Ári síðar héldu hjónin einbeitt af stað í sumarfrí og í það sinn var stefnan sett á Norð-
Austurland. Í ferðinni urðu fyrir valinu sjö ólíkir golfvellir, allt frá Ásbyrgi að Akureyri, áður
en þau hittu vinahópinn í árlegri heimsókn til Siglufjarðar. Blönduósi var svo bætt við á
heimleiðinni. Hver völlur hafði sinn sjarma og hjónabandið hélt þrátt fyrir misjafna
spilamennsku.

Sjö vellir eftir
Í ár voru einungis sjö golfvellir eftir á kortinu og ljóst að ekki dugði minna en heil
hringferð um landið til að klára verkefnið. Norðurleiðin var farin og vellirnir „pikkaðir“ upp
hver af öðrum. Völlurinn á Skagaströnd var fyrstur í röðinni og svo þurfti að renna niður í
Vopnafjörð og spila einn hring þar. Vellirnir á Neskaupstað, Eskifirði og Reyðarfirði voru
strikaðir út á einum degi og að lokum Höfn í Hornafirði og Vík í Mýrdal. Síðasti völlurinn
í Vík var leikinn 15. júlí og með honum var þessu afar skemmtilega verkefni lokið.
Frábærir golfvellir um allt land
Allir þessir golfvellir hringinn í kringum landið eru eins misjafnir og þeir eru margir. Það
er aðdáunarvert að sjá lítil byggðarlög úti á landi vera með fínan golfvöll og greinilega er
mikið sjálfboðaliðastarf unnið á mörgum þeirra. Eins er ljóst að á nokkrum stöðum
kemur bæjarfélagið myndarlega að rekstrinum auk þess sem öflug fyrirtæki styrkja
starfsemina.
Eftir alla þessa hringi og rúmlega fjögur þúsund golfholur segja hjónin erfitt að velja
besta golfvöll landsins, margir þeirra eru frábærir. Stundum setti veður strik í reikninginn
og það hefur oft áhrif á upplifun og svo verður að gæta þess að láta ekki slaka
frammistöðu hafa áhrif á matið á vellinum. Stærsta klemman varðaði þó tvo golfvelli á
fyrrnefndu veggspjaldi. Það eru vellirnir á Grenivík og Ásatúni en búið er að leggja þá af.
Vandamálið var leyst með því að fara á staðina þar sem vellirnir lágu og slá boltum þar
sem elstu menn rakti minni til að fyrstu teigar hefðu verið staðsettir.


Skemmtilegt verkefni
Aðspurð segja þau þetta verkefni hafa verið bæði skemmtilegt og gefandi. Þetta hafi
verið gott tækifæri til að heimsækja nánast alla þéttbýlisstaði landsins, njóta matar og
gistingar til viðbótar við golfið. Það er því ljóst að golfvellir, einkum á landsbyggðinni,
draga að sér ferðamenn sem skilja eftir peninga í bæjarfélaginu. Uppáhaldsvöllur þeirra
í dag er þó golfvöllurinn í Öndverðarnesi þar sem þau eru félagsmenn og má finna þau
þar að leik flesta daga.
