/

Deildu:

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/ LPGA
Auglýsing

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir tryggði sér keppnisrétt á LPGA mótaröðinni í golfi með frábærum árangri á lokaúrtökumótinu sem lauk um síðustu helgi. Ólafía er fyrsti íslenski kylfingurinn sem hefur náð þeim árangri að komast inn á sterkustu atvinnumótaröð veraldar, LPGA.

Fyrir ári síðan náði Ólafía Þórunn að komast inn á LET Evrópumótaröðina. Ólöf María Jónsdóttir úr Keili náði því fyrst allra árið 2005 og Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG fylgdi í kjölfarið árið 2007.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er samkvæmt upplýsingum golf.is með öruggt sæti á um 14 mótum af alls 35 á næsta tímabili á LPGA. Mótunum gæti fjölgað hjá Ólafíu en það fer eftir ýmsum þáttum s.s. gengi hennar og eftirspurn hjá þeim sem eru fyrir ofan hana á styrkleikalistanum.

Fyrsta mótið sem stendur  Ólafíu Þórunni til boða á LPGA fer fram á Bahamas eyjum. Það heitir Pure Silk meistaramótið og fer fram dagana 23.-29. janúar. Næsta mót þar á eftir fer fram í Ástralíu 20.-26. febrúar, ISPS Handa, og ætti Ólafía að geta komist inn í það miðað við þær upplýsingar sem GSÍ hefur í höndunum í dag.

Keppnisdagskráin gæti litið svona út hjá Ólafíu. Mótin eru í Bandaríkjunum nema annað sé tekið fram:

Janúar: 23.- 29: Bahamas.  

Febrúar: 13.- 18: ISPS Handa, Ástralía.

Mars: 13.- 19: Founders Cup, Phoenix.  

Mars: 20.- 26: KIA, Golf Club & Spa,Carlsbad, Kalifornía.

Apríl: 10.- 15: Lotte, Ko Olina Golf Club, Kapolei, Hawaii.

Apríl: 24.-30: VOA Las Colinas Country Club, Irving, Texas.

Maí: 15.-21: Kingsmills, Kingsmill Resort, River Course, Williamsburg, Virginia.

Maí: 29. – 4. júní: ShopRite, Stockton Seaview Hotel & Golf Club, Galloway, New Jersey.

Júní: 5.-11: Manulife,  Whistle Bear Golf Club, Cambridge, Ontario, Kanada.

Júní: 12.-18. Mejler, Blythefield Country Club, Grand Rapids, Michigan.

Júní: 19. – 25:  Wallmart, Pinnacle Country Club, Rogers, Arkansas.

Ágúst 21.-27: Canadian, The Ottawa Hunt and Golf Club, Ottawa, Ontario, Canada

Ágúst 28.-3. sept.: Cambia Columbia Edgewater Country Club, Portland, Oregon

Október 16.-22. Swing Skirts, Taívan:

*Mótunum gæti fjölgað en þetta eru mótin sem Ólafía er með keppnsirétt á miðað við þau gögn sem GSÍ hefur frá LPGA.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er fædd 15. okt. árið 1992 og er því 24 ára. Hún er félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur en þar hóf hún ferilinn 10 ára gömul. Ólafía hefur þrívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi. Á Hólmsvelli í Leiru árið 2011, á Leirdalsvelli árið 2014 og á þessu ári setti hún nýtt mótsmet með því að leika á -12 samtals á Jaðarsvelli á Akureyri.

Hvernig gekk Ólafíu á 1. stiginu

Alls voru úrtökumótin þrjú á LPGA og var þeim skipt upp í þrjá hluta. Ólafía endaði í fimmta sæti á 1. stiginu sem fram fór í lok ágúst. Þar var keppt á þremur keppnisvöllum. Mission Hills í Kaliforníu, Rancho Mirage,(Palmer og Dinah Shore); Westin Mission Hills (Gary Player). Ólafía endaði í 5. sæti á -7 samtals (68-71-70-72) 281 högg.

Á 2. stiginu var leikið var á Plantation Golf og Country Club í Venice í Flórída, (Bobcat og Panther völlunum) í lok október. Ólafía endaði í 12. sæti á parinu samtals 288 högg (72-73-71-72).

Ólafía lék með hinu gríðarsterka bandaríska háskólaliði Wake Forest þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2014.

Hún lék á LETAS atvinnumótaröðinni á árinu 2015 á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur. LETAS mótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu og er „hliðarmótaröð“ sjálfrar LET Evrópumótaraðarinnar.

Ólafía endaði í 14. sæti á stigalistanum og komst hún í gegnum niðurskurðinn á 12 mótum af þeim 15 sem hún tók þátt í. Besti árangur hennar var 5. sæti. Hún náði síðan að tryggja sér keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu með frábærum árangri á lokaúrtökumótinu í Marokkó í desember fyrir ári síðan.   

Ólafía lék á alls 9 mótum á LET Evrópumótaröðinni á þessu ári. Hún náði bestum árangri á móti í Tékklandi þar sem hún endaði í 16. sæti. Árangur hennar á móti í Abu Dhabi í október vakti mikla athygli en þar var Ólafí í efsta sæti þegar kepni var hálfnuð. Hún endaði í 26. sæti þegar uppi var staðiði.

Með árangri sínum á lokaúrtökumótinu tryggði Ólafía sér sæti í 12. flokki á LPGA-mótaröðinni. Það þýðir í raun að hún er í 120. sæti á styrkleikalistanum. Miklu máli skipti fyrir hana að vera svona ofarlega á lokaúrtökumótinu. Þessi staða breytist ekkert hjá henni á tímabilinu 2017.

Ólafía er því ávallt næstfremst í röðinni í þessum styrkleikaflokki þegar kemur að því að deila út sætum á þeim mótum sem eru á LPGA-mótaröðinni. Sem dæmi má nefna að í fyrra fengu 15 kylfingar af þeim 20 sem tryggðu sér keppnisrétt á LPGA á lokaúrtökumótinu tækifæri á fyrsta mótinu á tímabilinu 2016. Og á öðru mótinu fengu rúmlega tíu af nýliðunum tækfæri.

Hvað fær hún tækifæri á mörgum mótum?

Það er óvíst og fer allt eftir árangri Ólafíu. Bandaríski kylfingurinn Grace Na var í sömu stöðu og Ólafía í fyrra á lokaúrtökumótinu. Na var í 120. sæti styrkleikalistans á LPGA í 12. flokki og hún lék á 18 mótum. Simin Feng sem sigraði á lokaúrtökumótinu í fyrra fékk 22 mót á LPGA og vann sér inn rúmlega 22 milljónir kr. í verðlaunafé.

Fær Ólafía öruggar tekjur á LPGA?

Nei, líf atvinnukylfinga er flóknara en það. Keppendur fá ekkert verðlaunafé ef árangurinn er ekki góður. Keppendur þurfa sjálfir að standa straum af öllum grunnkostnaði, ferðalögum, upphaldi og gistingu. Ef vel gengur á mótunum dugir verðlaunaféð upp í þann kostnað. Þeir kylfingar sem ná bestum árangri fá góðar tekjur. Margir keppendur eru hins vegar með bakhjarla sem sjá til þess að þeir geti einbeitt sér að íþróttinni.

Á LPGA-mótaröðinni eru allir sterkustu leikmenn veraldar. Stórstjörnur í golfinu á borð við Lydiu Ko, Ariyu Jutanugarn, Brooke M. Henderson, In Gee Chun, Shanshan Feng, Sei Young Kim, Önnu Nordqvist og Brittany Lang.

LPGA-mótaröðin á sér langa sögu og er elsta atvinnudeild kvenna í Bandaríkjunum. Árið 1950 var LPGA stofnað en samtökin eru regnhlífasamtök atvinnukvenna og einnig golfkennara.

Á mótaröðinni 2017 verða alls 35 mót og fara þau fram víðsvegar um veröldina en flest í Bandaríkjunum. Alls eru fjögur ný mót á dagskrá á næsta ári. Þar af eru tvö í Norður-Ameríku og tvö í öðrum heimsálfum. Til samanburðar voru 25 mót á LPGA árið 2011.

Verðlaunaféð á mótaröðinni hefur aldrei verið hærra eða 7,5 milljarðar kr. Á 11 mótum af 35 er verðlaunaféð hærra en áður.

Risamótin á LPGA eru fimm en til samanburðar eru þau fjögur hjá körlunum. Á risamótunum fimm er heildarverðlaunaféð um 2 milljarðar kr. samtals. Heildarverðlaunféð á Opna bandaríska meistaramótinu verður um 550 milljónir kr. og er það met.

Á tímabilinu 2016 náðu 15 keppendur á LPGA 110 milljónum kr. eða meira í verðlaunafé.

Risamótin fimm eru:

ANA Inspiration: 27. mars – 2. apríl: Mission Hills, Rancho Mirage, Kalifornía.

KPMG, PGA-meistaramótið: 26. júní – 2. júlí. Olympia Fields, Illinois

Opna bandaríska meistaramótið: 10-16. júlí:Trump National, Bedminster, New Jersey.

Ricoh, Opna breska meistararamótið: 31. júlí – 6. ágúst. Kingsbarns, Skotland.

Evian meistaramótið: 11.-17. sept. Evian Les Bains, Frakkland.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ