Liam Mucklow.
Auglýsing

Íslenskir kylfingar og PGA-golfkennarar sýndu mikinn áhuga á fyrirlestrum sem kanadíski sérfræðingurinn Liam Mucklow hélt hér á landi nýverið. Mucklow er fyrrum atvinnukylfingur og hefur einnig keppt í úrslitum á heimsmeistaramótinu í högglengd. Hann býr yfir mikilli reynslu og hefur verið framarlega í flokki í að nýta þá þekkingu sem hefur komið fram með nýrri tækni á borð við Trackman, K-Vest og fleiri þáttum þjálffræðinnar – þar á meðal styrktarþjálfun kylfinga.

Mucklow var með nokkra fyrirlestra á meðan dvöl hans stóð hér á landi. Þar má nefna að hann var með ítarlegan fyrirlestur á ársþingi PGA á Íslandi. Hann miðlaði einnig þekkingu sinni til afrekskylfinga í afrekshópum GSÍ í æfingabúðum hópsins. Hinn almenni kylfingur hafði einnig mikinn áhuga á fyrirlestri Mucklow því fullt var út úr dyrum á fyrirlestri í sal ÍSÍ þar sem Kanadamaðurinn fór í gegnum upplýsingar og gögn sem tæki á borð við Trackman gefa kylfingum. Á þeim fyrirlestri voru rúmlega 100 manns og var mætingin langt umfram væntingar þeirra sem stóðu að fyrirlestrinum.

Liam Mucklow fékk stóran hóp af kylfingum á fyrirlesturinn í ÍSÍ.
Liam Mucklow.

Mucklow hefur m.a. verið kjörinn PGA kennari ársins í Ontario fylki í Kanada. Hann hefur flutt fyrirlestra, skrifað fræðigreinar og haldið námskeið víðsvegar um veröldina á undanförnum misserum. Bandaríski PGA kylfingurinn Ben Crane hefur æft undir handleiðslu Mucklow undanfarin ár og fór Mucklow m.a. í gegnum ýmsar æfingar hjá Crane. Þar vakti athygli að Crane og Mucklow leggja mikla áherslu á að leik og skemmtun á æfingum.

Mucklow lagði áherslu á að allir kylfingar, óháð getustigi, ættu ekki að hika við að nýta sér þá þekkingu og upplýsingar sem hægt er að fá fram með ýmsum mælingum. Hann benti á að hér á landi væri stór hópur fagfólks á hinum ýmsum sviðum. Þessir aðilar væri vel tækjum búinn og mikil þekking væri til staðar m.a. hjá íslenskum PGA kennurum, sjúkraþjálfurum og öðrum sérfræðingum.

Kanadamaðurinn benti m.a. á að Íslenskir kylfingar gætu unnið með mikilvæga þætti á borð við hreyfifærni og stöðugleika yfir vetrartímann – samhliða tækniþjálfun undir handleiðslu PGA kennara. Auðveldasta leiðin til þess að bæta leik sinn og auka ánægjuna af því að leika golf sé að afla upplýsinga með aðstoð sérfræðinga. Taka síðan upplýstar ákvarðanir í framhaldinu um hvernig best sé að æfa og forgangsraða. Mucklow sagði einnig að það væri mikilvægt fyrir alla sem stunda golfíþróttina að auka skilninginn á því hvað veldur því að sum högg eru t.d. betri en önnnur. Hann sýndi með tölfræði og rannsóknum að hægt er að auka högglengd hjá meðalkylfingi um allt að 20 metra með því einu að hitta boltann rétt á höggflötinn á drævernum.

Ítarlega verður fjallað um heimsókn Mucklow í tímaritinu Golf á Íslandi.

Gauti Grétarsson og Liam Mucklow.
Gauti Grétarsson og Liam Mucklow.

Það var Gauti Grétarsson sem stóð fyrir heimsókn Mucklow. Gauti hefur á undanförnum árum boðið upp á ýmsa valkosti fyrir kylfinga þegar kemur að mælingum á líkamlegum þáttum hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur og Garðabæjar.

Mælingar sem hægt er að gera á kylfingum hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur og Garðabæjar eru; Kin Com, Kine, K-vest háhraðamælingar, Flywheel bremsumælingar, Metronome taktmælingar, hopp- og lendingarmælingar, hnébeygjugreiningar, veikleikagreiningar, golfsveiflu hreyfigreiningar og jafnvægismælingar. Á meðal þeirra sem hafa æft undir handleiðslu Gauta eru Gylfi Þór Sigurðsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Björgvin Sigurbergsson, Ólöf María Jónsóttir, Ólafur Loftsson Guðmundur Benediktsson, Gísli Sveinbergsson og Birgir Leifur Hafþórsson.

Liam Mucklow.
Liam Mucklow.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ