Golfsamband Íslands

Jarðvegskönnun á Húsatóftavelli – félagsmenn bjartsýnir á framhaldið og stefnt er að opnun

„Það er góð samstaða hjá félagsfólkinu okkar – og það sást vel á aðalfundinum þar sem að mætingin var góð. Við stefnum á að geta tekið á móti kylfingum á Húsatóftavöll sem fyrst – en áður en að því kemur verður svæðið skoðað mjög vandlega. Þegar við erum fullviss um að engar hættur séu til staðar þá verður ákveðið með framhaldið og opnun vallarins,“ segir Helgi Dan Steinsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

Á undanförnum dögum hafa aðilar verið með búnað til þess að kanna undirlag vallarins – þar sem að jarðvegurinn er skannaður, líkt og gert hefur verið víða í Grindavík á undanförnum mánuðum. Helgi telur að Húsatóftavöllur sé öruggt svæði og á hann von á jákvæðum niðurstöðum úr jarðvegskönnunni.

„Völlurinn okkar er fyrir utan lokunarpósta og það er hægt að komast á völlinn og í golfskálann án vandkvæða í gegnum Nesveg úr Reykjanesbæ. Fulltrúar frá EFLA hafa verið að störfum við að jarðvegskanna Húsatóftavöll á undanförnum dögum – til að ganga úr skugga um að öllu sé óhætt og öryggi golfara sé í fyrirrúmi,“ bætir Helgi við.

Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ segir að það sé mikilvægt að sýna félagsmönnum, stjórn og framkvæmdastjóra stuðning i verki.

„Við höfum öll verið í gôðu sambandi og stjórn GSÍ er vel upplýst um málið. Það er mikill vilji að styðja klúbbinn til áframhaldandi góðra verka séu forsendur til staðar. Það var gott flug á klúbbnum fyrir gos, reksturinn var með besta móti, metfjöldi gesta og Húsatóftarvöllur vinsæll völlur fyrir meðal annars þá sérstöðu sem hann bÿður upp á. Það er gott að finna samstöðu félagsmanna sem og velvild og golfhreyfingarinnar meðan óvissan ríkir. Nú vona ég að svæðið verði skannað sem fyrst til að félagsmenn, sem vilja fara út á eigin ábyrgð, fái heimild,” segir Hulda Bjarnadóttir

Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ, Helgi Dan Steinsson framkvæmdastjóri GG og Hávarður Gunnarsson formaður GG.

Exit mobile version