Golfsamband Íslands

„Íslenskt rok“ á Bahamas – Ólafía Þórunn mætt til leiks

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/seth@golf.is

„Keppnisvöllurinn er fínn og verður án efa erfitt að skora hann ef veðrið verður eins og það hefur verið á undanförnum dögum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í dag við golf.is á Bahamas þar sem að fyrsta mótið á LPGA atvinnumótaröðinni hefst á fimmtudaginn. Ólafía lék 18 holur í gær á æfingadegi fyrir mótið og hún hafði nýlokið við 9 holur þegar golf.is ræddi við hana. „Það var alveg „íslenskt“ rok hérna í gær og dag. Það verður erfitt að eiga við völlinn ef vindurinn verður sterkur áfram. Ef vindurinn verður ekki til staðar þá á að vera hægt að skora vel á þessum frábæra velli,“ bætti Ólafía Þórunn við.

Veðurspáin er fín fyrir næstu daga á Bahamas. Vindurinn verður án efa til staðar en hitastigið verður um 25 gráður alla dagana.

Þetta er fyrsta mót hennar á LPGA mótaröðinni og skrifar Ólafía Þórunn þar með nýjan kafla í íslenska golfsögu. Hún er fyrsti íslenski kylfingurinn sem nær að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð í heimi.

 

Keppnin hefst á fimmtudag og verða rástímarnir birtir síðar í dag. Nánast allir bestu kylfingar veraldar eru mættir til leiks á Pure Silk-Bahamas LPGA Classic mótið. Sýnt verður beint frá mótinu á Golfstöðinni á Íslandi. Útsending hefst kl. 16.30 á fimmtudag og föstudag, 20.00 á laugardag og 19.30 á sunnudaginn. 

Ariya Jutanugarn frá Taílandi er efst á heimslistanum af þeim sem verða með á mótinu. Hún er í öðru sæti á eftir Lydiu Ko frá Nýja-Sjálandi sem verður ekki með á þessu móti. Jutanugarn átti frábært ár í fyrra þar sem hún sigraði á fimm mótum og varð efst á peningalistanum.

Lexi Thompson (5.) og Brooke Henderson (8.) eru einnig á meðal keppenda en þær eru hæst skrifaðar af bandarískum kylfingum á heimslistanum um þessar mundir.

Ólafía Þórunn ræðir hér við hinn þaulreynda ritstjóra kylfingur.is, Pál Ketilsson.
Ólafía Þórunn ræðir hér við hinn þaulreynda ritstjóra kylfinguris Pál Ketilsson

Þetta er í fimmta sinn sem mótið fer fram á Ocean Club golfvellinum. Keppnisvöllurinn er rétt rúmlega 6.000 metra langur og er par vallar 73 högg.

Heildarverðlaunaféð er rétt rúmlega 160.000 milljónir kr. Hyo Joo Kim frá Suður-Kóreu hefur titil að verja á mótinu. Kim lék á 274 höggum í fyrra (-18) 70-70-68-66. Hún var tveimur höggum betri en  Stacy Lewis, Anna Nordqvist og Sei Young Kim sem sigraði á þessu móti árið 2015.

Í fyrra var nýr kafli skrifaður á LPGA mótaröðinni á Pure Silk Bahamas mótinu. Þar gerði Ha Na Jang sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 8. braut sem er par 4. Hún var þar með fyrsti leikmaðurinn á LPGA sem leikur holu á -3 eða albatross.

Á mótinu fyrir ári síðan komust þeir keppendur í gegnum niðurskurðinn sem léku á +2 eða betra skori á fyrstu 36 holunum. Alls komust 80 keppendur í gegnum niðurskurðinn.

Sigurvegarar frá upphafi á Pure Silk Bahamas.

2016

Hyo Joo Kim, Suður-Kórea. (24 milljónir kr. í verðlaunafé)
70 – 70 – 68 – 66 = 274 (-18)

2015
Sei Young Kim, Suður-Kórea.
70 – 68 – 72 – 68 = 278 (-14)

2014

Jessica Korda., Bandaríkin.
69 – 66 – 72 – 66 = 273 (-19)

2013
Ilhee Lee, Suður-Kórea.
(-18)

 

Exit mobile version