Golfsamband Íslands

Íslandsmót eldri kylfinga 2021 í Vestmannaeyjum I keppenda – og biðlisti hefur verið birtur

Íslandsmót eldri kylfinga 2021 fer fram dagana 15.-17. júlí í Vestmannaeyjum. Mikill áhugi er á mótinu hjá keppendum og komust ekki allir inn í mótið sem sóttust eftir því. Samkvæmt reglugerð Íslandsmóts eldri kylfinga er hámarksfjöldi keppenda 150, þar af 108 í flokkum 50 ára og eldri (54 karlar og 54 konur) og 42 í flokkum 65 ára og eldri (21 karl og 21 kona).

Viktor Elvar Viktorsson, formaður mótanefndar Golfsamband Íslands, segir í samtali við golf.is að það sé ánægjulegt fyrir íslenskt afreksgolf að áhugi kylfinga sé alltaf að aukast að taka þátt á Íslandsmótunum í golfi. 

Fjöldatakmörk eru í öll Íslandsmót sem eru á vegum Golfsambands Íslands en GSÍ er með 18 Íslandsmót á þessu ári líkt og undanfarin ár. 

Viktor Elvar bendir á að meðalforgjöf keppenda hafi farið ört lækkandi á undanförnum árum og aðeins þeir forgjafarlægstu komast inn á keppendalista Íslandsmóta. 

„Sem dæmi má nefna að á Íslandsmótinu í golfi 2020 á Hlíðavelli í Mosfellsbæ sóttu 170 keppendur um að taka þátt en 151 komst inn í mótið og fyrsti kylfingur á 20 manna biðlista var með 3,1 í forgjöf. Íslandsmótið í fyrra var á meðal fjölmennustu Íslandsmóta frá árinu 2001. Við gerum ráð fyrir að svipað verði uppi á teningnum á Jaðarsvelli í sumar þegar Íslandsmótið 2021 fer fram á Akureyri,“ segir Viktor Elvar. 

Eins og áður segir komust færri að en vildu á Íslandsmót eldri kylfinga sem er framundan í Vestmannaeyjum dagana 15.-17. júlí. Mótanefnd GSÍ hefur fengið töluvert af fyrirspurnum þess efnis hvort hægt sé að fjölga keppendum – en samkvæmt reglugerð Íslandsmóts eldri kylfinga er hámarksfjöldi keppenda 150.

Í reglugerðinni kemur einnig fram að verði ekki full skráning í einhverjum flokki skal fjölgað í flokki hins kynsins í sama aldursflokki. Að því frátöldu skal fjölga í hinum aldurflokknum, jafnt í báðum kynjum. Mótsstjórn er heimilt að fjölga keppendum í einstökum flokkum til að fylla í ráshópa og verða því alls 153 keppendur á Íslandsmóti eldri kylfinga 2021. 

„Það er margar góðar ástæður fyrir því að hámarksfjöldi keppenda er yfirleitt í kringum 150, bæði hér heima á Íslandi og erlendis. Keppendur eiga t.d. að geta gengið að því vísu að framkvæmd mótsins gangi vel. Leikhraði á að vera með besta móti og utanumhald mótsins á einnig að vera með skynsamlegum hætti. Upplifun og ánægja leikmanna sem eru að keppa um Íslandsmeistaratitla er einnig mikilvægur þáttur í því að hafa 150 sem hámarksfjölda. Ef keppendur eru t.d. nær því að vera 200 alls þá verður framkvæmd mótsins mun þyngri. Mótsstjórn þarf að hafa svigrúm til þess að bregðast við ýmsum aðstæðum sem geta komið upp. Veður getur t.d. breyst mjög hratt hér á landi, stundum þarf að fresta leik vegna slíkra aðstæðna. Það hefur komið fyrir að ræsa þarf kylfinga samtímis út á tveimur teigum þegar keppnishaldið hefur farið úr skorðum vegna ytri aðstæðna. Ef keppendur eru fleiri en 150 þá er ekki hægt að grípa til slíkra lausna. Það er frábært að upplifa að það sé góð stemning fyrir Íslandsmóti eldri kylfinga í Vestmannaeyjum 2021. Á sama tíma skil ég vel að það séu margir vonsviknir að komast ekki inn á keppendalistann vegna fjöldatakmarkana,“ segir Viktor Elvar Viktorsson formaður mótanefndar GSÍ. 

Endanlegur keppendalisti hefur nú verið birtur í mótinu í GolfBox. 

Verði einhver forföll verður haft samband við kylfinga af biðlista en listinn er uppfærður jafn óðum ef breytingar verða.

Biðlista fyrir hvern flokk má sjá hér.

Keppendur sem sjá fram á forföll eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna þau sem fyrst á motanefnd@golf.is svo hægt sé að hafa samband við kylfinga á biðlista. 

Þátttökugjald fæst einungis endurgreitt séu forföll boðuð eigi síðar en kl. 18:00, þremur dögum fyrir fyrsta keppnisdag (mánudaginn 12. júlí 2021). 

Ráslisti fyrir fimmtudaginn 15. júlí verður birtur miðvikudaginn 7. júlí 2021.

Þeir kylfingar sem komast ekki inn í mótið munu fá endurgreitt að móti loknu.

Exit mobile version