Kristófer Karl Karlsson slær hér á 2. braut á Jaðarsvelli á Íslandsmótinu í holukeppni 2020. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

„Ég veit að hjartslátturinn verður aðeins hraður og smá fiðringur í maganum, ég ætla að bara að slá 4-járnið á brautina. Ég hef slegið það högg mörg hundruð sinnum áður á þessum teig,“ segir Kristófer Karl Karlsson klúbbmeistari Gollfklúbbs Mosfellsbæjar sem slær fyrstur allra keppenda á Íslandsmótinu í golfi 2020 á heimavelli sínum, Hlíðavelli. 

Kristófer Karl er 19 ára gamall og er með 1,7 í forgjöf. Hann sigraði í fyrsta sinn á meistaramóti GM á þessu ári og Íslandsmótið í ár er það fjórða hjá hinum efnilega kylfing í fullorðinsflokki. 

„Þetta mót er búið að vera í huganum mínum í rúmlega eitt og hálft ár, alveg frá því að það var staðfest að Íslandsmótið í golfi færi fram á Hlíðavelli. Það er frábært að fá tækifæri að spila á þessu stærsta móti ársins á heimavelli,“ segir Kristófer Karl. 

Tveir kylfingar úr Mosfellsbæ hafa sigrað í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi. Heiðar Davíð Bragason árið 2005 á Hólmsvelli í Leiru og Kristján Þór EInarsson árið 2008 í Vestmannaeyjum. Fyrirmyndirnar eru því til staðar hjá Kristófer Karli sem ætlar að njóta þess að spila eftir góðan undirbúning í vetur og sumar. 

„Ég æfði griðarlega vel í vetur og æfingar hafa einnig gengið vel í vor og sumar. Ég hef æft mikið að undanförnu og mér líður vel Nú er  Nú er bara komið að því að treysta á undirbúninginn og fara að spila golf, og njóta þess.“ 

Kristófer Karl fagnaði sigri á meistaramóti GM í fyrsta sinn í júlí s.l eftir harða keppni allt fram á 72. holu. „Það er mikill heiður að vera klúbbmeistari. Þetta mót var góð reynsla fyrir mig og ég lærði heilmikið á þessu móti.“ 

Íslandsmótið 2020 er það fjórða sem Kristófer Karl tekur þátt í. Hann telur að það geti nýst vel að vera á heimavelli í þeim aðstæðum sem eru framundan. „Vissulega er það kostur að vera á heimavelli. Hlíðavöllur er samt sem áður allt öðruvísi í dag en hann var fyrir nokkrum vikum. Þrír nýir teigar fyrir karlaflokkinn, og þær brautir eru mun lengri en áður. Karginn er einnig mun hærri í dag en fyrir nokkrum vikum. Ég þarf því að breyta leikplaninu mínu töluvert. Hugsa völlinn alveg upp á nýtt.“ 

Veðurspáin gerir ráð fyrir að veðrið gæti verið „hryssingslegt“ – rok og rigning. Kristófer Karl óttast ekki aðstæður og fagnar því ef veðrið verði eins og spáin gerir ráð fyrir. 

„Ég geri ráð fyrir að skor í kringum par vallar dugi til að vera í toppbaráttunni ef veðurspáin gengur eftir. Veðrið verður bara eins og það verður, ég mæti bara á teig, slæ fjögur járnið mitt, smellthitt, og sé til hverju það skilar,“ segir Kristófer Karl Karlsson. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ