Rétt val á kylfum hefur góð áhrif á útkomuna hjá kylfingum og þá sérstaklega hjá byrjendum. Ekki er nauðsynlegt að byrja með fullkominn útbúnað hvað varðar fjölda kylfa og slíkt.
Golfkylfur hafa þróast gríðarlega á undanförnum árum og áratugum. Það er alls ekki mælt með því að byrja með „fornar“ blaðkylfur með leðurgripum frá frænda þínum sem hann ætlaði að henda á haugana.
Það er leyfilegt að vera með 14 kylfur í pokanum en byrjendur komast af með 3-4 kylfur til að byrja með.
Margir sérfræðingar mæla með 6-járni, 8-járni og fleygjárni (PW) ásamt pútter í upphafi. Næst væri hægt að bæta við blendingskylfu (hybrid) sem er 18-21 gráður.
Gráður?
Allar golfkylfur eru með mismunandi gráður á höggfletinum. Hærri gráðutala þýðir að boltinn flýgur hærra. Því hærri sem talan er, því vinalegri er kylfan fyrir byrjendur. Ef þú ert að byrja í golfi og ætlar að kaupa þér dræver, prófaðu að slá með dræver með 10 gráðu halla á höggfletinum eða meira. 3-tréð ætti að vera 17 gráður en ekki 15 gráður og þannig fikrar þú þig áfram í kylfuvalinu.
Nýttu þér tæknina sem er í boði en margar kylfur eru hannaðar fyrir byrjendur. Sem dæmi má nefna að kylfur með þykkum botni virka betur fyrir þá sem eru að byrja í golfi en þunnar kylfur eru hannaðar fyrir kylfinga sem eru lengra á veg komnir.
Golfboltar?
Það er ekki nauðsynlegt að byrja golfferilinn með dýrustu boltunum. Reglan er einföld. Ef þú týnir mörgum boltum á hring notaðu þá ódýra bolta. Mestu máli skiptir að boltinn henti sveifluhraða þínum. Atvinnukylfingar slá fastar í boltann en þú og boltinn sem þeir kjósa er harður. Það eru til margar tegundir af boltum og þeir eru mismunandi mjúkir. Fyrir byrjendur er gott að nota mjúka bolta og þegar sveiflan verður hraðari er hægt að fikra sig áfram á þessu sviði.
Fatnaður?
Það er ekki nauðsynlegt að vera í sérstökum golffatnaði til þess að byrja með. Íþróttaskór duga vel í byrjun og hefðbundinn útivistarfatnaður sem er þægilegur þegar allra veðra er von. Golffatnaður er hannaður til þess að kylfingum líði vel þegar þeir eru að slá og hreyfa sig úti á golfvellinum.
Hafðu samband við golfklúbb í nágrenni þínu
Flestir golfklúbbar landsins bjóða upp á námskeið fyrir þá sem eru að byrja í golfi. Það eru allir tilbúnir að hjálpa þér í þeim efnum. Einnig er hægt að leita til þeirra sem eru með PGA kennararéttindi en þeir eru fjölmargir.