/

Deildu:

Auglýsing

Það eru ýmsar óskrifaðar reglur og hefðir í golfíþróttinni sem lærast smátt og smátt eftir því sem oftar er leikið. Vanir kylfingar eru allir af vilja gerðir að aðstoða þá sem eru að stíga sín fyrstu skref inn í golfveröldina. Hér eru svörin við mikilvægum spurningum sem nýliðar velta oft fyrir sér áður en þeir fara í golf.

Hver byrjar?
Áður en byrjað er á fyrsta teig er vaninn að henda upp tíi til þess að ákveða hver slær fyrsta höggið. Á öðrum teig slær fyrstur sá kylfingur sem var á fæstum höggum á fyrstu braut. Ef skorið er jafnt breytist röðin ekki. Hins vegar er besta reglan að koma sér saman um það í upphafi að sá sem er tilbúinn að slá teighöggið slái fyrstur. Það sparar tíma og flýtir leik.

Hvenær á ég að slá?

Eftir teighöggið á sá sem er lengst frá holunni að slá fyrstur. Það kemur fyrir að sami kylfingur slær nokkur högg áður en röðin kemur að þeim næsta. Hins vegar er ekkert að því að slá á milli högga hjá öðrum ef sá kylfingur er tilbúinn og lætur meðspilara sína vita að hann ætli að slá. Það flýtir leik og er til fyrirmyndar.

Hvar á ég að standa þegar aðrir slá?

Til hliðar og aðeins fyrir aftan viðkomandi. Og að sjálfsögðu það langt frá að engin hætta sé á því að þú fáir kylfuna í þig. Það þarf að gæta þess að skugginn af þér trufli ekki sjónlínuna hjá þeim sem er að slá og allar óþarfa hreyfingar eða hljóð geta truflað.

Hvert má ég fara með golfkerruna?

Í rauninni út um allt nema inn á teiga, flatir og ofan í glompur. Margir vellir eru með leiðbeiningar um gönguleiðir fyrir kylfinga og vernda þar með viðkvæm svæði. Hafðu í huga hvar næsti teigur er þegar þú gengur inn á flötina og leggðu kerrunni með hliðsjón af því. Það flýtir leik. Ef þú ert með burðarpoka þá gilda sömu reglur en það er í lagi að taka pokann með inn á teiga.

Hvar á ég að leggja kerrunni þegar ég pútta?

Við hliðina á flötinni og nálægt göngustígnum að næsta teig. Þú flýtir leik með þessum hætti og þarft ekki að ganga til baka til þess að ná í kerruna eftir að hafa lokið við holuna.

Hvernig týni ég ekki boltanum?

Horfðu vel á eftir boltanum ef hann fer inn í hátt gras eða torfæru. Finndu eitthvert kennileiti sem gæti leitt þig í rétta átt að boltanum. Golfboltar eru litlir og getur verið erfitt að finna þá eftir slæmt högg.  

Hvernig á ég að umgangast golfvöllinn?

Kylfur skilja oft eftir sig kylfuför og það er nauðsynlegt að setja torfuna aftur á sama stað. Það fer reyndar eftir því hvar í heiminum maður er staddur en á Íslandi er nauðsynlegt að setja torfið á sinn stað. Á flötunum er mikilvægt að laga boltaför með flatargafli. Teigar eru viðkvæmir og þá sérstaklega á par 3 holum. Það er ágæt regla að taka æfingasveiflur fyrir utan teiginn á par 3 holum.

Hvað geri ég í glompunni?

Ekki taka æfingasveiflu í glompunni og ekki leggja kylfuna í sandinn áður en þú slærð. Eftir höggið er gríðarlega mikilvægt að raka förin eftir fætur og kylfu í glompunni og ganga þannig frá að þú gætir viljað slá á þessum stað á ný.

Hvar á ég að standa þegar aðrir pútta?

Þar sem þú truflar ekki. Það er að ýmsu að hyggja. Ekki standa beint fyrir aftan kylfinginn eða í púttlínunni fyrir aftan holuna. Það er bannað. Það þarf að gæta þess að stíga ekki í púttlínuna hjá öðrum. Ef sólin skín þá gæti skugginn af þér verið í púttlínunni og þá þarftu að færa þig. Það er í góðu lagi að undirbúa sitt pútt á meðan aðrir gera. Gættu þess að standa kyrr þegar aðrir pútta en það flýtir leik að vera tilbúinn þegar röðin kemur að þér.  

Hvenær á ég að merkja boltann á flötinni?

Ef boltinn er á flöt þarf ekki alltaf að leggja merki niður og taka boltann upp. Aðeins ef boltinn þinn er í púttlínu hjá öðrum á flötinni þarf að merkja boltann og taka hann upp. Ef merkið er enn fyrir þarf að færa það til hliðar og nota púttershausinn til þess að ákveða hversu langt merkið er fært. Það má færa það eins oft til hliðar og þörf er á. En gættu þess að færa það til baka á nákvæmlega sama stað áður en þú púttar.

Hvað á ég að gera við flaggið?

Það er í lagi að pútta eða slá boltanum í flaggstöngina – og margir telja að það flýti leik að hafa flaggstöngina sem oftast í þegar við leikum boltanum á flötinni. Þegar þú leggur flaggið niður gættu þess að það sé nógu langt frá og og engin hætta sé á því að aðrir pútti í flaggið. Ekki leggja það niður beint fyrir aftan holuna.

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ