Hulda Clara Gestsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir eru á meðal keppenda á Evrópumóti einstaklinga sem fram fer í Frankfurt, Þýskalandi, dagana 23.-26. júlí 2025.
Alls taka 144 keppendur þátt í mótinu, og er keppendahópurinn skipaður mörgum af bestu áhugakylfingum Evrópu.
Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur og verða leiknar 72 holur, 18 holur á dag á fjórum keppnisdögum. Niðurskurður er eftir 2. keppnisdag þar sem að 96 efstu komast áfram og eftir þriðja keppnisdaginn komast 60 efstu keppendurnir áfram á lokahringinn.
Mótið fer fram á Frankfurter Golf Club í Þýskalandi.

Það er að miklu að keppa þar sem að sigurvegarinn fær boð um að taka þátt á AIG Womens Open mótinu sem fram fer á Royal Porthcawl, en mótið er eitt af fimm risamótum hvers árs.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit:
Hulda og Perla hefja báðar leik kl. 09:31 að staðartíma, en þó í sitthvoru hollinu. Hulda hefur leik af fyrsta teig en Perla af þeim tíunda.
Ólafur Björn Loftsson er staddur úti með stúlkunum. Aðspurður var hann bjartsýnn fyrir verkefninu.
Aðstæður eru góðar og flott umgjörð. Völlurinn er klassískur skógarvöllur, spilast frekar langur og mikilvægt að halda boltanum í leik. Hulda og Perla báðar að spila vel og eru vel undirbúnar fyrir slaginn.
Hulda Clara er ríkjandi Íslandsmeistari kvenna í golfi, en hún leikur fyrir University of Denver í bandaríska háskólagolfinu. Hún situr í 200. sæti á heimslista áhugakylfinga og lék best allra Íslendinga í höggleiknum á Evrópumóti landsliða fyrr í júlí.
Perla Sól mætir fersk í mótið eftir góða frammistöðu í Korpubikarnum. Síðastliðinn sunnudag, á síðasta hring mótsins, setti Perla nýtt vallarmet á Korpúlfsstaðavelli. Hún lék hringinn á 63 höggum, níu undir pari vallarins. Eftir tímabilið heldur Perla til Bandaríkjanna, þar sem hún mun spila fyrir LSU háskólann næstu árin.