Keppni er hörð um sæti í þeim fjórum landsliðum eldri kylfinga sem LEK ætlar að senda á Evrópumót árið 2017. Gefin eru stig þeim 30 sem eru efstir í sínum flokki í hverju móti. Árangur í 6 bestu mótum hvers kylfings ræður endanlegri röð. Í kvennaflokki er sent lið 6 leikmanna sem leikur án forgjafar. 9 efstu konurnar hafa allar tekið þátt í landsliðsverkefnum á undanförnum árum.
Evrópusamband eldri kylfinga karla (ESGA) á eftir að samþykkja breytt aldursmörk en við reiknum með að sú breyting verði samþykkt í sumar og gefum því stig þeim sem ná tilskyldum aldri áður en mót næsta árs fara fram. Í flokki karla 50 ára og eldri eru send tvö lið, bæði með og án forgjafar. Sex kylfingar eru í hvoru liði. Í flokki karla 65 ára og eldri verða valdir 3 efstu í höggleik og síðan 3 efstu í punktakeppni. Verði sami maður í efstu sætum kemur inn sá sem næstur er í punktakeppninni.
Næsta mót fer fram á Kiðjabergsvelli laugardaginn 18. júní og síðan fara fram tvö mót á Jaðarsvelli á Akureyri 25. og 26. júní.
Stigatöflur fyrir landslið LEK 2017