Íslenski atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús hefur tímabil sitt á HotelPlanner Tour mótaröðinni seinna í vikunni á SDC Open í Suður-Afríku. Aðspurður segist hann spenntur fyrir komandi tímabili.
Byggir ofan á öflugt gengi síðasta árs
Haraldur hóf árið 2025 með takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni, sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Hann nýtti sín tækifæri vel og vann sér inn aukinn þátttökurétt með góðri spilamennsku.
Stærsta stökkið á stigalistanum tók hann í Dormy Open í Svíþjóð, þar sem hann endaði annar. Lokahring mótsins lék Haraldur á 60 höggum og var hársbreidd frá því að ljúka leik á 59.

Með árangrinum flaug hann upp stigalistann, fékk enn fleiri tækifæri, komst inn í nokkur af stærstu mótum HotelPlanner Tour og endaði tímabilið í 63. sætinu. Efstu 75 kylfingarnir frá fyrra tímabili hljóta öflugan þátttökurétt í mótaröðinni, og getur Haraldur því hafið tímabilið af krafti í ár.
Stór markmið á nýju ári
Í viðtali við Golfsambandið segist Haraldur vera bjartsýnn fyrir komandi mótum.
Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir tímabilið gengið? Hefur þú verið að fókusa á eitthvað meira en annað?
Undirbúningurinn hefur gengið mjög vel. Ég tók mér nokkrar vikur í pásu eftir síðasta tímabil. Ég hef verið duglegur að vinna í öllum hliðum leiksins. Smá fjarkennsla hjá þjálfara sem ég þekki í bandaríkjunum. Básar hafa verið mitt annað heimili undanfarið. Ég hef verið duglegur að vinna í líkamanum, mætt í tíma hjá Gauta Grétars sjúkraþjálfara o.fl. Er einnig að vinna með Baldri sjúkraþjálfara og reyna halda mér í sem bestu standi fyrir komandi átök.

Hvernig lítur dagskráin út hjá þér næstu vikurnar? Hvert ertu að fara og hvernig líst þér á aðstæður?
Tímabilið hefst á fjórum mótum í Suður-Afríku. Svo næstu vikur verður mikil keyrsla. Fjögur mót og þó þetta sé í sama landi er löng vegalengd á milli móta. Fyrsta mótið hér verður klárlega erfiðast og mest út fyrir þægindarammann. 1.5km fyrir ofan sjávarmál og gríðarlega heitt. Næstu þrjú mót verða við sjóinn og ég vonast eftir smá vindi. Eftir Suður-Afríku eru mót á Indlandi sem ég fer líklega ekki í. Svo eru mót í Furstadæmunum i apríl og svo Evrópa í maí. Það er þétt dagskrá næstu mánuði.
Hver eru markmið þín fyrir tímabilið?
Markmiðið fyrir tímabilið er að vera í toppbaráttu í sem flestum mótum og að enda i topp 10 á stigalistanum á mótaröðinni.

