Haraldur Franklín Magnús. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, er vongóður um að komast inn á mótin sem eru framundan á Áskorendamótaröðinni á Novo Sancti Petri golfsvæðinu á Spáni. Haraldur Franklín er níundi maður á biðlista fyrir fyrra mótið sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku en mótaröðin er næsta sterkasta atvinnumótaröð í Evrópu hjá atvinnukylfingum. 

Haraldur Franklín er í 102. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Hann hefur keppt á alls 7 mótum og besti árangur hans er 33. sæti á móti sem fram fór á Norður-Írlandi í byrjun september. 

„Ég er eins og áður segir þá leyfi ég mér að vera bjartsýnn á að komast inn á mótin hér á Novo Sancti Petri. Þegar ég kemst inn þá þarf ég að nýta tækifærið. Leika vel og koma mér í hóp 45 efstu á stigalistanum – og inn á lokamótið á Mallorca þar sem að keppt er um 20 sæti á Evrópumótaröðinni,“ sagði Haraldur Franklín við golf.is. 

Haraldur Franklín hefur á undanförnum mánuðum verið með aðsetur í Alicante á Spáni ásamt Kristjönu Arnarsdóttur unnustu sinni.

„Við erum með íbúð á leigu sem er rétt við Alicante Golf völlinn á Spáni sem margir Íslendingar kannast við. Ég fer víða á þessu svæði til að æfa og spila – og valkostirnir eru margir. Það hefur gefist góður tími til þess að gera ýmsar áherslubreytingar. Það slá nánast allir góðu höggin eins á þessari mótaröð. Ég hef verið mest að vinna í því að gera „lélegu“ höggin betri. Sérstaklega af 100 metrum og nær. Það skiptir öllu máli að koma boltanum nálægt holunni í innáhögginu þegar tækifærin eru til staðar.  Það sama má segja um æfingar með 2-6 járni. Þar hef ég lagt töluverða vinnu í að fá jafnari niðurstöðu hvar boltinn endar.“ 

Haraldur Franklín segir að keppnistímabilið 2020 á Áskorendamótaröðinni verði eftirminnilegt vegna Covid-19 ástandsins en hann kvartar ekki yfir stöðunni. 

„Þetta tímabil er sérstakt út af Covid-19 en það eru allir að glíma við þetta ástand út um allt. Það hafa verið fá mót á Áskorendamótaröðinni. Ég kvarta samt ekki yfir ástandinu. Það eru allir að glíma við þetta. Ég lít á þetta tímabil sem undirbúning fyrir næsta ár. Ég verð með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili og það eina sem ég get gert er að nýta tímann vel til að undirbúa mig sem best fyrir næsta ár.“

Haraldur Franklín er þessa stundina á Costa Ballena vellinum þar sem hann mun dvelja fram yfir mótin tvö á Novo Sancti Petri.  

„Ég þekki þetta svæði vel en ég var að vinna sem fararstjóri á Novo Sancti Petri árið 2012. Það eina sem ég get gert er að halda einbeitingu og búast við því að komast inn á keppendalistann. Ég var í 20 sæti á biðlistanum fyrir nokkrum dögum og er í 9 sæti eins og staðan er núna. Það getur margt breyst og ég er bjartsýnn.“ 

Vel er fylgst með heilsufari keppenda vegna Covid-19.

„Það þurfa allir keppendur að skila inn Covid-19 prófi, 7 dögum fyrir fyrsta keppnisdag. Prófin gerum við sjálfir og sýnin eru send með hraðsendingu á rannsóknarstofu. Einnig er hægt að taka próf á Novo Sancti Petri ef þess gerist þörf,“ segir Haraldur Franklín Magnús.

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, er eini íslenski atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem hefur komist inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur var í 35. sæti fyrir lokamótið en endaði í 37. sæti á lokastigalistanum. Það er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á Áskorendamótaröðinni. 

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur komist inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu með fullan keppnisrétt. 

Aðeins fimm íslenskir karlkylfingar hafa verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 þegar Birgir Leifur braut ísinn.

Birgir Leifur á 16 keppnistímabil að baki á Áskorendamótaröðinni og alls 155 mót. Besti árangur hans er 1. sæti árið 2017 á móti í Frakklandi og er það eini sigur hans á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. 

Árið 2002 lék Björgvin Sigurbergsson, GK,  á 11 mótum á Áskorendamótaröðinni og endaði í 179. sæti á stigalistanum. 

Axel Bóasson, GK, lék á 16 mótum árið 2018 og endaði í sæti nr. 224 á stigalistanum. 

Guðmundur Ágúst, GR,  er á sínu öðru tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann lék á 6 mótum í fyrra og endaði í sæti nr. 109 á stigalistanum. 

Haraldur Franklín, GR, er á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Mótin sem eru framundan á Áskorendamótaröðinni eru: 

5.-8. nóvember:

Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

11.-14. nóvember:

Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

19.-22. nóvember:

T-Golf & Country Club, Mallorca, Baleares.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ