Íslenski atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús endaði annar á Dormy Open mótinu sem fram fór á Upsala Golf Club vellinum í Svíþjóð dagana 28.-31. ágúst.
Mótið er hluti af HotelPlanner Tour atvinnumótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, Haraldur Franklín Magnús, GR, Nick Carlson, GM, og Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, voru allir á meðal keppenda.
Haraldur var jafn í fimmta sæti eftir öflugan fyrsta hring. Þar fékk hann átta fugla og einn skolla.
Fuglunum rigndi inn alla helgina og var hann skammt á eftir efstu mönnum, rétt fyrir utan efstu tíu sætin, fyrir lokahringinn. Þegar allt var undir sýndi Haraldur sýnar bestu hliðar. Hann fékk ellefu fugla og sjö pör á lokahringnum, og lék hann því ellefu undir pari vallarins. Þetta reyndist besti hringur mótsins. Minnstu mátti muna að Haraldur hefði leikið undir 60 höggum, en fuglapútt hans á átjándu endaði á brún holunnar.



Með árangrinum tekur Haraldur stórt stökk á stigalista mótaraðarinnar og fer úr 156. sætinu upp í það 54.
Munurinn er mikill fyrir okkar mann, en með þessu hefur hann tryggt sér aukinn þátttökurétt á mótaröðinni á næsta ári. Einnig vann Haraldur sér inn þátttökurétt í GAC Rosa Challenge Tour mótinu í Póllandi í næstu viku. Hann vann sér inn þann rétt með því að enda í einu af tíu efstu sætum mótsins.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék flott golf í mótinu og endaði jafn í 54. sæti á sjö höggum undir pari. Þetta er besti árangur hans á tímabilinu, en hann situr í 227. sæti stigalistans.

Nick Carlson og Sigurður Arnar höfnuðu í 151.- og 152. sæti mótins og náðu ekki í gegnum niðurskurð.
Nick er með fullan þátttökurétt á mótaröðinni og situr í 19. sæti stigalistans eftir mörg góð mót á tímabilinu.

Birgir Leifur Hafþórsson er eini íslenski kylfingurinn sem sigrað hefur á mótaröðinni, en hann náði þeim árangri á Cordon Golf Open mótinu árið 2017.