Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson náðu frábærum árangri á Áskorendamótaröðinni sem fram fór í Hollandi að þessu sinni.
Haraldur Franklín lék lokahringinn á 65 höggum eða 6 höggum undir pari – og samtals var hann á 11 höggum undir pari, jafn í efsta sæti ásamt þremur öðrum keppendum. Úrslitin réðust í bráðabana en Haraldur Franklín féll úr leik á 3. holu í bráðabananum.
Alfredo Garcia Heredia frá Spáni stóð uppi sem sigurvegari þegar hann fékk fugl á sjöundu holu í bráðabananum.
Nánari upplýsingar um skor,rástíma og stöðu – smelltu hér:
Guðmundur Ágúst lék best allra á lokahringnum eða 63 höggum eða 8 höggum undir pari vallar. hann lék hringina fjóra á 8 höggum undir pari samtals.
ChallengeTour eða Áskorendamótaröðin er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.
Þetta er besti árangur sem Haraldur Franklín hefur náð á Áskorendamótaröðinni en hann varð í 8. sæti á Open de Bretagne í Frakklandi sem fram fór nýverið.