Gunnlaugur Árni Sveinsson heldur áfram að bæta stöðu sína á heimslista áhugakylfinga. Eftir sigur á Fallen Oak Invitational mótinu í síðustu viku tók íslenski landsliðskylfingurinn stökk upp listann, í níunda sætið.
Mótið var gífurlega sterkt, en sex af tuttugu sterkustu skólum landsins mættu til leiks og voru margir af bestu áhugakylfingum heims á meðal keppenda. Erfiðleikastig mótsins var 820 af 1000 mögulegum og skilaði sigurinn því mörgum stigum á heimslista áhugakylfinga. Fyrir árangurinn hlaut Gunnlaugur 21.85 stig á heimslistanum, sem gerir sigurinn sterkasta sigur íslensks áhugakylfings frá upphafi. Til samanburðar fékk Gunnlaugur 14,9 stig á heimslista fyrir sinn fyrsta sigur í háskólagolfinu.
Með árangrinum fór Gunnlaugur Árni upp í 9. sæti heimslistans, sem var uppfærður í dag. Hann hefur verið á miklu flugi upp listann síðastliðna 12 mánuði og hefur aldrei verið ofar. Ólíklegt er að landsliðskylfingurinn leiki í fleiri mótum á árinu.
Hér má sjá listann í heild sinni

Tímabilið fer frábærlega af stað hjá Gunnlaugi Árna sem hefur verið í efstu ellefu sætunum í öllum fjórum háskólamótum tímabilsins. Enginn íslenskur kylfingur hefur náð ofar á heimslistann, en besta árangur karla má sjá hér að neðan.
Besti árangur á heimslista áhugakylfinga karla
| Kylfingur | Besta sæti | Gerðist atvinnukylfingur |
| Gunnlaugur Árni Sveinsson | 9. | |
| Gísli Sveinbergsson | 99. | |
| Aron Snær Júlíusson | 108. | 2021 |
| Ólafur Björn Loftsson | 110. | Vika 36, 2012 |
| Haraldur Franklín Magnús | 136. | Vika 9, 2017 |
| Axel Bóasson | 136. | Vika 21, 2016 |
| Bjarki Pétursson | 156. | Vika 6, 2020 |


