Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd/ Tristan Jones.
Auglýsing

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili, keppir á lokamóti LET Evrópumótaraðarinnar sem fram fer í næstu viku á Spáni á Los Naranjos.

Aðeins stigahæstu keppendur sterkustu atvinnumótaraðar Evrópu í kvennaflokki fá keppnisrétt á því móti. Þetta er í annað sinn sem Guðrún Brá leikur á lokamóti mótaraðarinnar.

Guðrún Brá fór upp í 77. sæti á stigalistanum á LET Evrópumótaröðinni með því að enda í 38. sæti á síðasta móti sem fram fór í Sádí-Arabíu. Þar lék þrefaldi Íslandsmeistarinn á 3 höggum undir pari samtals 70-74-69. Það er þriðji besti árangur hennar hvað heildarskor varðar á LET Evrópumótaröðinniá þessu tímabili.

Lokamótið á Spáni heitir Andalucía Costa Del Sol Open De Espana – Opna spænska meistaramótið. Það fer fram dagana 25.-28. nóvember en keppnisvöllurinn er rétt við Malaga á Spáni. Heildarverðlaunaféð á mótinu er mjög hátt í samanburði við mörg önnur mót á LET Evrópumótaröðinni eða 600.000 Evrur sem nemur 93 milljónum kr.

Mótið sem fór fram í þessari viku var 15. mótið hjá Guðrúnu Brá á þessu tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki.

Hún var í 82. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar fyrir þetta mót. Besti árangur hennar á tímabilinu er 12. sæti. Hún fór upp um 6 sæti á stigalistanum með árangri sínum á þessu móti sem lauk í dag.

Til samanburðar þá endaði Guðrún Brá í 127. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar í fyrra.

Besti árangur Guðrúnar Brár á tímabilinu er 12. sæti en hér fyrir neðan er skjáskot af árangri hennar á LET Evrópumótaröðinni á þessu tímabili.

Guðrún Brá er þriðja íslenska konan sem er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Árangur íslenskra kylfinga á LET Evrópumótaröðinni á stigalistanum er:

2016: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir 96. sæti

2017: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir 33. sæti, Valdís Þóra Jónsdóttir 52. sæti.

2018: Valdís Þóra Jónsdóttir 38. sæti.

2019: Valdís Þóra Jónsdóttir 71. sæti.

2020: Valdís Þóra Jónsdóttir 88. sæti, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir 122. sæti, Guðrún Brá Björgvinsdóttir 127. sæti.

2021: Guðrún Brá Björgvinsdótti 77. sæti þegar lokamótið er eftir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ