Golfsamband Íslands

Guðrún Brá er í 42.-50. sæti fyrir lokahringinn á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, á einn hring eftir á lokaúrtökumótinu fyrir LET European Tour.

Mótið fer fram á La Manga á Spáni þar sem að 1. stig úrtökumótsins fór einnig fram.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á lokaúrtökumótinu á Spáni.

Guðrún Brá er á tveimur höggum yfir pari samtals eftir fjóra fyrstu hringina 73-71-73-72. Hún er í sæti nr. 42-50 eftir 72 holur og er því í hópi þeirra sem komust í gegnum niðurskurðinn fyrir fimmta hringinn, lokahringinn, sem fer fram miðvikudaginn 21. desember.

Í mótslok fá 20 efstu keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni í 12. styrkleikaflokki.

Ef keppendur eru jafnir í 20. sæti fá þeir allir keppnisrétt. Þegar þetta er skrifað þriðjudaginn 20. desember er Guðrún Brá fjórum höggum frá 20. sætinu.

Hún hóf leik á Suður-vellinum og lék á pari vallar og á öðrum hringnum á Norður-vellinum lék hún einnig á pari eða 71 höggi. Á þriðja hringnum lék hún á +1 á Suður-vellinum eða 74 höggum. Hún lék á Norður-vellinum á fjórða hringnum og var á pari vallar, 72 högg.

Alls eru leiknir fimm keppnishringir á lokaúrtökumótinu á Norður- og Suður völlum golfsvæðisins. Fyrstu fjóra dagana leika keppendur tvívegis á hvorum velli fyrir sig, en lokahringurinn verður leikinn á Suður-vellinum.

Norður-völlurinn er par 71 (35-36) og verður hann á bilinu 5100-5600 metrar að lengd.
Suður-völlurinn er par 73 (37-36) og verður hann á bilinu 5600 – 6.100 metrar að lengd.

Alls eru 146 keppendur og koma þeir frá 31 mismunandi löndum.

Alls verða leiknar 90 holur á fimm dögum. Eftir 72 holur verður niðurskurður þar sem að 60 efstu komast áfram.

20 efstu í mótslok fá keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni í styrkleikaflokki 12. Ef keppendur eru jafnir í 20. sæti fá þeir allir keppnisrétt.

Keppendur í sætum 21.-50 fá keppnisrétt í flokki 16 og þeir sem eru þar fyrir neðan fá keppnisrétt í flokki 19.

Guðrún Brá hefur verið með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni frá árinu 2020. Hún gerðist atvinnukylfingur árið 2018 og var með keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Access, árið 2018 og 2019. Hún tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á lokaúrtökumótinu í lok janúar árið 2020.

Á því móti endaði hún í 17. sæti á +3 samtals á fimm hringjum eða 90 holum.

Alls hafa fjórar íslenskar konur komist inn á LET Evrópumótaröðina. Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var önnur í röðinni, Valdís Þóra Jónsdóttir sú þriðja og Guðrún Brá sú fjórða árið 2020. Ef Guðrúnu Brá tekst að tryggja sér keppnisrétt á ný verður hún fyrsta konan frá Íslandi sem fetar þessa leið í annað sinn á ferlinum.

Eins og áður segir lék Guðrún Brá á 1. stigi úrtökumótsins á þessum völlum dagana 10.-13. desember s.l. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, lék einnig á því móti.

Guðrún Brá lék hringina fjóra á 4 höggum yfir pari samtals (72-77-73-70) og endaði hún í 20. sæti og komst þar með inn á lokaúrtökumótið. Lokahringurinn var besti hringur Guðrúnar þar sem hún lék á tveimur höggum undir pari.

Ragnhildur lék hringina fjóra á +14 samtals og endaði hún jöfn í 81. sæti. Ragnhildur lék á (71-77-72-82) og hefði hún þurft að leika á +10 samtals til þess að komast inn á lokaúrtökumótið.

Exit mobile version