Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Guðmundur Ágúst Kristjánsson keppir á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu næstu daga. GR-ingurinn hefur leik kl. 12:10 að íslenskum tíma á fimmtudaginn á Nordea Masters sem fram fer á hinum þekkta velli Barsebäck Golf & Country Club á Skåne í Svíþjóð. Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á þessu móti með frábærum árangri á úrtökumóti sem fram fór á þessum sama velli nýverið.

Þar lék Guðmundur Ágúst á fimm höggum undir pari vallar. Alls reyndu 124 kylfingar sig á úrtökumótinu en alls komust þrír áfram. Adrien Bernadet og Niklas Lemke öðluðust keppnisrétt líkt og Guðmundur Ágúst.

Á Nordea Masters mæta til leiks kylfingar á borð við heimamennina Henrik Stenson og Alexander Noren.

Guðmundur Ágúst er samkvæmt bestu heimildum golf.is aðeins sjöundi íslenski kylfingurinn sem leikur á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Í karlaflokki hafa Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, Heiðar Davíð Bragason, GHD og Björgvin Sigurbergsson úr GK leikið á þessari mótaröð. Björgvin fékk boð um að leika á móti í Malasíu á sínum tíma og Heiðar Davíð fékk boð um að leika á Opna spænska meistaramótinu eftir sigur á sterkasta áhugamannamóti Spánar á sínum tíma. Birgir Leifur er eini karlkylfingurinn frá Íslandi sem hefur öðlast keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Þrjár íslenskar konur hafa öðlast keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir, GK var fyrsti íslenski kylfingurinn sem náði því. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GKG var önnur í röðinni og Valdís Þóra Jónsdóttir GL er þessa stundina með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ