/

Deildu:

Auglýsing

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, er á meðal keppenda á Singapúr Classic mótinu sem hefst þann 9. febrúar í samnefndu landi.

Mótið fer fram á Laguna National golfsvæðinu í Singapúr. Mótið hefst fimmtudaginn 9. febrúar og stendur það yfir í fjóra daga en lokahringurinn fer fram sunnudaginn 12. febrúar.

Guðmundur Ágúst keppti í síðustu viku á Ras Al Khaimah mótinu sem fram fór á Al Hamra vellinum í Ras al-Kaíma í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þar var hann tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir að hafa leikið fyrstu tvo hringina á pari vallar samtals.

Guðmundur Ágúst tryggði sér keppnisrétt á DP World Tour s.l. haust á lokaúrtökumótinu sem fram fór á Spáni. Hann lék á þremur mótum í Suður-Afríku og einu á Máritíus í lok síðasta árs. Mótið í Singapúr er því það sjötta hjá GKG-ingnum á keppnistímabilinu.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á Singapúr Classic mótinu.

Staðartími í Singapúr er átta klukkustundum á undan íslenskum tíma.

Guðmundur Ágúst hóf leik kl. 09:05 að staðartíma að morgni fimmtudagsins 9. febrúar. Það er kl. 01:05 aðfaranótt fimmtudagsins hér á Íslandi.

Með Guðmundi í ráshóp eru ensku kylfingarnir Todd Clements og Matthew Baldwin. Sá síðarnefndi var í toppbaráttunni í mótinu sem lauk s.l. sunnudag í Ras al-Kaíma.

Guðmundur Ágúst lék á 4 höggum undir pari á fyrsta keppnisdegi þar sem hann fékk alls 7 fugla – og er hann þessa stundina á meðal 10 efstu.

Sýnt er frá mótinu á sjónvarpsstöðinni Viaplay. Útsending hófst kl. 05:30 að íslenskum tíma að morgni fimmtudagsins 9. febrúar 2023.

Singapúr var áður hluti af Malasíu en landið öðlaðist sjálfstæði árið 1965.

DP World mótaröðin er mætt að nýju í Singapúr eftir níu ára hlé. Mót á DP World Tour fóru fram í landinu með reglulegu millibili á árunum 2002-2007. Árið 2014 sigraði Felipe Aguilar frá Chile í Singapúr á DP World Tour en ekki hefur verið keppt frá árinu 2014.

DP World Tour hefur gert þriggja ára samning við Singpúr um að halda mót á mótaröðinni í landinu fram til ársins 2025 en fyrst var keppt á Evrópumótaröðinni í Singapúr árið 1993.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ