Site icon Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst hefur keppnistímabilið á Áskorendamótaröðinni í Suður-Afríku

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur, keppir á sínu fyrsta móti á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, í þessari viku.

Mangaung Open er nafnið á mótinu en það fer fram á Bloemfontein golfsvæðinu í Suður-Afríku, dagana 3.-6. mars.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu.

Þetta er fjórða mótið í röð sem fer fram í Suður-Afríku á Áskorendamótaröðinni en Guðmundur Ágúst var á biðlista á fyrstu þremur mótunum þar sem að Haraldur Franklín Magnús keppti.

Guðmundur Ágúst endaði í 80. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar í fyrra. Hann lék á alls 19 mótum og komst í gegnum niðurskurðinn á 11 mótum.

Árið 2020 lék hann á 11 mótum og komst í gegnum niðurskurðinn á 5 mótum og endaði í 46. sæti á stigalistanum og komst þar með inn á lokamótið á Mallorca þar sem að keppt var um 20 laus sæti á sjálfri DP-Tour, Evrópumótaröðinni.

Haraldur Franklín tekur ekki þátt á þessu móti en hann fór til Íslands í stutt frí og kemur síðan aftur til Suður-Afríku þegar næsta keppnistörn hefst á Áskorendamótaröðinni í lok mars og byrjun apríl.

Alls eru sjö mót á dagskrá á þessu ári í Suður-Afríku á Áskorendamótaröðinni. Mótin eru sameiginlegt verkefni hjá Sunshine Tour atvinnumótaröðinni í Suður-Afríku.

Keppt er á tveimur völlum á Mangaung Open, Bloemfontein og Schoeman Park.

Bloemfontein golfklúbburinn var stofnaður árið 1894 og er því einn elsti golfklúbbur Suður-Afríku. Klúbburinn hefur haldið ýmis þekkt mót í Suður-Afríku og má þar nefna Opna Suður-Afríska meistaramótið hjá atvinnukylfingum og fjórum sinnum hjá áhugakylfingum. Árið 1966 fór þar fram áhugavert einvígi á milli heimamannsins Gary Player og Bandaríkjamannsins Jack Nicklaus.

Exit mobile version