GSÍ fjölskyldan
Brynjar Eldon Geirsson og Gregor Brodie. Mynd/seth@golf.is

„Mér er sýndur mikill heiður að fá tækifæri að takast á við þetta áhugaverða starf. Ég er gríðarlega spenntur að hefja þessa vegferð og byggja upp eitthvað sérstakt á komandi árum,“ segir Gregor Brodie nýr afreksstjóri Golfsambands Íslands.

Gengið var frá ráðningu Brodie í gær og tekur hann við starfinu um miðjan mars 2019.
Brodie er fæddur í Skotlandi en hann er 44 ára og er með mikla reynslu og menntun á mörgum sviðum golfíþróttarinnar.

Mikill áhugi var á starfinu en um 40 aðilar sóttu um afreksstjórastöðuna, þar af bárust 32 umsóknir frá erlendum aðilum.

Brodie tekur við af Jussi Pitkänen sem tók við sem afreksstjóri GSÍ í byrjun árs 2017. Pitkänen lét af störfum nýverið en hann var ráðinn sem þjálfari hjá Golfsambandi Finnlands.

Gregor Brodie er með meistaragráðu í þjálffræði frá íþróttaháskólanum í Birmingham á Englandi. Brodie hefur frá árinu 2010 starfað sem PGA kennari og þjálfari.

Brodie hefur frá þeim tíma bætt menntun sína á því sviði með margvíslegum hætti. Þar má nefna að hann er í fámennum hópi PGA kennara/þjálfara sem eru með ASQ 4 þjálfararéttindi og hann er einnig með Bull3D réttindi.

Á undanförnum misserum hefur Gregory Brodie verið í þjálfarateymi golfsambandsins í Wales. Hann vann m.a. að afreksstefnu golfsambands Wales fyrir árin 2015-2025. Wales fagnaði Evrópumeistarartitli árið 2017 með Brodie í þjálfarateyminu.

Samhliða starfinu í Wales stýrði hann þjálfun afrekskylfinga í Surrey sýslu, og hann hefur einnig starfað sem PGA kennari á þekktum golfvallasvæðum á borð við Foxhill Resort og Penny Hill.

Eins og áður segir hefur Gregory Brodie mikla reynslu af þjálfun afrekskylfinga. Hann hefur þjálfað atvinnukylfinga á Evrópumótaröð karla, Áskorendamótaröð karla, LET Evrópumótaröð kvenna auk áhugakylfinga í fremstu röð á heimsvísu.

Árið 2012 var Gregory Brodie á lista yfir 100 bestu golfþjálfara Bretlandseyja í tímaritinu Golf World.

Gregor Brodie, afreksstjóri GSÍ:

„Ég hef unnið með kylfingum sem koma frá fámennum þjóðum og tekið þátt í því að ná með þeim framúrskarandi árangri. Slík samvinna hefur skilað af sér Evróputitli.

Eitt af stóru verkefnunum fyrir mig er að byggja ofaná það góða starf sem forverar mínir hafa unnið á undanförnum árum. Við eigum að tileinka okkur hugarfar sigurvegarans enn frekar, þora að vera framúrskarandi og takast á við krefjandi verkefni með opnum huga.

Ég tek við góðu búi af forvera mínum, Jussi Pitkänen, sem skilaði af sér frábæru starfi. Ég mun ekki breyta miklu. Þess í stað mun ég nýta þann grunn sem er til staðar og þróa starfið enn frekar – og ég er með margar hugmyndir um hvernig við getum gert það.

Fyrst um sinn mun ég afla mér upplýsinga um hvernig staðan er – og meta síðan út frá hvernig forgangsröðunin verður, og á hvað ég mun leggja mesta áherslu.

Eins og áður segir er ég glaður og ánægður að fá þetta tækifæri. Verkefnið mitt er að aðstoða alla þá sem koma að afreksstarfinu og að Ísland nái enn lengra í golfíþróttinni á komandi árum,“ segir Gregor Brodie nýr afreksstjóri Golfsambands Íslands.

Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ:

„Ég er ánægður með niðurstöðuna eftir faglegt ráðningarferli og tel að með ráðningu Gregor Brodie munum við fá virkilega metnaðarfullan og hæfan einstakling til þess að leiða afreksmál GSÍ. Gregor Brodie hefur víðtæka reynslu á mörgum sviðum sem mun nýtast okkur vel á vegferð okkar við að fylgja eftir afreksstefnu GSÍ og styðja við íslenska afrekskylfinga og landslið Íslands. Ég hlakka til að bjóða hann velkominn til starfa og fá hann til liðs við okkur hjá GSÍ,“ segir Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands en um 40 aðilar sóttu um stöðu afreksstjóra GSÍ og þar af bárust 32 umsóknir frá erlendum aðilum.

Deildu:

Auglýsing