/

Deildu:

Auglýsing

Skemmtikvöld GR kvenna tókst með miklum ágætum enda var stemningin í þá veru að allar ætluðum við að skemmta okkur og njóta kvöldsins í góðra vinkvennahópi. Maturinn lék við bragðlaukana og hefur sjaldan bragðast betur og þjónusta Sigrúnar og hennar fólks í veitingaskálanum í Grafarholti var til fyrirmyndar. Anna Björk, golfvinkona okkar og stuðskvísa var ræðumaður kvöldsins og leiddi okkur í allan sannleikann um að það er hægt að vera mamma út á velli; móðurlegt og skemmtilegt innlegg frá Önnu Björk.  Dúettinn September bræddi það sem eftir var af hjörtum okkar með ljúfum tónum og það skemmdi svo ekki fyrir að GR konur fengu að dást að því nýjasta í golftískunni frá Cross og Ecco og nutu góðra tilboða á vönduðum golffatnaði.  Sjá mátti rjúka úr einhverjum kreditkortunum…..

Metþátttaka var í púttinu en 175 konur mættu í Korpuna og munduðu pútterinn frá síðari hluta janúar fram í byrjun mars. Jafnan var mikil stemning og spenna en kylfingar skiptust á að verma efstu sætin allt fram á síðasta dag. Að vanda var það Marólína Erlendsdóttir sem kom, sá og sigraði en hún kann ekki annað en að vinna okkur hinar og ber það mjög vel enda hógvær og þægileg á velli. Fjórir bestu hringir hennar töldu 109 högg. Í öðru sæti varð Nanna Björg Lúðvíksdóttir á 112 höggum og í því þriðja var Helga Hilmarsdóttir á 113 höggum.

Marólína Erlendsdóttir er Púttmeistari GR kvenna árið 2015.

GR konur óska Marólínu innilega til hamingju með titilinn.

Meðfylgjandi er lokastaðan eftir 8 púttkvöld.

Kvennanefnd þakkar kærlega þátttöku í púttmótaröðinni og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við GR konur. Í huga okkar er farið að vora og við vonum að slíkt hið sama sé hjá ykkur öllum. Það styttist í að við stormum hnakkreistar út á iðjagræna vellina og mundum kylfurnar í sportinu sem okkur þykir svo gaman að stunda.  Við minnum á að samstaða okkar allra og samhugur gerir góðan klúbb ennþá áhugaverðari.   

Stelpur! Það er tekið eftir því hvað við erum að gera innan klúbbsins. Við erum fyrirmynd í félagsstarfinu. Það er okkur öllum að þakka.

Framundan í starfinu er árlegt reglukvöld með Hinriki Hilmarssyni, yfirdómara GR, 15.apríl og fræðslukvöldið verður í lok apríl. Óvissuferðin verður farin laugardaginn 9.maí og hvetjum við ykkur til að taka daginn frá. Þá förum við á vit ævintýranna og spilum golf á einhverjum vallanna í kringum Reykjavík. Þetta hefur verið á meðal skemmtilegustu viðburða í starfi GR kvenna, eitthvað sem engin kona má missa af.

Dagskráin sumarsins er svo gott sem tilbúin en hún verður birt á næstu dögum.
Við hlökkum mikið til að starfa með ykkur á sumri komanda og bendum á netfang GR kvenna ellasveins@gmail.comvarðandi ábendingar og nýja meðlimi.

Kær kveðja
Kvennanefnd GR kvenna

Anna Lilja, Björk, Elín Ásgríms, Elín Sveins, Elísabet, Elva, Eygló, Ragnheiður og Sandra.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ