/

Deildu:

Auglýsing

Hér má lesa allar 45 greinarnar frá dómaranefnd GSÍ varðandi golfreglubreytingarnar sem tóku gildi þann 1. janúar 2019. Leitartíminn er nú þrjár mínútur

Nú hefurðu þrjár mínútur til að leita að bolta þínum. Ef boltinn hefur ekki fundist innan þriggja mínútna frá því þú eða kylfuberi þinn hófuð leit að honum er boltinn týndur og þú verður að taka fjarlægðarvíti.

Ef boltinn finnst eftir að þriggja mínútna leitartíminn er liðinn telst boltinn samt týndur og þú mátt alls ekki leika honum. Mikilvægt er að kylfingar temji sér að taka tímann þegar leit hefst.

Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að flýta leik. Reynslan sýnir að flestir bolta sem finnast á annað borð finnast innan þriggja mínútna. Þótt týndum boltum muni fjölga eitthvað við breytinguna er talið að leikhraði muni almennt aukast.

Kylfingar ættu almennt að temja sér að leika varabolta ef upphaflegi bolti kann að vera út af eða týndur utan vítasvæðis.

Sjá reglu 18.2


Vítalaust þótt boltinn hreyfist óvart við leit

Nú er vítalaust þótt þú hreyfir bolta þinn óvart við leit að honum. Þú leggur boltann einfaldlega á fyrri stað. Oft muntu ekki vita nákvæmlega hvar boltinn var og þá áætlarðu staðinn og leggur boltann þar.

Ef boltinn lá ofan á, undir eða upp að einhverju þarf að leggja boltann aftur í sömu aðstæður. Ef boltinn var í sandi þarf að endurgera legu boltans í sandinum.

Einn tilgangur þessarar breytingar er að flýta leik á þann hátt að leikmaður og kylfuberi hans geti óhræddir leitað að bolta leikmannsins. Í fyrri reglum hlaut leikmaðurinn eitt vítahögg ef hann eða kylfuberi hans ollu því að boltinn hreyfðist við leit. Leiddi það oft á tíðum til þess að leikmaðurinn og kylfuberinn héldu sig til hlés ef aðrir voru tiltækir við leitina.

Sjá reglu 7.4


Það er vítalaust þótt þú tvísláir boltann óvart

Ef þú slærð boltann óvart tvisvar (eða oftar) í sama högginu er það vítalaust. Þú telur eitt högg og leikur boltanum þar sem hann stöðvast.

Ef þú hins vegar tvíslærð boltann viljandi þarftu að telja eitt högg og bæta við tveimur vítahöggum fyrir að hafa áhrif á bolta á hreyfingu.

Að tvíslá boltann gerist yfirleitt alltaf óvart. Hvar boltinn hafnar er ófyrirsjáanlegt og sjaldnast hagnast leikmaðurinn nokkuð á því. Þess vegna var talið sanngjarnt að fella þetta víti niður.

Sjá reglu 10.1a


Púttað með flaggstöngina í holunni

Nú máttu pútta með flaggstöngina í holunni, jafnvel þótt boltinn sé á flötinni.

Áður en þú púttar þarftu samt að ákveða hvort þú viljir fjarlægja flaggstöngina, láta standa við hana eða hafa flaggstöngina í holunni.

Sömu reglur gilda því alltaf um flaggstöngina, hvort sem boltinn er á flötinni eða utan hennar.

Vonast er til að þessi breyting flýti leik, einkum þegar leikmenn hafa ekki kylfubera.

Sjá reglu 13.2


Leikhraði

Í nýjum golfreglum er sérstaklega hvatt til þess að leikið sé rösklega, t.d. með því að:

(a) Leikmenn geri sér grein fyrir að leikhraði þeirra hefur áhrif á aðra leikmenn og allir leiki rösklega, t.d. með því að undirbúa högg sín tímanlega og að ganga rösklega á milli högga og á næsta teig.

(b) Hvert högg taki ekki lengri tíma en 40 sekúndur og oftast styttri tíma, eftir að leikmaðurinn getur leikið vegna ráshópsins á undan eða annarra truflana.

(c) Undirstrika að leikmenn í höggleik geta leikið í þeirri röð sem hentar hverju sinni, til að flýta leik.

(d) Staðfesta að leikmönnum í holukeppni er heimilt að komast að samkomulagi um að leika í annarri röð en reglurnar kveða á um.

(e) Hvetja mótsstjórnir til að setja reglur um leikhraða.

Sjá reglu 5.6b


Ef þú slærð óvart í sjálfa(n) þig

Nú er vítalaust þótt þú sláir boltann óvart í sjálfa(n) þig eða í útbúnað þinn. Þú einfaldlega leikur boltanum þar sem hann stöðvast.

Eina undantekningin frá þessari reglu er ef þú púttar boltanum á flötinni og boltinn hittir þig eða útbúnað þinn. Þá gildir höggið ekki, þú leggur boltann aftur á fyrri stað púttar aftur.

Sömu reglur gilda í höggleik og í holukeppni. Ef þú slærð bolta þinn t.d. óvart í mótherja þinn í holukeppni hefurðu ekki lengur kost á að afturkalla höggið.

Sjá reglu 11.1


Kylfuberinn þarf að passa sig

Nú má kylfuberinn ekki standa aftan við boltann þegar leikmaðurinn byrjar að taka sér stöðu fyrir höggið.

Áður mátti kylfuberinn ekki standa fyrir aftan boltann þegar leikmaðurinn sló höggið en það bann hefur verið útvíkkað.

Hugmyndin er sú að leikmaðurinn einn eigi að glíma við uppstillingu fóta og líkama fyrir högg og því eigi kylfuberinn að vera búinn að stíga frá þegar leikmaðurinn byrjar að stilla sér upp fyrir höggið.

Sjá reglu 10.2


Kylfuberinn á flötinni

Sömu takmarkanir gilda fyrir kylfuberann á flötinni og utan flatarinnar, að hann má ekki standa aftan við boltann þegar leikmaðurinn byrjar að taka sér stöðu fyrir næsta högg. Hugmyndin er sú að kylfuberinn eigi ekki að aðstoða leikmanninn við uppstillingu fóta og líkama og því þarf kylfuberinn að vera búinn að stíga frá þegar leikmaðurinn byrjar að stilla sér upp fyrir höggið.

Hins vegar eru reglurnar nú frjálslegri varðandi að lyfta bolta á flötinni. Kylfuberinn má merkja og lyfta bolta síns leikmanns á flötinni, án sérstaks leyfis leikmannsins í hvert sinn. Sömuleiðis má kylfuberinn leggja boltann aftur á flötina, hafi hann sjálfur lyft boltanum.

Sjá reglur 10.2 og 14.1b


Ef bolti þinn hreyfist á flötinni

Tvær mikilvægar breytingar hafa orðið á reglunum varðandi bolta sem hreyfist á flötinni:

 • (a) Ef þú veldur því óvart að bolti þinn hreyfist á flötinni er það nú vítalaust og þú leggur boltann einfaldlega aftur á fyrri stað.
 • (b) Ef bolti þinn hreyfist á flötinni eftir að þú varst áður búin(n) að lyfta boltanum og leggja hann aftur áttu alltaf að leggja boltann aftur á fyrri stað. Engu skiptir hvað olli því að boltinn hreyfðist, þú leggur hann þá aftur á fyrri stað, jafnvel þótt hann hafi fokið.

Eftir því sem hraði flata hefur aukist hefur þeim tilvikum fjölgað að boltar hreyfast á flötunum og oft hefur verið erfitt að ákvarða hvort leikmaðurinn olli hreyfingunni eða hvort boltinn hreyfðist t.d. vegna vinds eða þyngdarafls.

Því var talið bæði sanngjarnt og til mikillar einföldunar að hætta að víta leikmenn þótt þeir valdi því af slysni að bolti hreyfist á flötinni.

Sjá reglu 13.1


Svæði vallarins

Í golfreglunum er vellinum skipt upp í fimm svæði, almenna svæðið, teiginn, glompur, vítasvæði og flötina.

Almenna svæðið, glompur og vítasvæði eru „föst“ allan hringinn, en teigurinn og flötin fara eftir því hvaða holu við erum að leika. Þannig falla t.d. 4. teigurinn og 4. flötin undir almenna svæðið þegar við erum að leika aðrar holur en þá fjórðu.

Ástæða þessarar flokkunar er að ólíkar reglur gilda eftir því á hvaða svæði boltinn er. T.d. megum við lagfæra flestar skemmdir á flötinni, sem við megum ekki gera á almenna svæðinu. Við megum ekki snerta sand í aftursveiflunni ef boltinn er í glompu en við megum það ef við erum að leika boltanum úr sandi á öðrum svæðum vallarins. Við megum tía boltann upp ef hann er á teignum en megum það ekki á öðrum svæðum vallarins. Og svo framvegis.

Sjá reglu 2.2


Sokkinn bolti

Nú færðu lausn frá sokknum bolta hvar sem er á almenna svæðinu, nema í sandi utan brauta.

Til að boltinn teljist sokkinn þarf hann að vera að einhverju marki fyrir neðan yfirborð jarðarinnar, ekki nægir að hann sé á kafi í gróðri.

Áður var þetta stundum leyft (með staðarreglu) í einstaka mótum, en er nú almenn golfregla.

Með þessari breytingu er samræmi í golfreglunum aukið, þar sem þetta var áður eina golfreglan um lausn sem gerði greinarmun á hversu hátt gras var slegið á almenna svæðinu.

Sjá reglu 16.3


Nú læturðu bolta falla úr hnéhæð

Ef þú þarft að láta bolta falla (t.d. við að taka víti eða við að taka lausn frá göngustíg) áttu að láta boltann falla úr hnéhæð.

Miðað er við hnéhæð þegar þú stendur upprétt(ur) en þú mátt standa hvernig sem þú vilt þegar þú lætur boltann falla.

Ef boltinn snertir þig eða útbúnað þinn áður en hann lendir á jörðinni þarftu að láta boltann falla aftur. Hins vegar er í lagi þótt boltinn skoppi óvart í þig eftir að hann hefur lent á jörðinni.

Ef þú, af gömlum vana, lætur boltann óvart falla úr axlarhæð geturðu leiðrétt mistökin með því að láta boltann falla aftur og færð ekki víti ef þú leiðréttir mistökin áður en þú leikur boltanum.

Sjá reglu 14.3b


Hvar látum við bolta falla?

Áður léstu bolta ýmist falla innan ákveðins svæðis (t.d. innan tveggja kylfulengda þegar þú tókst hliðarlausn úr rauðu vítasvæði), á ákveðna línu (t.d. við að taka víti úr gulu vítasvæði) eða á tiltekinn stað (t.d. við að taka fjarlægðarvíti á braut).

Reglurnar hafa nú verið staðlaðar þannig að þegar þú lætur bolta falla hefurðu alltaf ákveðið lausnarsvæði þar sem boltinn þarf að lenda. Ef þú tekur t.d. fjarlægðarvíti úti á braut er lausnarsvæðið ein kylfulengd frá staðnum þar sem þú slóst síðasta högg. Svæðið er þá hálfhringur því það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn.

Með þessari breytingu hefur útfærslan á því að láta bolta falla verið einfölduð. Þegar við látum bolta falla höfum við alltaf tiltekið lausnarsvæði þar sem boltinn á að lenda. Lausnarsvæðið er oftast ein kylfulengd frá viðmiðunarstaðnum, nema tvær þegar við tökum hliðarlausn (ósláanlegur bolti og lausn frá rauðum vítasvæðum).

Sjá reglu 14.3b


Þegar bolti er látinn falla innan lausnarsvæðis

Þegar þú lætur bolta falla þarf boltinn að lenda innan lausnarsvæðis.

Lausnarsvæðið er oftast ein kylfulengd frá viðmiðunarstað (t.d. þegar tekin er vítalaus lausn frá göngustíg) en tvær kylfulengdir þegar tekin er hliðarlausn (t.d. úr rauðu vítasvæði). Lausnarsvæðið nær þó aldrei nær holunni en viðmiðunarstaðurinn.

Boltinn þarf að lenda innan lausnarsvæðisins og má ekki rúlla út fyrir lausnarsvæðið. Ef boltinn rúllar út fyrir lausnarsvæðið þarftu að láta boltann falla aftur. Rúlli hann aftur út fyrir lausnarsvæðið áttu að leggja boltann þar sem hann lenti á jörðinni í seinni tilrauninni.

Sjá reglu 14.3c


Að lagfæra skemmdir á flötinni

Nú máttu lagfæra svo til allar skemmdir á flötinni.

Áður máttirðu einungis lagfæra skemmdir í leiklínunni ef um var að ræða boltaför eða gamla holutappa. Nú máttu auk þess lagfæra takkaför og aðrar skemmdir sem hafa orðið á flötinni.

Ekki má laga skemmdir sem hafa orsakast af eðlilegu viðhaldi flatarinnar (svo sem götunarholur), venjulegu sliti á holunni eða náttúrlegar ójöfnur á flötinni, t.d. vegna ójafnrar sprettu.

Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni. Því leyfa golfreglurnar þér lagfæringar á flötinni sem ekki eru leyfðar annars staðar á vellinum. Með þessari breytingu er eytt þeirri óvissu sem stundum hefur skapast um hvort tiltekin skemmd sé boltafar eða af öðrum orsökum.

Sjá reglu 13.1


Ef þú átt að setja bolta aftur á sama stað

Ef þú átt að setja bolta aftur á sama stað (t.d. ef einhver hreyfir boltann óvart) áttu alltaf að leggja boltann.

Áður gilti að láta þurfti boltann falla ef upphaflega staðsetningin var óþekkt. Nú áttu einfaldlega að áætla þessa upphaflegu staðsetningu og leggja boltann þar.

Ef boltinn lá ofan á, undir eða upp að einhverju þarf að leggja boltann aftur í sömu aðstæður. Í þeim tilfellum að upphaflega legan hefur breyst áttu að endurgera leguna ef boltinn var í sandi en annars að leggja boltann innan einnar kylfulengdar frá upphaflega staðnum, ekki nær holunni, þar sem legan er sem líkust upphaflegu legunni.

Sjá reglur 14.2c og 14.2d.


Nýr möguleiki við að taka víti upp úr glompu.

Ef bolti þinn lendir í ómögulegri stöðu í glompu og þú treystir þér ekki til að slá upp úr glompunni hefurðu nú nýjan kost við að taka víti.

Gegn tveimur vítahöggum geturðu dæmt boltann ósláanlegan og látið bolta falla utan glompunnar, á eða við beina línu frá holunni í gegnum staðinn þar sem boltinn lá í glompunni.

Að slá högg upp úr djúpum glompum reynist mörgum erfitt. Þetta hefur skapað vandamál í höggleikskeppnum þar sem leikmenn þurfa að ljúka leik á öllum holum. Með þessari nýjung er komið í veg fyrir að leikmenn „festist“ í glompum, þar sem þeir hafa nú alltaf kost á að dæma boltann ósláanlegan og taka víti upp úr glompunni.

Sjá reglu 19.3b


Vítasvæði í stað vatnstorfæra

Í stað vatnstorfæra eru nú komin vítasvæði. Ekki er lengur þörf á að þau tengist vatnasvæðum og klúbbar mega því skilgreina vítasvæði þar sem þeir vilja.

Vítasvæði eru áfram gul og rauð, með sambærilegum möguleikum á lausn og áður.

Þó hefur verið felldur út sá möguleiki sem fyrri reglur buðu upp á að taka hliðarlausn hinum megin við rautt vítasvæði. Hægt er að setja staðarreglu sem heimilar slíka lausn en hún er ekki í boði í almennu reglunum.

Með þessari breytingu er golfklúbbum gefið aukið frjálsræði í skilgreiningu vítasvæða, t.d. til að flýta leik.

Sjá reglu 17 og skilgreiningu á vítasvæði


Að slá högg innan vítasvæðis

Reglurnar eru nú mun frjálslegri varðandi högg sem slegin eru innan vítasvæða (áður vatnstorfæra).

Nú máttu fjarlægja lausung innan vítasvæðis, þú mátt leggja kylfuhausinn niður og kylfuhausinn má snerta vatn innan vítasvæðisins. Þegar þú fjarlægir lausung þarftu samt að fara varlega, því á sama hátt og t.d. á braut eða í karga færðu víti ef boltinn hreyfist þegar þú fjarlægir lausungina.

Ef þú slærð högg innan vítasvæðis gilda því í raun sömu reglur um hvernig þú átt að bera þig að eins og á almenna svæðinu, svo sem á braut eða í karga.

Tilgangurinn með þessari breytingu er að einfalda reglurnar og þar með að fækka vítum vegna misskilnings leikmanna um hvað þeir megi gera. Vítasvæðum er ekki ætlað að gera leikmönnum erfiðara að slá högg heldur er tilgangur þeirra fyrst og fremst að veita leikmönnum auka lausnarmöguleika ef bolti þeirra hafnar á svæðum þar sem boltar vilja týnast eða þar sem erfitt er að leika boltanum.

Sjá reglur 15.1 og 17.1


Ef kylfa skemmist við leik

Tvær breytingar hafa orðið á reglunum varðandi kylfur sem skemmast á meðan á leik stendur:

 • (a) Ef kylfa þín skemmist á meðan á leik stendur máttu halda áfram að nota kylfuna það sem eftir lifir hringsins. Enginn greinarmunur er gerður á því hvort kylfan skemmist við eðlilegan leik eða t.d. í reiðikasti.
 • (b) Ef kylfa þín skemmist á meðan á leik stendur máttu að öllu jöfnu ekki skipta um kylfu fyrr en eftir hringinn. Þú mátt eingöngu skipta um kylfu ef kylfan skemmdist fyrir tilverknað einhvers utanaðkomandi, þ.e. annars en þín eða kylfubera þíns.

Ef kylfa skemmist máttu láta gera við kylfuna, þó þannig að ekki sé skipt um grip, skaft eða kylfuhaus.

Með þessum breytingum hafa reglur um skemmdar kylfur einfaldast til muna og kemur í veg fyrir slysalegar frávísanir sem áttu sér stað áður þegar leikmenn héldu leik áfram með kylfu sem taldist óleikhæf.

Sjá reglu 4.1


Að snerta leiklínuna á flötinni

Ekki er lengur bannað að snerta leiklínuna þegar boltinn er á flötinni, t.d. þegar kylfuberi bendir leikmanni á stað til að miða á. Þó má við það ekki lagfæra leiklínuna, umfram það sem almennt er leyft varðandi lagfæringar á flötinni.

Breytingin er m.a. gerð til að einfalda reglurnar, þar sem ýmsar undantekningar voru í fyrri reglum við banninu um að snerta leiklínuna. Auk þess er litið svo á að leikmaðurinn hagnist ekkert á því að leiklínan sé snert og því sé þetta bann óþarft.

Sjá reglu 10.2b


Boltinn hittir eitthvað eftir pútt á flötinni

Ef þú púttar á flötinni og boltinn hittir af slysni eitthvað eða einhvern áður en boltinn stöðvast eða lendir í holunni gilda eftirfarandi reglur:

 • (a) Ef boltinn hittir óvart flaggstöngina eða þann sem gætir flaggstangarinnar er það vítalaust og þú leikur boltanum þar sem hann stöðvast.
 • (b) Ef boltinn hittir óvart einstakling (annan en þann sem gætir flaggstangarinnar), dýr eða manngerðan hlut (annan en flaggstöngina, kyrrstæðan bolta eða boltamerki) gildir höggið ekki. Þú verður að leggja boltann á upphaflegan stað og endurtaka púttið, vítalaust.
 • (c) Ef boltinn hittir boltamerki á flötinni er það vítalaust og þú leikur boltanum þar sem hann liggur.
 • (d) Ef þú ert að keppa í höggleik (þ.á.m. í punktakeppni) og boltinn hittir óvart kyrrstæðan bolta annars leikmanns á flötinni færðu tvö högg í víti. Höggið gildir og þú leikur boltanum þar sem hann liggur. Í holukeppni er þetta vítalaust og þú leikur boltanum þar sem hann liggur.

Sjá reglur 11.1 og 13.2b


Að leggja niður hluti til að aðstoða við miðun

Áður en þú slærð högg máttu ekki leggja neinn hlut á jörðina, t.d. kylfu, til að auðvelda þér uppstillingu fyrir höggið.

Í eldri reglum var bannað að slá högg með einhvern hlut á jörðinni til að auðvelda miðun eða uppstillingu en nú er bannað að leggja hlut á jörðina í þessum tilgangi, jafnvel þótt þú fjarlægir hlutinn áður en þú slærð höggið.

Sjá reglu 10.2b


Ný skilgreining á kylfulengd

Í fyrri reglum máttirðu velja hvaða kylfu þú notaðir við að mæla kylfulengdir, t.d. þegar þú tókst víti.

Nú er kylfulengdin föst fyrir hvern leikmann í hverjum hring, þ.e. kylfulengdin er lengd lengstu kylfunnar sem þú ert með í golfpokanum, að pútternum undanskildum.

Með þessari breytingu er komið á meira samræmi í stærð lausnarsvæðis á milli leikmanna, t.d. þannig að leikmenn með langa púttera njóti ekki stærra lausnarsvæðis en aðrir.

Sjá skilgreiningu á kylfulengd


Hegðunarreglur

Í golfreglunum er ætlast til að allir leikmenn leiki í anda leiksins, með því að:

 • Koma fram af ráðvendni, til dæmis með því að fylgja reglunum, beita öllum
  vítum og vera heiðarlegir í öllu sem snýr að leiknum.
 • Sýna öðrum tillitssemi, til dæmis með því að leika rösklega, vera vakandi fyrir öryggi annarra og trufla ekki leik annars leikmanns.
 • Ganga vel um völlinn, til dæmis með því að leggja torfusnepla á sinn stað, slétta glompur, lagfæra boltaför og valda ekki óþarfa skemmdum á vellinum

Klúbbar og mótshaldarar geta einnig sett eigin hegðunarreglur, sem gilda fyrir allan leik á viðkomandi velli eða fyrir tiltekin mót.

Í hegðunarreglunum er hægt að ákvarða að leikmenn fái víti (t.d. eitt eða tvö vítahögg) ef þeir brjóta ákvæði reglnanna. Hegðunarreglurnar geta t.d. fjallað um hegðun gagnvart starfsmönnum og öðrum leikmönnum, umgengni um völlinn eða klæðaburð.

Með hegðunarreglum er því hægt að refsa leikmönnum fyrir óviðeigandi framkomu, án þess að grípa til frávísunar, sem oft á tíðum er óþarflega hörð refsing.

Sjá reglu 1.2


Aftur-á-línu lausn

Í þremur tilvikum kanntu að kjósa að taka aftur-á-línu lausn, þ.e. þegar þú tekur lausn úr vítasvæði, þegar þú dæmir bolta þinn ósláanlegan eða þegar þú tekur vítalausn úr glompu vegna óeðlilegra vallaraðstæðna.

Ef þú tekur t.d. aftur-á-línu lausn úr gulu vítasvæði er miðað við línu frá holunni í gegnum staðinn þar sem boltinn fór síðast inn í gula vítasvæðið.

Í fyrri reglum áttirðu að láta bolta falla á þessa línu, aftan við vítasvæðið. Nú velurðu þér viðmiðunarstað á línunni, t.d. með því að stinga niður tíi. Þá hefurðu lausnarsvæði sem er ein kylfulengd frá viðmiðunarstaðnum (þó ekki nær holunni) og lætur bolta falla innan þessa lausnarsvæðis. Eins og í öðrum tilfellum þegar þú lætur bolta falla þarf boltinn að stöðvast innan lausnarsvæðisins. Ef boltinn rúllar út fyrir lausnarsvæðið þarftu að láta boltann falla aftur. Rúlli hann aftur út fyrir lausnarsvæðið áttu að leggja boltann þar sem hann lenti á jörðinni í seinni tilrauninni.

Þessi breyting er hluti almennra breytinga sem felast í því að þegar þú lætur bolta falla læturðu boltann alltaf falla innan skilgreinds lausnarsvæðis.

Sjá reglu 17.1d og 14.3c


Að leika bolta úr glompu

Reglurnar um að slá högg úr glompum hafa verið rýmkaðar.

Nú máttu t.d. fjarlægja alla lausung í glompu, þótt bolti þinn liggi í glompunni. Þú þarft samt að fara varlega því þú færð víti ef boltinn hreyfist við að fjarlægja lausungina.

Almennt má segja að nú gildi sömu reglur um högg úr glompum og af öðrum svæðum vallarins, með eftirfarandi undantekningum:

 • (a) Þú mátt ekki vísvitandi prófa ástand sandsins með hönd eða kylfu.
 • (b) Þú mátt ekki snerta sandinn með kylfu í æfingasveiflu.
 • (c) Þú mátt ekki snerta sandinn með kylfu rétt framan eða aftan við boltann eða í aftursveiflunni fyrir höggið.

Sjá reglu 12.2


Breytt skilgreining á glompum

Skilgreining á glompum hefur einfaldast.

Nú er bolti innan glompu ef hann er innan svæðisins sem hefur verið útbúið fyrir glompu og þar sem sandur á að vera að öllu jöfnu. Það þýðir að glompukanturinn er ekki hluti glompunnar, óháð því hvort kanturinn er úr mold eða hlöðnu torfi.

Sjá reglu 12.1


Slóstu vindhögg á teignum?

Ef svo illa vill til að bolti þinn er enn innan teigsins eftir upphafshöggið gilda áfram sömu reglur og fyrir upphafshöggið.

Þú mátt þá færa boltann innan teigsins, tía boltann upp og svo framvegis, án vítis.

Sjá reglu 6.2


Fjarlægðarmælar

Fjarlægðarmælar eru nú leyfðir samkvæmt almennum golfreglum.

Áður þurfti að setja staðarreglu til að heimila notkun þeirra en nú má nota fjarlægðarmælana þótt slík staðarregla sé ekki fyrir hendi. Á hinn bóginn má nú setja staðarreglu sem bannar notkun fjarlægðarmæla.

Litið er svo á að notkun fjarlægðarmæla samræmist grunngildum leiksins þar sem mat á fjarlægðum sé ekki einn þeirra þátta sem reyna eiga á hæfni leikmannsins. Auk þess er löng hefð fyrir að fjarlægðarupplýsingar séu tiltækar leikmönnum, s.s. með fjarlægðarstikum eða merkingum á vökvunarstútum.

Sjá reglu 4.3


Misskilningur í holukeppni

Leikmaður í holukeppni fær ekki víti þótt hann lyfti bolta sínum ef það gerist vegna eðlilegs misskilnings um að orð eða athafnir mótherjans hafi falið í sér gjöf á höggi, holu eða leiknum.

Í fyrri reglum fékk leikmaðurinn ekki víti ef hann lyfti bolta sínum vegna þess að hann misskildi orð mótherjans. Nú er einnig horft til athafna mótherjans, svo sem bendinga til leikmannsins eða annarrar líkamstjáningar.

Sjá reglu 3.2


Æfing á milli umferða

Ef þú ert að keppa í margra daga höggleikskeppni máttu núna æfa þig á vellinum eftir að þú hefur lokið leik á hverjum degi.

Þetta var áður bannað nema mótsstjórn hafi heimilað það sérstaklega. Mótsstjórnir geta nú bannað slíka æfingu en þurfa þá að setja staðarreglu um það.

Sjá reglu 5.2


Nú má skipta oftar um bolta

Ef þú tekur lausn máttu alltaf skipta um bolta.

Sem fyrr máttu skipta um bolta á milli hola og að auki máttu nú skipta um bolta í hvert sinn sem þú lyftir bolta í leik, nema þegar þú átt að leggja hann aftur á sama stað, t.d. á flötinni.

Fyrri reglur ollu stundum misskilningi, þegar skipta mátti um bolta þegar tekið var víti, en yfirleitt ekki þegar tekin var vítalaus lausn. Tilgangurinn með þessari breytingu er því fyrst og fremst að einfalda reglurnar og forðast að leikmenn fái víti vegna misskilnings um hvað þeir megi gera.

Sjá reglur 6.3 og 14.3a.


Að lyfta bolta til að þekkja hann

Ef þú þarft að lyfta bolta, t.d. í háum karga, til að staðfesta hvort þetta sé þinn bolti þarftu að merkja legu boltans áður en þú lyftir honum, en þarft ekki lengur að tilkynna það öðrum leikmanni eða gefa öðrum leikmanni færi á að fylgjast með þér.

Þú færð hins vegar eitt vítahögg ef þú lyftir boltanum án þess að hafa ástæðu til þess eða ef þú merkir ekki legu boltans áður en þú lyftir honum. Sömuleiðis máttu ekki hreinsa boltann meira en nauðsynlegt er til að þekkja hann.

Þessari breytingu er m.a. ætlað að auka leikhraða. Um leið er fyrirkomulagið samræmt við almennar reglur þegar bolta er lyft og honum leikið frá öðrum stað, en þá þarf leikmaðurinn heldur ekki að tilkynna það öðrum leikmanni. Með þessu er treyst á heiðarleika leikmannsins við að framfylgja reglunum.

Sama regla gildir þegar bolta er lyft til að athuga hvort hann er skemmdur (regla 4.2c) og þegar bolta er lyft til að athuga hvort hann er í aðstæðum þar sem lausn er veitt (regla 16.4).

Sjá reglu 7.3Ef þú hreyfir hlut sem ekki má hreyfa

Ef þú bætir aðstæður fyrir næsta högg með því að hreyfa hlut sem þú mátt ekki hreyfa (svo sem hvíta vallarmarkastiku) er það oftast vítalaust, ef þú setur hlutinn aftur á sinn stað áður en þú slærð höggið.

Áður hafði leikmaður bakað sér víti um leið og hann hreyfði hlutinn en nú fær leikmaðurinn því aðeins víti að hann hafi ekki náð að koma hlutnum í upphaflega stöðu áður en leikmaðurinn slær höggið.

Bætir þú aðstæður fyrir næsta högg með því að breyta yfirborði jarðarinnar, t.d. með því að hreyfa við jarðvegi eða fjarlægja dögg losnarðu ekki undan vítinu.

Sjá reglu 8.1


Ef kyrrstæður bolti hreyfist

Tvær mikilvægar breytingar hafa orðið varðandi mat á því hvort kyrrstæður bolti hafi hreyfst.

Ef talið er að kyrrstæður bolti í leik hafi hreyfst telst hann ekki hafa hreyfst nema það sé vitað fyrir víst eða talið nánast öruggt.

Ef kyrrstæður bolti þinn sem er í leik hreyfist telst þú ekki hafa valdið hreyfingu boltans nema að vitað sé eða nánast öruggt að sú hafi verið raunin. Almennt gildir að ef óljóst er hvað olli hreyfingu boltans er alltaf litið svo á að hann hafi hreyfst vegna náttúruaflanna.

Sjá reglur 9.2 og 9.4


Bolti hreyfist við að framfylgja reglu.

Nú sleppur þú við víti þótt þú valdir hreyfingu bolta þíns við að framfylgja reglu (t.d. að merkja legu boltans), þótt það sé ekki bein afleiðing athafnarinnar.

Áður sluppu leikmenn einungis við víti ef hreyfingin orsakaðist beinlínis af því að merkja legu boltans. Ef boltinn hreyfðist t.d. við að leikmaður missti kylfu á boltann þegar leikmaðurinn beygði sig niður til að merkja staðsetningu boltans fékk leikmaðurinn víti. Nú sleppur hann við víti.

Sjá reglu 9.4


Að standa klofvega yfir leiklínunni

Lengi hefur verið bannað að standa vísvitandi klofvega yfir leiklínunni eða framlengingu hennar aftan við boltann þegar högg er slegið á flötinni.

Nú nær þetta bann til allra högga, jafnt á flötinni og utan hennar. Undantekning er að standa má svona ef þess þarf t.d. til að standa ekki í leiklínu annars leikmanns.

Þetta þýðir að ef boltinn er t.d. skorðaður á milli steina máttu ekki lengur standa klofvega yfir leiklínunni og slá boltann í gegnum klofið.

Sjá reglu 10.1c


Ef röng flöt truflar leik þinn

Röng flöt er sérhver flöt á vellinum önnur en á holunni sem þú ert að leika hverju sinni.

Ef bolti þinn lendir á rangri flöt eða svo nærri rangri flöt að þú þarft að standa á röngu flötinni ertu skyldug(ur) að taka lausn frá röngu flötinni.

Lausnin er vítalaus og er framkvæmd á sama hátt og t.d. frá göngustígum, þ.e. þú finnur nálægasta stað fyrir fulla lausn og lætur bolta falla innan kylfulengdar frá þeim stað, ekki nær holunni og þar sem ranga flötin truflar ekki höggið.

Sjá reglu 13.1


Ef boltinn hittir flaggstöngina

Ef bolti þinn hittir óvart þann sem gætir flaggstangarinnar eða flaggstöngina sjálfa (hvort sem hennar er gætt eða hún hefur verið tekin úr holunni) er það vítalaust og þú leikur boltanum þar sem hann liggur.

Á hinn bóginn, ef boltinn hittir einhvern annan einstakling eða hlut eftir pútt af flötinni er höggið ógilt, þú leggur boltann á upphaflegan stað og púttar aftur, vítalaust.

Sjá reglu 13.2


Boltinn skorðast við flaggstöngina

Ef boltinn skorðast upp við flaggstöngina í holunni og einhver hluti boltans er neðan yfirborðs flatarinnar telst boltinn vera í holu.

Því þarf ekki lengur að rétta flaggstöngina við og vonast til að boltinn falli þá í holuna.

Sjá reglu 13.2


Lausn frá dýaraholum

Nú er veitt lausn frá öllum holum sem dýr hafa myndað á vellinum. Ef slíkar holur eða uppgröftur úr þeim truflar högg þitt áttu rétt á vítalausri lausn.

Í fyrri reglum takmörkuðust slíkar lausnir við grafdýr, þ.e. dýr sem mynda holur til bústaðar eða skjóls. Hundar falla t.d. ekki undir grafdýr og því var ekki veitt lausn frá holum eftir hunda.

Nú þurfa dómarar því ekki lengur að greina hvers konar dýr myndaði holuna því lausn er veitt frá holum eftir öll dýr.

Sjá reglu 16.1


Ný leikform

Í golfreglunum er nú boðið upp á nýtt leikform, hámarksskor.

Hámarksskor er afbrigði höggleiks þar sem hámark er sett á skor hverrar holu. Mótsstjórn ákveður hámarkið fyrir hverja holu, það getur t.d. verið skrambi eða tvöfalt par. Ef þú leikur á fleiri höggum en hámarkið er á viðkomandi holu skráist hámarkið sem skor þitt á holunni. Leikmenn eru hvattir til að taka boltann upp á holu þegar fyrirsjáanlegt er að þeir muni fá hámarksskor á holunni.

Leikmaður í hámarksskori þarf ekki að ljúka hverri holu. Ljúki hann ekki einhverri holu er hámarksskorið einfaldlega skráð á þá holu.

Auk þessa viðurkenna golfreglurnar nú önnur leikform sem reglurnar náðu ekki til, svo sem Texas Scramble og Greensome.

Sjá reglur 21.2 og 21.5


Samherjar í liðakeppni

Í keppnum samherja má hvor leikmaður sem er koma fram fyrir hönd liðsins.

Ef t.d. leikmenn í fjórmenningi taka víti má hvor samherjinn sem er láta bolta falla, óháð því hvor þeirra á að slá næsta högg.

Sjá reglur 22.2 og 23.5


Boltamerki

Ef þú notar boltamerki til að merkja legu bolta verður þú að fjarlægja boltamerkið áður en boltanum er leikið.

Þrengri skorður eru nú settar við því hvað megi nota sem boltamerki. Nota verður kylfu eða einhvern annan manngerðan hlut. Ekki má lengur t.d. nota lausung eða að skrapa línu í flötina.

Sjá reglu 14.1a og skilgreiningu á boltamerki


 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ