/

Deildu:

Guðjón Karl Þórisson formann GM, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Gunnar Ingi Björnsson, varaformaður GM.
Auglýsing

Nýverið var skrifað undir samning á milli Mosfellsbæjar og Golfklúbbs Mosfellsbæjar um þátttöku Mosfellsbæjar í verkefnum til uppbyggingar íþróttamannvirkja á vegum GM á næstu 6 árum. Golfklúbbur Mosfellsbæjar varð formlega til í desember þegar félagsfundir Golfklúbbs Bakkakots og Golfklúbbsins Kjalar samþykktu sameiningu klúbbanna undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Sameinaður golfklúbbur hefur yfir að ráð tveimur golfvöllum, annarsvegar Hllíðavelli, 18 holu velli við Leirvog og Bakkakotsvelli, 9 holu velli í Mosfellsdal.

Ný Íþróttamiðstöð við Hlíðavöll
Stærstur hluti framlags Mosfellsbæjar eða 100 milljónir króna munu renna til byggingar nýrrar Íþróttamiðstöðvar við Hlíðavöll. Miðstöðin mun verða miðsvæðis á hinum glæsilega Hlíðavelli sem hefur skipað sér í hóp bestu 18 holu valla landsins. Íþróttamiðstöðin mun hýsa alla þjónustu við félagsmenn ásamt skrifstofum og annarri aðstöðu klúbbsins. Stefnt er að því að framkvæmdir við bygginguna hefjist sumarið 2015 og að Íþróttamiðstöðin opni formlega sumarið 2017.

Uppbygging í Mosfellsdal
Um 25 milljónir af framlagi bæjarins munu renna í framkvæmdir við Bakkakotsvöll í Mosfellsdal. Markmið þeirra verður að lengja og bæta núverandi brautir ásamt því að bæta aðstöðu og aðkomu í kringum skálann. Nú er unnið að forvinnu við deiliskipulag og í framhaldi af því verða breytingar þessar hannaðar og kynntar félagsmönnum. Stefnt er að því að vinna við breytingarnar hefjist veturinn 2016 – 2017.

Golfklúbbur Mosfellsbæjar telur eftir sameiningu 1150 félagsmenn og er því fjórði stærsti golfklúbbur landsins. Markmið klúbbsins er að efla og bæta alla aðstöðu til golfleiks í Mosfellsbæ og kemur því stuðningur sveitarfélagsins sér afar vel fyrir þá uppbyggingu.

Á myndunum má sjá Guðjón Karl Þórisson formann GM, Gunnar Inga Björnsson, varaformann GM og Harald Sverrisson bæjarstjóra Mosfellsbæjar við undirritun samningsins.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ