GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Samkvæmt nýjustu tölum hefur skráðum kylfingum fjölgað um 3.000 á milli ára. Fjöldi kylfinga í golfklúbbum er því kominn vel yfir 29.000 sem þýðir um 11% fjölgun samanborið við sama tíma í fyrra. Sumarið er rétt hálfnað og því miklar líkur á að enn eigi kylfingar eftir að bætast í golfhreyfinguna.

Tæplega 30.000 eru því skráðir sem meðlimir í golfklúbba hér á landi en samkvæmt könnunum sem hafa verið gerðar má gera ráð fyrir að nálægt 60.000 Íslendingar spili golf. Því er varla fjarri lagi að tala um golf sem eina vinsælustu íþrótt landsins.

Skráðum kylfingum fjölgar um sem samsvarar einum meðalstórum golfklúbbi á ári

Ef notuð er þumalputtaregla að golfklúbbur með 18 holu völl geti auðveldlega rúmað 1.400 meðlimi og golfklúbbur með 9 holur geti rúmað 700 meðlimi þá má segja að meðlimum fjölgi um einn meðalstóran golfklúbb á hverju ári. En á síðustu 10 árum hefur kylfingum fjölgað um tæplega 13.000. Árlega bætast því að meðaltali 1.300 nýir meðlimir við.

Fjölgun meðlima í 85% allra golfklúbba á landinu.

Golfklúbbar rétt fyrir utan höfuðborgarsvæðið, eða á stórhöfuðborgarsvæði hafa vaxið gífurlega hvað varðar fjölda meðlima þetta sumarið. Þetta svæði nær yfir Suðurnes, Akranes, Hveragerði, Þorlákshöfn og Selfoss en þessir byggðakjarnar eru á ákveðinn hátt að renna saman við höfuðborgarsvæðið sem íbúa- og atvinnusvæði. Eflaust eru margar ástæður þess að meðlimum í jaðri höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað svo mjög. Þar mætti nefna fjölbreyttari möguleikar á félagsgjaldi m.a. ódýrari fjaraðild, aukið aðgengi að rástímum og markaðssetningu á samfélagsmiðlum golfklúbba. Í öðrum landshlutum er mikil fjölgun og sem dæmi er að meðaltali 27% fjölgun skráðra kylfinga í golfklúbbum á Norðvesturlandi.

Ennþá pláss fyrir 5.000 nýja meðlimi á stórhöfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt fyrrnefndri þumalputtareglu geta golfklúbbar ennþá tekið við fleiri kylfingum þegar á heildina er litið. Þó að ótakmörkuð félagsaðild hjá einhverjum golfklúbbum í höfuðborginni sé nú aðeins möguleg í gegnum biðlista þá geta golfklúbbar þess utan leikandi bætt við sig um 5.000 kylfingum. Nokkrir golfklúbbar geta boðið upp á par-3 velli og sérstakri félagsaðild að þeim sem er vinsæl á meðal byrjenda. Ef þessi jákvæða þróun á íþróttinni verður eins næstu 3-5 árin má telja líklegt að fjölga þurfi golfvöllum eða golfholum til að anna eftirspurn. Flest bæjar- og sveitarfélög um land allt eru vel meðvituð um þróun íþróttarinnar og vinna nú markvisst með sínum íþróttafélögum að nýjum möguleikum. Það eru spennandi tímar framundan!

Einstök upplifun fyrir erlenda kylfinga

Það er ekki eingöngu að meðlimum í golfklúbbum fjölgi heldur fjölgar með hverju ári þeim erlendum kylfingum sem leika golf á völlum um allt land. Hér er leikið í mikilli nánd við einstaka náttúru um allt land, hraun, ár, hveri og eldfjöll svo eitthvað sé nefnt að ótöldu miðnæturgolfinu sem er vinsælt meðal erlendra gesta. Nú er svo komið að erlendir kyfingar leika yfir 10.000 hringi árlega á völlum um allt land. Í júní sl. léku rúmlega 30% fleiri erlendir gestir á okkar völlum en í júní í fyrra.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ