Auglýsing

Golfklúbbur Mosfellsbæjar óskar eftir aðstoð frá sjálfboðaliðum úr golfhreyfingunni á landsvísu vegna óvenjulegra aðstæðna á Íslandsmótinu í golfi 2020. Hér fyrir neðan er bréf frá Kára Tryggvasyni formanni GM.

Ágætu kylfingar.

Nú á fimmtudaginn hefst Íslandsmótið í golfi og fer það fram á Hlíðavelli hjá okkur í Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Það verða 150 kylfingar sem hefja leik á fimmtudaginn og það verður svo fækkað niður í um 75 spilara fyrir laugardag og sunnudag.

Það hefur verið mikil tilhlökkun hjá okkur í GM að halda Íslandsmótið og er þetta í fyrsta skipti sem mótið fer hér fram.  Það var því virkilega ánægjulegt þegar við fengum staðfestingu á því að móti gæti farið fram þrátt fyrir þær sérstöku aðstæður sem við búum við í dag vegna Covid-19 veirunnar.

Það er því ljóst að til okkar mæta um 150 af bestu kylfingum þessa lands og hlökkum við mikið til þess að taka á móti þeim. Til þess að þessir kylfingar geti einbeitt sér að fullu að sýnum golfleik og leikið við þau allra bestu skilyrði sem við getum boðið upp á. Þá er ljóst að við þurfum talsvert fleiri sjálfboðaliða en við gerðum ráð fyrir í upphafi og því biðlum við til ykkar kylfingar góðir að koma og aðstoða okkur við mótið.

Okkar hugmyndir miða að því (ef við fáum nógu marga sjálfboðaliða) að einn sjálfboðaliði fylgi hverjum ráshóp allan hringinn. 

Þessi aðili mun sjá um að raka allar glompur ásamt því að passa upp á stöngina á flötunum þar sem kylfingum er óheimilt að snerta hana. 

Viðkomandi mun bera á sér sótthreinsibúnað og það sem til þarf og passa þannig upp á að sameiginlegir snertifletir séu allir sótthreinsaðir þegar hans/hennar ráshópur fer af hverri flöt.

Við þurfum því ansi marga sjálfboðaliða til þess að allt geti gengið vel fyrir sig og óskum því eftir ykkar aðstoð. Þau ykkar sem geta aðstoðað okkur þessa daga eru vinsamlegast beðin um að láta Ágúst vita í síma 8577009 eða senda tölvupóst á agust@golfmos.is og taka þar þá fram hvenær þið getið aðstoðað okkur.

Þarna gefst að auki frábært tækifæri til þess að sjá okkar allra bestu kylfinga spila golf í góðu návígi og það er alveg á hreinu að það er hægt að læra talsvert af þeim.

Allir þeir sem koma og aðstoða okkur fá boð í golfmót sem haldið verður í september. Þeir sem ekki hafa áhuga á því að vera með í því móti geti fengið gjafabréf í golf hjá okkur í staðinn. Einnig fá allir sjálfboðaliðar 20% afslátt Í Prósjoppunni í Síðumúlanum í vikunni eftir Íslandsmótið.

Er það okkar von að þið kylfingar góðir sjáið ykkur fært að aðstoða okkur við mótahaldið á þessum sérstöku tímum.

Með fyrirfram þökk og von um góð viðbrögð.

Kári Tryggvason, formaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ