Ragnhildur Kristinsdóttir, kylfingur GR og ríkjandi Landsmeistari í golfhermum hefur farið frábærlega af stað í Super Bock Ladies Open mótinu á LET Access mótaröðinni.
Leikið er á Vidago Palace vellinum í Portúgal, sem er par 72 og 5.225m að lengd.
Ragnhildur lék fyrsta hringinn frábærlega og kom í hús á 67 höggum, eða 5 undir pari. Hún fékk 6 fugla og 1 skolla, hitti 10/14 brautum og 16/18 flötum vallarins. Stutta spilið var einnig öflugt hjá Ragnhildi sem púttaði 28 sinnum á hringnum, og einungis 12 sinnum á seinni 9 holunum. Spilamennskan hefur augljóslega verið frábær hjá landsliðskonunni sem situr í 3. sæti mótsins og verður gaman að fylgjast með henni næstu dagana.

Andrea Bergsdóttir leikur einnig í mótinu, en hún situr í 99. sæti eftir hring upp á 77 högg í gær.