Fjórir íslenskir kylfingar taka þátt á European Young Masters, sem fer fram á RCF La Boulie golfsvæðinu í Frakklandi dagana 24.-26. júlí. Mótið er fyrir kylfinga sem eru 16 ára og yngri og var fyrst haldið árið 1995.
Keppendur Íslands eru Arnar Daði Svavarsson, Ásdís Rafnar Steingrímsdóttir, Bryndís Eva Ágústsdóttir, og Máni Freyr Vigfússon.

Keppt er í einstaklings- og liðakeppni. Leiknir eru þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum í þar sem að keppt er í höggleik. Í liðakeppninni telja þrjú bestu skorin hjá hverju liði á hverjum hring.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit frá mótinu.
Margir af bestu kylfingum heims hafa leikið í mótinu, en þar má nefna:
- Jon Rahm
- Rory McIlroy
- Viktor Hovland
- Sergio Garcia
- Carlota Ciganda
- Gergia Hall
La Boulie svæðið tók vel á móti okkar fólki á fyrsta æfingahring, sól og blíða og völlurinn nokkuð krefjandi. Tré vallarins eru nánast meðfram öllum brautum, og því mikilvægt að halda sér í leik af teig.
Áralöng hefð er fyrir því að Ísland sendi lið í mótið, en Perla Sól Sigurbrandsdóttir sigraði það árið 2022. Við munum fylgjast með gengi okkar kylfinga á golf.is og miðlum GSÍ á næstu dögum.



