Auglýsing

Dómaranefnd GSÍ hefur haft í nógu að snúast á undanförnu við að fræða nýja golfdómara. Mjög góð þátttaka var á héraðsdómaranámskeiði sem fram fór í mars s.l. en 54 aðilar skráðu sig á námskeiðið. Sæmundur Melstað, formaður dómaranefndar, segir að áhuginn hafi verið með því mesta í seinni tíð.

„Héraðsdómaranámskeiðið fór fram með fjarfundum í fjögur skipti 9., 11., 15. og 17. mars. Fyrirlestrarnir voru 4 klst. í senn. Í kjölfarið á námskeiðinu var boðið upp á héraðsdómarapróf fyrir þá sem vildu – en það próf fór einnig fram rafrænt á tímabilinu 20.-28. mars. Stór hluti hópsins fór í prófið og 33 einstaklingar stóðust prófið – sem er einnig með því mesta á undanförnum árum,“ segir Sæmundur.

Fjölmennur hópur GR-inga var á meðal þeirra sem tóku prófið eða 16 alls en Golfklúbbur Reykjavíkur setti í gang átak til þess að fjölga dómurum í sínum röðum.

„Það eru ekki allir sem sinna dómgæslu í mótum eftir prófið og samkvæmt okkar tölum voru aðeins 50% af þeim 177 einstaklingum sem eru með dómararéttindi virkir í dómgæslu. Héraðsdómarar hafa rétt til að dæma í ýmsum mótum eins og opnum mótum klúbba, meistaramótum og Íslandsmótum klúbba í neðri deildum.

Sæmundur bætir því við að margir kylfingar fari á slík námskeið til að fá betri skilning á reglunum og sumir fari í prófið til að sannreyna þekkingu sína.

„Ég hef oft sagt við kylfinga sem ég er að aðstoða í mótum úti á velli að það er raunin að þeir kylfingar sem þekkja reglurnar vel vita um fleiri möguleika á lausnum – en þeir sem þekkja reglurnar illa. Það getur því komið sér vel í leik að þekkja reglurnar vel,“ segir Sæmundur Melstað formaður dómaranefndar GSÍ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ