/

Deildu:

Auglýsing

Að fara holu í höggi er að sögn það skemmtilegasta sem kylfingar upplifa á golfvellinum. Ég trúi því þótt ég hafi ekki upplifað það sjálfur, ennþá. Að hljóta frávísun í golfmóti er líklega það leiðinlegasta og þar á eftir að þurfa að taka fjarlægðarvíti.

Eitt jákvætt má segja um fjarlægðarvítið, ef jákvætt skyldi kalla, og það er að fjarlægðarvíti má taka hvenær sem er. Við megum alltaf leika bolta aftur frá staðnum þaðan sem boltanum var síðast leikið, gegn einu vítahöggi. Í hita leiksins virðast kylfingar ekki alltaf átta sig á þessu, t.d. þeir sem hafa púttað boltanum út af 18. flötinni á Hvaleyrarvelli og þurft að slá mjög erfitt högg aftur upp á flötina.

[quote_box_right]Ég hef horft upp á kylfinga gera þetta og sumir þeirra hefðu verið betur settir ef þeir hefðu einfaldlega tekið fjarlægðarvíti, frekar en að reyna við höggið upp á flötina.[/quote_box_right]

Mörgum þykir á hinn bóginn ósanngjarnt að fá bæði eitt högg í víti og að þurfa að leika aftur af sama stað þar sem fjarlægðarvíti er tekið.

Af hverju eru reglurnar svona harðar? Á síðustu árum hafa golfreglurnar þróast í þá átt að slakað hefur verið á refsingum, t.d. var refsingin fyrir að slá boltanum í sjálfan sig eða útbúnað sinn minnkuð úr tveimur höggum í eitt árið 2008. Af hverju er ekki líka búið að breyta fjarlægðarvítinu?

[quote_right]Þótt reglan um fjarlægðarvítið sé í dag á sömu nótum og í elstu þekktu golfreglunum frá 1744 hefur hún ekki staðið óbreytt allan þann tíma. Ýmsar útgáfur hafa verið reyndar, með mjög misjöfnum árangri.[/quote_right]

Skoðum fyrst hvenær við neyðumst til að taka fjarlægðarvíti, þ.e. þegar við eigum engan annan kost. Það gerist bara ef bolti týnist eða hann er sleginn út fyrir vallarmörk og er lýst í reglum 27-1b og 27- 1c.

Þessi tvö tilvik þegar við neyðumst til að taka fjarlægðarvíti, þ.e. þegar við týnum bolta og sláum út fyrir vallarmörk, eru tengd á þann hátt að illmögulegt er að hafa ólíkar afleiðingar af þeim. Ástæðan er sú að mjög oft er útilokað að greina á milli þess hvort tilvikið hafi átt sér stað. Ef við t.d. sláum boltann langt út til hægri á 1. holu á Strandarvelli við Hellu og finnum hann ekki innan 5 mínútna getur stundum verið erfitt að segja til um hvort boltinn hafi farið út fyrir vallarmörk eða ekki. Því myndi það valda allskyns flækjum ef við þyrftum að bregðast við á ólíkan hátt eftir því hvort við týnum boltanum innan vallar eða sláum út fyrir vallarmörkin.

Það er vissulega dýrkeypt að taka fjarlægðarvíti og tapa t.d. lengd upphafshöggs auk þess að fá eitt högg í víti. Er hægt að lina þessa refsingu? Já, auðvitað er það hægt en hvernig væri þá skynsamlegast að gera það?

Tvær leiðir liggja í augum uppi. Önnur er sú að láta vítahöggið halda sér en sleppa fjarlægðartapinu.

Hvað þýddi það? Þegar bolta væri leikið út fyrir vallarmörk myndum við láta bolta falla við vallarmörkin, líklega á svipaðan hátt og við gerum þegar við tökum víti úr hliðarvatnstorfæru.

En hvað með týnda boltann? Hvar ættum við að láta nýjan bolta falla? Öll vitum við að oft er leitað að bolta á býsna stóru svæði. Á ráshópurinn að reyna að meta á hvaða svæði boltinn týndist og leikmaðurinn að láta nýjan bolta falla á miðju því svæði? Eða aftast á því svæði? Það hljómar ekki skynsamlega og væri vís vegur til margskonar deilna á golfvellinum.

Hin leiðin er að sleppa vítahögginu og láta fjarlægðina eina nægja sem refsingu. Ef við sláum upphafshögg okkar út fyrir vallarmörk sláum við einfaldlega 2. högg af teig. Ef við týnum bolta förum við sömuleiðis fara til baka þaðan sem við slógum boltann sem týndist og sláum næsta högg þaðan.

Þessi leið hefur verið reynd nokkrum sinnum. Reglur R&A voru á þennan veg á árunum 1950-1952 og reglur bandaríska golfsambandsins voru þannig á árunum 1947-1952.

Erfið staða- Það getur ýmislegt gert það að verkum að fjarlægðarvíti komi til greina sem valkostur.Sameiginlegar golfreglur árið 1952

Árið 1952 var upphafsár einsleitra golfreglna í öllum heiminum þegar R&A í Skotlandi og bandaríska golfsambandið gáfu út sameiginlegar golfreglur. Samhliða útgáfu reglnanna var samþykkt að golfreglunum yrði ekki breytt í framtíðinni nema báðir samþykktu breytingarnar. Þetta samkomulag hefur staðið síðan og eru nýjar golfreglur nú gefnar út á fjögurra ára fresti að undangenginni sameiginlegri endurskoðun reglunefnda R&A og bandaríska golfsambandsins.

Á þessu er sú undantekning að árið 1960 vildi bandaríska golfsambandið gera nýja tilraun til að minnka refsinguna sem felst í fjarlægðarvítinu. R&A var ósammála en féllst á að slík breyting yrði reynd í Bandaríkjunum.

[quote_left]Breytingin fólst í því að hverfa aftur til reglunnar sem gilti í Bandaríkjunum árin 1947-1952 og hjá R&A árin 1950-1952, þ.e. að vítinu sjálfu yrði sleppt en refsingin fælist eingöngu í fjarlægðartapinu.[/quote_left]

Af hverju misheppnaðist þessi tilraun? Munum að refsingin fyrir að slá bolta út fyrir vallarmörk og að týna bolta þarf helst að vera sú sama því oft er erfitt að greina þar á milli. Í ljós kom að kylfingar lentu oft í þeim aðstæðum að það hentaði þeim best að „týna“ bolta sínum og slá næsta högg aftur á sama stað. Ímyndum okkur kylfing sem „shankar“ upphafshögg sitt á 2. holu í Öndverðarnesi. Boltinn hafnar úti í einhverju káli og kylfingurinn hefur val um að leita að boltanum og slá 2. högg sitt þaðan eða að slá 2. höggið af teignum.

Flestir myndu líklega kjósa að slá 2. höggið af teignum. Með þessari breyttu reglu höfðu kylfingar sem sagt val um það hvaðan næsta högg var slegið. Þetta val töldu

menn að samrýmdist illa þeirri grunnhugsun golfsins að eitt högg leiðir af öðru og að í næsta höggi taki maður afleiðingunum af því hvernig tókst til í síðasta höggi.

Er þetta eitthvað ólíkt því sem gildir í dag varðandi varabolta? Ef varaboltinn heppnast vel kjósa menn stundum að slá hann áfram og að leita ekki að upphaflega boltanum. Já, munurinn er sá að við borgum fyrir það með vítahöggi að slá varaboltann áfram. Við getum vissulega valið hvað við viljum gera en við getum ekki valið á milli tveggja kosta án þess að það hafi áhrif á skorið á holunni. Það er svipað og ef boltinn okkar er í illsláanlegri legu, við getum valið að reyna að slá boltann eða að dæma boltann ósláanlegan og fá hann þar með í betri legu en það hefur þá áhrif á skorið.

Meistari í vanda. Það eru allir kylfingar sem lenda í vandræðum utan brautar, einnig margfaldir Íslandsmeistarar á borð við Björgvin Sigurbergsson.

Leita að boltanum sínum með hálfum huga

Þessar neikvæðu afleiðingar komu fljótt í ljós í tilrauninni í Bandaríkjunum. Brugðust var við með því að reyna að koma í veg fyrir að kylfingar gætu valið á milli tveggja kosta þegar augljóst var að boltinn var ekki raunverulega týndur. Nýju ákvæði var bætt við regluna þar sem kylfingurinn var skyldaður til að leita að bolta sínum í fimm mínútur áður en hann gat slegið næsta högg þaðan sem fyrri boltanum var leikið. Ég held að flestir geti ímyndað sér hvað þetta hafði í för með sér. Kylfingar voru vafrandi um kargann að leita að boltanum sínum með hálfum huga, í þeirri von að þeir fyndu hann ekki, og í raun bara að bíða eftir því að fimm mínúturnar liðu. Enda var niðurstaðan sú að þetta hafi þróast í hálfgerða vitleysu. Tilrauninni var því hætt árið eftir og gamla fjarlægðarvítið endurvakið.

[pull_quote_center]Það er nefnilega með fjarlægðarvítið eins og svo margt annað í golfreglunum. Ef hreyft er við því hefur það allskyns afleiðingar sem kunna að vera illframkvæmanlegar, ósanngjarnar eða á skjön við grunnhugsun golfsins. Ekki er þar með sagt að reglurnar séu fullkomnar. Sífellt er unnið að betrumbótum á reglunum og því eru nýjar reglur gefnar út á fjögurra ára fresti. Fjarlægðarvítið hefur staðið óbreytt um langa tíð, ekki vegna þess að menn telji það vera fullkomið heldur vegna þess að önnur skárri útfærsla hefur ekki fundist.[/pull_quote_center]

Hörður Geirsson
hordur.geirsson@gmail.com

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ