/

Deildu:

Frá Vestmannaeyjavelli, Eimskipsmótaröðin 2015. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Stjórn Golfsambands Íslands tók fyrir á stjórnarfundi sínum þann 10. mars s.l. erindi frá Golfklúbbi Vestmannaeyja. Í því erindi kemur fram að stjórn GV felur formanni klúbbsins og framkvæmdastjóra að fylgja eftir umsókn GV frá því í júlí 2013 um að Íslandsmót í golfi verði haldið í Eyjum árið 2018 á 80 ára afmælisári GV.

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, hafði eftirfarandi að segja um beiðni Golfklúbbs Vestmannaeyja í samtali við golf.is.

„Á heimasíðu Golfsambands Íslands eða í öðrum útgefnum gögnum sambandsins er varða Íslandsmótið í golfi næstu árin er ekki að finna upplýsingar um staðarval fyrir Íslandsmótið 2018. Þvert á móti hefur í umræðum innan golfhreyfingarinnar, t.a.m. á nýafstöðnu Golfþingi og í vinnu starfshóps Eimskipsmótaraðarinnar, verið gengið út frá því að ekki hafi verið tekin ákvörðun um keppnisvöll Íslandsmótsins 2018. Virðist slík umræða hafa verið byggð á misskilningi.

Af skoðun fundargerða stjórnarfunda golfsambandsins, sem haldnir voru á árinu 2013, má sjá að málið var formlega tekið fyrir á fundi stjórnar þann 8. nóvember 2013. Á þeim fundi var umsókn GV samþykkt auk þess sem samþykkt var að leggja fyrir Golfþing tillögu um tiltekna mótsstaði allt til ársins 2018.

Þegar þinggerð Golfþings 2013 er skoðuð verður hinsvegar ekki séð að tillagan hafi verið borin undir þingið. Það breytir því ekki að raunin hefur verið sú að allir þeir golfklúbbar sem nefndir voru í tillögunni urðu, eða verða, framkvæmdaaðilar Íslandsmótsins 2014-2017. Þá er rétt að nefna að ákvörðun stjórnar golfsambandsins um framtíðar keppnisvelli Íslandsmóta eða annarra golfmóta, hefur ekki verið háð samþykki Golfþings, eftir því sem ég kemst næst. Þá er ekkert í lögum eða reglum sambandsins sem kveður á um slíkt samþykki.

Eins og áður segir tók stjórn GSÍ framangreint erindi GV fyrir á stjórnarfundi sínum 10. mars s.l. Stjórn golfsambandsins litur svo á að samþykki fyrir því að Íslandsmótið í golfi verði haldið í Vestmannaeyjum árið 2018 liggi nú þegar fyrir og því er engin ástæða til að samþykkja umsóknina á nýjan leik. Vestmannaeyjavöllur er kærkominn vettvangur fyrir Íslandsmótið í golfi árið 2018 og lýsir golfsambandið yfir mikilli tilhlökkun vegna undirbúnings og alls samstarfs í tengslum við framkvæmd mótsins,“ segir Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands.

[pull_quote_right]Íslandsmótið í golfi fer fram á eftirtöldum stöðum 2016-2018.
2016: Jaðarsvöllur, Golfklúbbur Akureyrar.
2017: Hvaleyrarvöllur, Golfklúbburinn Keilir
2018: Vestmannaeyjavöllur, Golfklúbbur Vestmannaeyja.[/pull_quote_right]

Á síðasta golfþingi var samþykkt að fela stjórn golfsambandsins að útfæra hvernig hægt verði að flokka golfvelli á Íslandi. Markmiðið með flokkuninni væri m.a. að stigskipta golfleikvöngum og völlum, setja kvarða og leiðbeiningar um lágmarksviðmið þeirra. Þessi aðferðafræði yrði notuð við val á mótsstöðum og tæki gildi frá og með árinu 2019.

Tinna Jóhannsdóttir, stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar 2015, slær hér á 10. teig í Eyjum. Mynd/RÓ.
Tinna Jóhannsdóttir, stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar 2015, slær hér á 10. teig í Eyjum. Mynd/RÓ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ