/

Deildu:

Íris Dögg Ingadóttir
Auglýsing

Íris Dögg sló draumahöggið á sínu fyrsta einstaklingsmóti

„Ég kastaði frá mér kylfunni, greip fyrir andlitið og öskraði „eruð þið ekki að grínast í mér“ með gleðitárin í augunum,“ segir Íris Dögg Ingadóttir kylfingur úr Golfklúbbi Álftaness sem afrekaði að slá draumahöggið í sínu fyrsta golfmóti sem einstaklingur í maí sl. Viðtalið birtist fyrst í tímaritinu golf.is / Golf á Íslandi í júní.

„Ég var að fara 18 holur í sjöunda sinn á ferlinum. Og þetta var í fyrsta sinn sem ég tók þátt í móti sem einstaklingur. Ég tók þátt í Texas-móti sl. haust og það var fyrsta golfmótið mitt. Draumahöggið sló ég á fyrsta stigamóti Golfklúbbs Álftaness. Þetta var á 8. braut, líklega um 90 metra högg og ég sló með 9 járni. Boltinn lenti hægra megin við flaggið, rúllaði síðan upp í hallann á flötinni og í fallegum boga beint ofan í holuna,“ segir Íris Dögg þegar hún rifjaði upp höggið fyrir Golf á Íslandi. 

Upphafsteigurinn á 8. braut vallarins hefur ekki alltaf verið í uppáhaldi hjá Írisi Dögg. 

„Ég hef ekki góða reynslu af þessum teig og er tiltölulega nýhætt að skjálfa á beinunum að slá boltann beint í sefið fyrir framan teiginn. Og ég hef líka hugsað um að ef höggið verði of langt þá fari boltinn í grjótgarðinn og beint niður í fjöru. Þannig að mér leið bara vel þegar ég sá að boltinn lenti á flötinni. Síðan fór hann ofan í og ég gerði mér alveg grein fyrir því hvað hafði gerst. Ég kastaði alla vega frá mér kylfunni, greip fyrir andlitið og öskraði „eruð þið ekki að grínast í mér“ með gleðitárin í augunum. Meðspilarar mínir í ráshópnum og þeir sem voru í næsta nágrenni klöppuðu allir. Sigríður Lovísa Sigurðardóttir vinkona mín úr blakliðinu hér á Álftanesi var með mér. Einnig hann Böðvar Breki sem er níu ára og móðir hans sem var aðstoðarmaður Böðvars Breka í mótinu. Sá stutti viðurkenndi fúslega að hann væri geggjað öfundsjúkur að hafa ekki náð þessu. Við flötina voru einnig tveir ungir drengir að veiða golfbolta upp úr sefinu. Þeir voru mun nær en við og sáu þetta því mun betur en við hin.“

Íris Dögg var ekki viss um hvernig hún mætti fagna slíku afreki á golfvellinum og hún gleymdi einnig að geyma golfboltann sem hún sló draumahöggið með. 

„Ég var ekki viss um hvort það ætti að fagna eða hvort það mætti hreinlega. Við gáfum okkur smá stund til að taka mynd af mér við flaggið og síðan drifum við okkur áfram. Það var annar ráshópur að bíða og við gátum því ekki fagnað lengi á flötinni.

Eftir hring bauð Sigga mér upp á hvítvínsglas í golfskálanum. Ég fékk margar hamingjuóskir og innileg faðmlög frá klúbbfélögum.

Ég fékk síðar að vita það að fagna ætti slíku með kampavíni. Ég gleymdi líka að geyma boltann sem ég sló draumahöggið með. Ég týndi honum í skurði á þriðju braut á síðari hringnum.“

Golf og blak 

„Ég fékk golfsett þegar ég varð fertug árið 2013. Það hefur tekið langan tíma að koma mér af stað. Síðastliðna tvo vetur höfum við blak-golf vinkonurnar verið í læri hjá Karen Sævarsdóttur. Við mættum einu sinni í viku í fimmtán, tuttugu skipti. Það gerði mikið fyrir mig. Mér fannst ekkert gaman að byrja í nýju sporti og vera grútléleg. Kennslan og æfingarnar breyttu öllu. Ég fór í golfið til að eiga áhugamál með manninum mínum og eiga kost á því að vera úti í náttúrunni á sama tíma.

Golfsagan mín er ekki löng. Ég spila því mest á heimavellinum á Álftanesi, ég hef komið á fjóra aðra velli á Íslandi og leikið á einum á Bretlandi. Það sem heillar mig mest við golfið er útiveran í góðum félagsskap. Og tilhugsunin um að geta stundað þessa íþrótt í mörg ár til viðbótar er einnig heillandi. Það er ekki eins líklegt með blakíþróttina sem ég hef stundað undanfarin fimmtán ár. Markmið sumarsins er að fá forgjöf svo að Karen þjálfari hætti að kalla mig forgjafarsvindlara. Og að þora að taka þátt í golfmótum. Ég var skjálfandi af stressi fyrir þetta mót. Dóttir okkar fann það alveg og kom til mín og knúsaði mig. Hún spurði mig síðan: „Hvað er það versta sem gæti gerst?“ Ég þarf víst að fara að huga að nýjum markmiðum fyrir sumarið,“ segir Íris Dögg Ingadóttir. 

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ