/

Deildu:

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.
Auglýsing

Golfsettinu var komið fyrir inni í bílskúr í október í fyrra. Á þeim tíma var farið að kólna og ekki leið á löngu þar til fyrstu snjókornin létu sjá sig. Það var komið að skiptingu. Frostið og veturinn komu inn á og haustið fór af leikvelli.

Síðastliðinn vetur var frekar þungur en þó gat maður af og til yljað sér við það að fylgjast með golfi í sjónvarpinu þar sem bestu kylfingar heims léku sér á iðagrænum golfvöllum í brakandi sólskini. Huggunin fólst í því að það styttist í sumarið.

Með vorinu var útlitið gott. Vellirnir komu vel undan vetri og veðrið var oft milt, þótt kalt væri loftið. Þegar ég gerði tilraun til þess að fara í golf, byrjaði þó að snjóa. Ég reyndi fjórum sinnum en í hvert sinn snjóaði meira en síðast. Það var eins og einhver væri að senda mér skilaboð. Ég ákvað því að gera öllum kylfingum landsins greiða og lagði golfsettið aftur inn í bílskúr. Veturinn var greinilega ekki búinn.

Allan apríl- og maímánuð var ógeðslegt veður, hreint skelfilegt. Hitinn fór varla upp fyrir 8 gráður og maí var sá vætusamasti í sögunni. Mergjað! Frábær byrjun á golftímabilinu, eða hitt þó heldur. Maður hafði hlakkað til að byrja í golfi á nýjan leik en á hverjum degi var slökkt í þeim daufa vonarneista sem bærðist um í brjóstinu.

Um þetta leyti byrjuðu golfþættirnir á RÚV. Þar sá maður upptökur frá árinu áður, þar sem íslenskir kylfingar skoppuðu léttklæddir um græna golfvelli ársins á undan. Saltinu var núið í sárið. Vorið var ekki einu sinni komið og í fréttunum var sagt frá því að sala á gasgrillum væri í sögulegu lágmarki. Til að bíta höfuðið af skömminni kynnti golfsambandið nýjan samstarfssamning við Piz Buin, sólarvarnarframleiðandann. Var verið að gera grín að kylfingum, hugsaði ég með mér.

En loksins kom sólin og hitinn fór upp fyrir 10 gráður í fyrsta sinn í langan tíma. Veðurspá næstu daga hljóðaði upp á létt ský á stöku stað og hitastig sem ekki kallaði á snjógalla og eyrnaskjól. Biðin var á enda. Sumarið var komið.

Íslenskir kylfingar hópuðust á internetið til að panta sér rástíma á golf.is. Golfsambandið hafði kynnt til leiks nýja og glæsilega heimasíðu, sem íslenskir kylfingar áttu að leika sér að í snjallsímum sínum. Nú var öll biðin þess virði. Nema hvað golf.is virkaði ekki og við gátum ekki pantað okkur rástímann, sem við höfðum beðið svo lengi eftir. Þvílík byrjun á sumrinu.

Þótt við hjá golfsambandinu höfum litla sem enga stjórn á veðrinu þá berum við fulla ábyrgð á golf.is. Vefurinn er okkar stærsta og verðmætasta eign og við höfum mikinn metnað þegar kemur að honum.

Við erum miður okkar yfir því hvernig til tókst og biðjumst innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta olli kylfingum og klúbbum. Vonbrigði okkar eru mikil og við leynum því ekki.

Undanfarna mánuði hafa fjölmargir lagt nótt við nýtan dag við að endurgera vefinn og væntingarnar voru miklar. Okkur langaði að færa kylfingum fallega sumargjöf. Það var því ömurlegt að sjá hvernig fór, þegar vefurinn var loksins kynntur til leiks.

Við erum miður okkar yfir því hvernig til tókst og biðjumst innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta olli kylfingum og klúbbum. Vonbrigði okkar eru mikil og við leynum því ekki.

Til að koma í veg fyrir frekari óþægindi höfum við tekið gamla vefinn aftur í notkun og munum ekki gera frekari breytingar fyrr en næsta haust, þegar lagfæringar og enn meiri prófanir hafa farið fram. Það borgar sig engan veginn að gera breytingar þegar golftímabilið er komið á fullan snúning og því munum við bíða þar til aftur hægist um.

Fall er fararheill, segir einhvers staðar. Nú virðist sumarið loksins komið og allt rúllar eins og það á að gera. Það er engin ástæða til að gera ráð fyrir öðru en frábæru sumri með forgjafarlækkun fyrir alla. Við hlökkum til að sjá ykkur á golfvellinum. Góða skemmtun og gleðilegt sumar.

Haukur Örn Birgisson
forseti Golfsambands Íslands

 

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ