Dagbjartur Sigurbrandsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús, GR, reyndu á dögunum fyrir sér á 2. stigi úrtökumóta fyrir DP World Tour mótaröðina, sem er sú sterkasta í Evrópu. Fjögur úrtökumót voru leikin samtímis dagana 30. október – 2. nóvember. Í hvert mót mættu 72 kylfingar til leiks og spiluðu um 24 laus sæti í lokaúrtökumótinu.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur lék á Fontanals Golf Club vellinum í Girona.
Eftir fyrstu tvo hringi mótsins var Guðmundur jafn í 47. sætinu. Hann lék fyrri hringinn á 74 höggum, þremur yfir pari, og þann seinni á 68 höggum, þremur undir pari. Eftir þriðja hring upp á 68 högg var Guðmundur í góðum séns, en lokahringur upp á 72 högg reyndist ekki nóg. Hann endaði jafn í 49. sæti mótsins.

Dagbjartur Sigurbrandsson
Dagbjartur lék á Desert Springs Golf Club svæðinu í Almería.
Eftir fyrstu tvo hringina var Dagbjartur jafn í 21. sætinu á fjórum höggum undir pari. Fyrsta hringinn lék hann á 73 höggum, einu yfir pari. Hann fékk fjóra fugla, þrjá skolla og einn tvöfaldan. Annan hringinn lék Íslandsmeistarinn frábærlega, fékk sex fugla, einn skolla og kom í hús á 67 höggum. Það reyndist einn besti hringur dagsins og fór Dagbjartur upp um 25 sæti á milli daga. Hann lék seinni tvo hringina samanlagt á pari og lauk leik í 42. sæti mótsins.

Haraldur Franklín Magnús
Haraldur Franklín þurfti ekki að leika á 1. stiginu og komst beint inn í mótið eftir góðan árangur á HotelPlanner Tour mótaröðinni í sumar. Þar endaði hann í 63. sæti stigalistans, þrátt fyrir að hafa leikið í mikið færri mótum en flestir kylfingar mótaraðarinnar.
Mót hans fór fram á Isla Canela Links vellinum í Huelva.
Eftir tvo hringi var Haraldur jafn í 48. sæti á einu höggi undir pari. Hann lék fyrri hringinn á 69 höggum, tveimur undir pari, og þann seinni á 73 höggum. Haraldur var fimm höggum frá öruggu sæti fyrir seinni hluta mótsins. Eftir frábæran þriðja hring var Haraldur kominn í góða stöðu, en lokahringurinn reyndist erfiður og 56. sætið niðurstaðan.

								
				
				
				
				
				
				
								
                                
                                
                                
                                
                                
