/

Deildu:

Þórður Rafn Gissurarson.
Auglýsing
– Íslandsmeistarinn Þórður Rafn ætlar sér stóra hluti í atvinnumennskunni – viðtal úr 5. tbl. Golf á Íslandi 2015

[dropcap]Þ[/dropcap]órður Rafn Gissurarson átti eftirminnilegt keppnistímabil á árinu 2015. Atvinnukylfingurinn úr GR fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta sinn á ferlinum eftir að hafa endaði í þriðja sæti þrjú árin þar á undan. Þórður ætlar sér stóra hluti á næstu misserum en hann mun leika á þýsku Pro-Golf mótaröðinni á næsta ári líkt og hann hefur gert frá árinu 2012. Pro-Golf mótaröðin hefst í Marokkó í janúar og segir Þórður að hann ætli að meta ástandið í þessum heimshluta áður en hann tekur lokaákvörðun um hvort hann hefji leik á þessum tíma. „Ég er farinn að þekkja fólkið of vel á Pro-Golf mótaröðinni og það er ekki góðs viti – ég þarf að komast á næsta stig.“

Aðspurður segir Þórður að hann hugsi ekki mikið um árangur liðins árs en viðurkennir að það sé gaman að rifja upp þá tilfinningu sem fylgdi titlinum.

„Það er gaman að rifja þetta upp og hugsa til baka. Þessi titill var ákveðinn áfangi en það þýðir ekkert að vera að hugsa of mikið um það sem er liðið. Ég þarf að halda áfram. Það var vissulega ákveðinn léttir að hafa rofið múrinn og farið alla leið. Ég hef verið í baráttunni um sigurinn á undanförnum árum en það man enginn eftir því hver er í öðru eða þriðja sæti á Íslandsmótinu. Árið 2014 á Leirdalsvelli ákvað ég að taka áhættu á lokahringjunum í baráttunni við Birgi Leif Hafþórsson. Það tókst ekki og ég féll úr öðru sæti í það þriðja. Mér var alveg sama um það. Ég var því staðráðinn í að gera betur á Íslandsmótinu í ár og það hefði verið skemmtilegra ef Birgir hefði verið með. Sigur er sigur,“ segir Þórður en hann náði sínum besta árangri á Pro-Golf mótaröðinni á þessu ári.

Þórður Rafn Gissurarson.
Þórður Rafn Gissurarson.

„Það gekk betur á Pro-Golf en áður og Íslandsmeistaratitillinn var hápunkturinn. Ég hefði viljað komast upp úr Pro-Golf mótaröðinni og beint inn á Áskorendamótaröðina. Til þess hefði ég þurft að vera í einu af fimm efstu sætunum á stigalistanum. Það voru ákveðin vonbrigði með það en heilt yfir var þetta gott ár. Eitthvað sem maður getur byggt á,“ segir Þórður en hann endaði í 27. sæti á stigalistanum og lék á alls 18 mótum. Besti árangur hans var 3. sæti.

Getum bætt umgjörðina

Í haust reyndi Þórður við úrtökumót Evrópumótaraðarinnar en hann náði ekki að komast í gegnum 1. stigið á móti í Þýskalandi.

„Þetta úrtökumót er ekki ókleifur veggur. Ég spilaði ekki vel og sjálfstraustið var ekki til staðar. Þetta var „ströggl“ – og vonbrigði. Ég tók mér vikufrí í sumar frá golfinu, sem dugir mér alveg. Ég hugsa um golf alla daga, alltaf, stundum er ég kannski of mikið að pæla í hlutunum. [quote_right]Ég elska þessa íþrótt, það er bara ekkert öðruvísi en það. Eitthvað sem ég hef gert frá barnsaldri.[/quote_right]

Líf atvinnukylfinga á Íslandi er enginn dans á rósum og eftir nokkurra ára veru í þessum heimi segir Þórður að keppinautar hans séu flestir í allt annarri veröld.

„Það gerir þetta enginn eins og við erum að gera. Forskot og góðir aðilar hafa stutt vel við bakið á mér. Þegar ég ræði við strákana sem eru á Pro-Golf mótaröðinni þá er enginn þeirra að gera hlutina eins og ég þarf að gera þá. Þeir eru margir með styrktaraðila úr klúbbunum sínum, einstaklinga sem eru vel efnaðir. Þeir eru margir hverjir með umboðsmenn sem koma þeim inn á mót á Áskorendamótaröðinni. Ég veit um marga sem fá 20 milljónir kr. á ári í styrki og enn fleiri sem eru með 10 milljónir kr. í styrki. Það er líka einfaldara fyrir þá að komast á mótin í Evrópu og þeir geta keyrt á milli staða á meðan ég þarf að fljúga í öll mót. Þetta snýst allt um peninga, ef maður er ekki með peninga, þá er allt erfiðara og meiri pressa sem fylgir því að ná í tekjur á mótaröðinni.“

Þórður Rafn Gissurarson.
Þórður Rafn Gissurarson.

En hvernig er hægt að bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnukylfinga?

„Að mínu mati þarf að bæta umgjörðina í kringum þá sem eru að reyna að verða atvinnukylfingar. Í dag fáum við styrk í gegnum Forskot en við erum mest ein að æfa og keppa. Ég held að það væri betra fyrir alla ef við gætum verið meira saman að æfa, þá væri samkeppnin meiri og við sæjum betur hvað við getum gert betur. Við erum öll góðir vinir sem eru í Forskotshópnum og bestu áhugamennirnir eru einnig góðir vinir okkar. Það væri betra að mínu mati ef þessi hópur sem er að berjast við að komast í hóp þeirra bestu gæti unnið meira saman – það yrði skemmtilegra og árangursríkara.

Kostnaðurinn við eitt ár í atvinnumennsku er að lágmarki 6-7 milljónir kr. og það er bara kostnaðurinn við að æfa, keppa, og halda sér á lífi með mat og húsnæði. Ég geri ekkert annað en að æfa og þetta er meira en full vinna. Þetta kostar mikið en það er erfitt að fá styrktaraðila á bak við sig á Íslandi. Forskot gerir góða hluti en ég hef einnig verið að leita til fyrirtækja en það er mjög erfitt að fá fjármagn. Ég er með mitt eigið fyrirtæki, leigi m.a. út hús á Flórída, er með umboð fyrir golfkerrur en ef ég væri ekki með gott stuðningsnet í kringum mig þá væri ég löngu hættur.“

„Langtímaplanið er að komast inn á Evrópumótaröðina. Ég hef verið að breyta aðeins áherslunum í markmiðasetningunni hjá mér. Brjóta markmiðin upp í smærri markmið og sjá árangur fyrr og þannig kemst ég alltaf nær og nær langtímamarkmiðinu. Sem dæmi þá set ég mér markmið að bæta stutta spilið og ef ég næ að bæta það um ákveðið mikið þá tek ég skrefið nær langtímamarkmiðinu. [quote_left]

Hugarþjálfun er eitt af stóru atriðunum í æfingunum hjá mér.

[/quote_left]Sóknarleikur í forgangi

Á undanförnum misserum hefur Þórður lagt áherslu á að vera sókndjarfari og beittari í leik sínum.

Ég hef reynt að vera sókndjarfari í leik mínum en áður. Það hefur hjálpað mér mikið en þetta tekur allt tíma. Við höfum haft Birgi Leif Hafþórsson til þess að gefa góð ráð varðandi alla þessa þætti en hann hefur langmestu reynsluna. Keppinautar mínir eru með mun fleiri sem geta aðstoðað þá við ýmsa þætti. Við erum enn að móta þetta á Íslandi en framfarirnar eru samt miklar.“

„Mér finnst þessi venjulega tölfræði sem er alltaf notuð ekki alltaf marktæk. Það er hægt að hitta allar flatir sem er fínt. Það er samt mikill munur að vera 25 metra frá stönginni eða 1 metra. Ég er farinn að hugsa þetta aðeins öðruvísi en áður. Ég vil slá lengra í upphafshöggunum og tek oftar dræverinn af teig en áður. Ég skrefa allar vegalengdir á flötunum frá stöng að bolta og held utan um þá tölfræði samviskusamlega. Ég er mjög nákvæmur í þessari skráningu og er með risastórt Excel-skjal með þessum upplýsingum. Ég skrái hvernig vindurinn var á viðkomandi braut sem ég spila, hvar boltinn endaði á braut og flöt, og þannig fæ ég upplýsingar sem ég get unnið með. Hvort ég var of stuttur eða skakkur eða bæði í innáhöggunum. Eftir síðasta tímabil þá sá ég að ég var oft of stuttur í innáhöggunum og einnig í teighöggunum. Ég var of varfærinn af teig og var ekki nógu sókndjarfur í innáhöggunum. Það eru ekki margar holur á Íslandi þar sem hindranir eru fyrir framan flötina – líkt og á fimmtándu í Grafarholtinu. Það er nánast alltaf hægt að slá of stutt og láta boltann rúlla inn. Þetta er ekki hægt á flestum golfvöllum sem eru notaðir í keppni erlendis. Þetta er eitthvað sem við Íslendingar venjum okkur á og þurfum svo að laga þegar við förum í keppni erlendis. Það tekur tíma að ná þessari hugsun út og ég hef markvisst verið að vinna í því undanfarin ár. Það eru reyndar öðruvísi aðstæður á völlum erlendis, mýkri flatir sem taka vel við boltanum þegar hann lendi á þeim, en flatirnar á Íslandi eru oft mjög harðar og taka ekki vel við innáhöggunum.“

[quote_box_right]

Árangur Þórðar á Íslandsmótinu:

2010: 4. sæti.
2011: 8. sæti.
2012: 3. sæti.
2013: 3. sæti.
2014: 3. sæti.
2015: 1. sæti.

[/quote_box_right]

[quote_box_left]Árangur Þórðar á Pro-Golf mótaröðinni:
2015: 27. sæti (18 mót).
2014: 64. sæti (15 mót).
2013: 96. sæti (13 mót).
2014: 77. sæti (14 mót)[/quote_box_left]

 

Þórður Rafn Gissurarson.
Þórður Rafn Gissurarson.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ