Auglýsing

„Það sem stóð upp úr var að kynnast liðsfélögunum. Mér gekk alveg ágætlega í heildina. Það tók tíma að venjast aðstæðum. Mér leið eins og ég væri að spila í gufubaði, mikill raki og 37 stiga hiti flesta dagana,“ segir Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2022 og Evrópumeistari U16 ára, sem keppti með úrvalsliði Evrópu á Filippseyjum dagana 15.-18. maí s.l.

Smelltu hér fyrir úrslit mótsins.

Mótið heitir Asia Pacific Golf Confederation (APGC) Junior Championship og alls tóku 12 lið þátt. Keppt var á Orchard Golf & Country Club en þar eru tveir golfvellir í efstu gæðahillu. Vellirnir eru kenndir við goðsagnirnar Arnold Palmer og Gary Player. Fjölmörg alþjóðleg mót hafa farið fram á þessu golfsvæði. Mótið sem Perla Sól tók þátt í fór fram á Palmer vellinum þar sem Tour Qualifying School of Asian PGA er haldið

„Ég hef aldrei áður keppt í Asíu og þetta mót var góð reynsla. Ferðlagið var langt en það var mjög gaman að fá tækifæri til að upplifa menninguna á Filippseyjum. Það er allt mjög ólíkt því sem ég er vön, mikið af fólki, gríðarlegur hiti og umferðin hæg.“

Ferðalagið frá Íslandi til Filippseyja tók sinn tíma en Perla og faðir hennar Sigurbrandur Dagbjartsson voru samtals í 24 tíma á flugi frá Íslandi – og tóku þau þrjú flug til að komast á leiðarenda. Farangur þeirra skilaði sér ekki til Filippseyja og var Perla ekki með fötin sín eða golfsettið fyrstu tvo dagana í ferðinni.

„Þegar ég mætti var langt síðan ég spilaði 18 holur þar sem ég var nýbúinn í lokaprófum í skólanum – og ég hafði ekki tíma til að æfa mjög mikið fyrir þetta mót. Ég gat ekki notað golfsettið mitt á æfingadögunum þar sem að töskurnar okkar og golfsettið mitt skilaði sér ekki með okkur til Filippseyja. Ég fékk lánuð föt á æfingadögunum en það er frekar flókið að vera ekki með sínar eigin kylfur. Ég sló bara nokkur högg með kylfum frá vinkonu minni á æfingasvæðinu en ég nýtti bara tímann til að skoða völlinn.“

Tvö tveggja manna lið léku fyrir hönd Evrópu. Perla Sól var í liði með Jack Murphy frá Írlandi. Spænsku kylfingarnir Jorge Siyuan Hao og Anna Cañado voru saman í liði.

Keppnisfyrirkomulagið var höggleikur, 54 holur, þar sem að keppt var í einstaklings – og liðakeppni.

Perla lék vel á lokahringnum eða 72 höggum og á pari vallar. Íslandsmeistarinn var ekkert sérstaklega ánægð með fyrstu tvo hringina þar sem hún lék á 80 höggum í tvígang.

„Lokahringurinn var flottur og þá var ég komin í gírinn og búinn að læra betur á grasið og flatirnar. Fyrstu tveir dagarnir fóru í að aðlagast aðstæðum og vellinum – og þá gekk mér ekkert sérstaklega vel,“ segir Perla en hún endaði í 16. sæti í einstaklingskeppninni og 15. sæti í liðakeppninni.

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ