Íslandsmótinu í golfi lauk í gær á Hvaleyrarvelli hjá Golfklúbbnum Keili.
Dagbjartur Sigurbrandsson, GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, eru Íslandsmeistarar 2025. Þetta er fyrsti titill Dagbjarts, en sá fjórði hjá Guðrúnu.
Mikil spenna var í bæði karla- og kvennaflokki. Úrslitin réðust á lokaholunni hjá körlunum, en leika þurfti umspil til að fá sigurvegara í kvennaflokkinn.
Staðan
1. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR 283 högg (67-71-73-72) (-5)
2. Axel Bóasson, GK 284 högg (67-70-72-75) (-4)
T3. Aron Snær Júlíusson, GKG 286 högg (72-72-69-73) (-2)
T3. Veigar Heiðarsson, GA 286 högg (69-73-74-70) (-2)

Fyrir lokahringinn var Dagbjartur tveimur höggum frá efsta sætinu. Axel Bóasson hafði leikið frábærlega á heimavelli og haldið forystu sinni frá fyrsta degi. Dagbjartur setti tóninn strax á fyrstu holu og fékk þar magnaðan örn. Strax var ljóst að mikið einvígi myndi fara fram á Hvaleyrarvelli. Dagbjartur og Axel skiptust á að leiða mótið. Aron Snær Júlíusson blandaði sér einnig í baráttuna með frábærri spilamennsku á fyrri níu holunum. Þegar á síðustu holuna var komið leiddi Dagbjartur með einu höggi. Bæði hann og Axel áttu góðan séns á fugli, en Axel þó nær. Eftir að Dagbjartur missti pútt sitt fyrir fugli átti Axel möguleika á því að komast í umspil. Púttið geigaði og Dagbjartur Íslandsmeistari karla í golfi 2025.

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK 294 högg (72-73-76-73) (+6)
2. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG 294 högg (70-70-76-78) (+6)
3. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GKG 297 högg (75-75-72-75) (+9)

Gífurleg spenna var í kvennaflokkinum. Hulda Clara leiddi með fimm höggum fyrir lokadaginn, en þær Guðrún voru jafnar strax eftir þrjár holur. Þaðan skiptust þær á að halda forystunni, og var aldrei mikið sem skildi þær að.
Þegar kom að átjándu holunni voru þær jafnar, og möguleiki á umspili góður. Þar fengu þær báðar góð pör, og þurfti því að leika þrjár holur til viðbótar, til að krýna nýjan Íslandsmeistara. Leiknar voru holur 16-18. Bæði Hulda og Guðrún höfðu leikið erfiðu lokaholurnar á fimm höggum yfir pari í mótinu, og því engin leið að áætla sigurvegara. Guðrún lék holurnar frábærlega, raðaði inn pörum og tryggði sér með því Íslandsmeistaratitil kvenna 2025.

Frábæru móti er hér með lokið. Óskum öllum keppendum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og Golfklúbbnum Keili til hamingju með afrekið – sjáumst aftur að ári!
Smelltu hér fyrir lokastöðuna á Íslandsmótinu í golfi 2025
Smelltu hér fyrir myndasafn mótsins