/

Deildu:

Sigrún Þorsteinsdóttir. Mynd/GR
Auglýsing

Þegar ég fer út á golfvöll næ ég að gleyma öllu öðru og vera í núinu. Það er ómetanlegt og að sjálfsögðu er félagsskapurinn og útiveran einnig stór þáttur í því hversu skemmtilegt það er að vera í golfi,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir í viðtali sem birtist í 1. tbl. tímaritsins Golf.is/ Golf á Íslandi 2019.

Sigrún ólst upp á Hömrum í Reykholti í Borgarfirði en hún hefur á undanförnum árum starfað sem sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS. Sigrún segir að golfferð til Spánar hafi kveikt neistann hvað golfið varðar.

„Maðurinn minn byrjaði í golfi áður en ég gaf mér tíma sjálf til að fara af stað. Ég byrjaði á því að fara í golfskóla á Costa Ballena á Spáni. Það var frábær leið til að byrja. Í hita og sól með frábæra kennara sem hvöttu okkur áfram. Framfarirnar voru miklar í upphafi og eftir þessa golfferð var ekki aftur snúið.“

Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið gott síðasta sumar náði Sigrún að leika yfir 60 hringi – sem er vel af sér vikið miðað við aðstæður.

„Markmiðið er að lækka forgjöfina eitthvað í sumar en ég er með 28,5 í forgjöf. Ég var ekki alveg nógu sátt við framfarirnar á síðasta sumri. Ég er með keppnisskap og til að mynda þá heyra börnin mín mig aldrei blóta nema á golfvellinum. Það er alltaf einhver keppni í gangi á milli okkar í golfhópnum sem ég er hluti af, það gerir leikinn enn skemmtilegri að vera með keppni í gangi. Ég náði að sigra á golfmóti í golfferð núna í vor á El Rompido og það gefur mér byr undir báða vængi fyrir golfsumarið 2019.“

Félagsskapurinn er Sigrúnu mikilvægur en golfhópurinn hennar leikur ávallt á þriðjudögum. Sigrún er félagi í tveimur klúbbum, Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Kiðjabergs.

„Ég er að fara inn í mitt þriðja ár sem félagi í golfklúbbi. Ég skrái mig stundum með kylfingum sem ég þekki ekki og það hefur aldrei verið neitt vandamál. Í upphafi hafði ég sjálf ímyndað mér að ég væri bara til trafala á golfvellinum. Og ég fór bara út á völl ef ég vissi að það væri nánast enginn á vellinum. Það er algjör óþarfi að nálgast golfið með því hugarfari. Það hafa allir verið byrjendur í golfi. Ég hef bara upplifað stuðning og velvilja frá þeim sem hafa tekið á móti mér á upphafsárum mínum í golfinu,“ segir Sigrún A. Þorsteinsdóttir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ